English Icelandic
Birt: 2020-02-06 17:15:46 CET
Landsbankinn hf.
Ársreikningur

Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir árið 2019

  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2019 nam 18,2 milljörðum króna, eftir skatta.
  • Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 7,5% á árinu 2019, samanborið við 8,2% arðsemi árið 2018. Arðsemi eiginfjár án bankaskatts var 9,2% en markmið bankans er að ná að lágmarki 10% arðsemi eiginfjár, að teknu tilliti til áhrifa bankaskatts.
  • Kostnaðarhlutfall lækkaði á milli ára og var 42,6% á árinu 2019 samanborið við 45,5% árið 2018.
  • Útlán Landsbankans jukust um 76 milljarða króna. Vanskilahlutfall útlána í árslok 2019 var 0,8%, sama hlutfall og í árslok 2018.
  • Eigið fé Landsbankans nam 247,7 milljörðum króna í árslok 2019 og eiginfjárhlutfallið var 25,8% af áhættu­grunni.
  • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 9,5 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2019, eða sem nemur 0,40 krónu á hlut.
  • Ársskýrsla Landsbankans og áhættuskýrsla fyrir árið 2019 koma út samhliða birtingu ársuppgjörsins. Skýrslurnar eru aðgengilegar á vef bankans.

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2019 nam 18,2 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 19,3 milljarða króna á árinu 2018. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 7,5% á árinu 2019, samanborið við 8,2% arðsemi árið áður. Hreinar vaxtatekjur námu 39,7 milljörðum króna árið 2019 samanborið við 40,8 milljarða króna árið á undan. Hreinar þjón­ustutekjur Landsbankans námu 8,2 milljörðum króna árið 2019 og standa í stað á milli ára. Aðrar rekstrartekjur námu 8,5 milljörðum króna á árinu 2019 samanborið við 3,6 milljarða króna á árinu 2018 sem er hækkun um 136% á milli ára. Hækkunin skýrist aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa. Neikvæð virðisbreyting útlána og krafna nam 4,8 milljörðum króna samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 1,4 milljarð króna árið 2018. Vanskilahlutfall útlána stendur í stað á milli ára en það var 0,8% í lok árs 2019 og 2018.

Rekstrartekjur bankans á árinu 2019 námu 51,5 milljörðum króna samanborið við 53,9 milljarða króna árið áður. Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,4% en var 2,7% árið áður.

Rekstrarkostnaður var 24 milljarðar króna á árinu 2019 og stendur í stað á milli ára. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,5 milljarðar króna, samanborið við 14,6 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 9,5 milljarðar króna á árinu 2019 samanborið við 9,3 milljarða króna árið 2018.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2019 var 27,5 milljarðar króna samanborið við 30 milljarða króna árið 2018. Reikn­aðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 10 milljarðar króna árið 2019 samanborið við 11,4 milljarða króna árið 2018.

Heildareignir Landsbankans jukust um 100,3 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2019 alls 1.426 milljörðum króna. Útlán jukust um 7,1% milli ára, eða um 75,7 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er aðallega vegna lána til einstaklinga. Í árslok 2019 voru innlán frá viðskiptavinum 708 milljarðar króna, samanborið við 693 milljarða króna í árslok 2018.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2019 var 247,7 milljarðar króna samanborið við 239,6 milljarða króna í árslok 2018. Á árinu 2019 greiddi Landsbankinn 9,9 milljarða króna í arð til hluthafa en alls nema arðgreiðslur bankans um 142 milljörðum króna frá árinu 2013. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2019 var 25,8%, samanborið við 24,9% í árslok 2018. Fjármálaeftirlitið gerir 20,5% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Bankaráð mun leggja til við aðalfund þann 27. mars 2020 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2019 sem nemur 0,40 krónu á hlut, eða samtals 9,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 52% af hagnaði ársins 2019.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Landsbankinn hefur verið í sókn sem endurspeglast í aukinni ánægju viðskiptavina og sterkri markaðsstöðu, ásamt traustum og stöðugum rekstri.

Aukin hagræðing í rekstri og stöðugar aðhaldsaðgerðir eiga stærstan þátt í að rekstrarkostnaður stóð nánast í stað á milli ára, þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði töluvert á milli ára og var 42,6% í lok árs 2019. Arðsemi eiginfjár var 7,5% en 9,2% ef litið er framhjá áhrifum af bankaskatti.

Mikilvægasti þátturinn í starfsemi Landsbankans er sambandið við viðskiptavini. Það er einkar góð byrjun á árinu 2020 að bankinn var í efsta sæti í Íslensku ánægjuvoginni sem byggir á könnun sem gerð var seinni hluta árs 2019 og mælir heildaránægju viðskiptavina. Við leggjum í senn mikla áherslu á persónulegt sambandi við viðskiptavini okkar og á framþróun og útgáfu stafrænna lausna. Með stafrænni þjónustu gerum við bankaþjónustu aðgengilegri og auðveldari. Með persónulegri þjónustu tryggjum við að viðskiptavinir fái trausta fjármálaráðgjöf og aðstoð þegar á reynir.

Starfsfólk bankans hefur nýtt vel þau tækifæri sem hafa gefist til að efla viðskiptasambönd og á árinu 2019 buðum við fjölmarga nýja viðskiptavini velkomna. Þetta á jafnt við um fyrirtæki sem einstaklinga. Við erum stolt af því að hafa stutt við yfir eitt þúsund fjölskyldur og einstaklinga sem voru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum en bankinn var með 38% hlutdeild í íbúðalánum til fyrstu kaupa á árinu. Landsbankinn veitir samkeppnishæf kjör þar sem því verður við komið en það er öllum ljóst að erfitt er að keppa um kjör við aðila sem búa við lægri álögur en bankinn. Skattheimta á stærri fjármálafyrirtæki, sem jafnframt er mun meiri en í nágrannalöndunum, skekkir samkeppnisstöðuna verulega og kemur niður á kjörum til viðskiptavina. Landsbankinn mun áfram vinna að því að lækka rekstrarkostnað en stærstu tækifærin til þess liggja í áframhaldandi stöðlun og einföldun á sameiginlegum innviðum fjármálakerfisins.

Sem fyrr er mikill hugur í Landsbankafólki sem vinnur nú ásamt stjórn bankans að því að móta nýja framtíðarstefnu fyrir bankann sem kynnt verður á haustmánuðum. Ný stefna bankans mun snúa að því hvernig við treystum samband okkar við viðskiptavini enn frekar og höldum áfram að skila góðri og samkeppnishæfri rekstrarniðurstöðu.“

Símafundur vegna uppgjörs

Símafundur fyrir markaðsaðila vegna uppgjörs bankans fyrir árið 2019 verður haldinn kl. 10.00, föstudaginn 7. febrúar. Fundurinn fer fram á ensku. Skrá þarf þátttöku með því að senda tölvupóst í netfangið ir@landsbankinn.is.

Fjárhagsdagatal Landsbankans

27. mars 2020 – Aðalfundur

7. maí 2020 – Uppgjör 1F 2020

30. júlí 2020 – Uppgjör 1H 2020

29. október 2020 – Uppgjör 3F 2020

11. febrúar 2021 – Ársuppgjör 2020

 

Nánari upplýsingar veita:               

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, samskipti@landsbankinn.is og í síma 410 6263

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310

Viðhengi


Landsbankinn_arsreikningur_samstu_2019.pdf
Landsbankinn_frettatilkynning_arsuppgjor_2019.pdf
Landsbankinn_glrukynning_arsuppgjor_2019.pdf