English Icelandic
Birt: 2020-03-10 21:00:00 CET
Marel hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Marel: Tilkynning um framkvæmd endurkaupaáætlunar

Stjórn Marel hefur tekið ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar, þar sem keyptir verða allt að 25.000.000 eigin hlutir í félaginu, eða sem samsvarar 3,2% af útgefnu hlutafé. Tilgangur endurkaupanna er að lækka hlutafé félagsins og standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins.

Marel á nú 10.773.814 eigin hluti, eða sem nemur 1,4% af útgefnu hlutafé í félaginu. Endurkaupaáætlunin skal vera í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 596/2014 um markaðssvik („MAR“), og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2016/1052. 

Kvika banki hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar og taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum í félaginu og tímasetningu kaupa samkvæmt endurkaupaáætluninni, óháð félaginu og án áhrifa frá því. Framkvæmd áætlunarinnar verður í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í Kauphöll Íslands hvort sem er hærra. Kaup samkvæmt endurkaupaáætluninni verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags munu að hámarki nema 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf í félaginu í Kauphöll Íslands í febrúar 2020, sem nemur 313.752 hlutum. Viðskipti félagsins með eigin hluti á grundvelli endurkaupaáætlunarinnar verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram. Endurkaupaáætlunin gildir til 4. september 2020 í síðasta lagi, en félaginu er heimilt að hætta við endurkaupin hvenær sem er.

Samkvæmt heimild aðalfundar félagsins í mars 2019, er félaginu heimilt að kaupa eigin hluti allt að 10% af hlutafé félagsins. Kaup á eigin hlutum skulu vera í samræmi við skilyrði 55. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Heimildin gildir til 6. september 2020.