Published: 2020-01-23 22:06:29 CET
Arion banki hf.
Innherjaupplýsingar

Aflögð starfsemi og eignir til sölu hafa neikvæð áhrif á afkomu fjórða ársfjórðungs 2019 sem nemur um 8 milljörðum króna

Neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2019 mun nema um 8 milljörðum króna, að teknu tilliti til skatta. Áhrif á eignfjárhlutföll bankans eru óveruleg og eru þau áfram mjög sterk. Afkoma Arion banka á árinu 2019 að teknu tilliti til áhrifa af aflagðri starfsemi og eigna til sölu er um 1 milljarður króna. Undir aflagða starfsemi og eignir til sölu falla eignir og félög sem bankinn hyggst selja á næstu misserum og flokkast í rekstrarreikningi neðan við hagnað af áframhaldandi starfsemi.

Neikvæð áhrif á fjórðungnum skýrast einkum af tveimur þáttum:       

Valitor
Í kjölfar ákvörðunar stjórnar Valitor, dótturfélags Arion banka, frá 30. desember sl. um að ráðast í endurskipulagningu félagsins til að styrkja kjarnastarfsemi þess og snúa við taprekstri, var útbúin ný viðskiptaáætlun. Á grunni þeirrar viðskiptaáætlunar hefur verið unnið virðisrýrnunarpróf á óefnislegum eignum félagsins. Umtalsverður hluti þeirra óefnislegu eigna tengist alrásarlausnum Valitor (e. omni-channel solutions) en ákvörðun stjórnar fól í sér að verulega myndi draga úr fjárfestingu í þeirri lausn.

Stjórn Valitor samþykkti á fundi sínum fyrr í dag nýja viðskiptaáætlun félagsins. Niðurstöður virðisrýrnunarprófanna fela í sér að færa þarf óefnislega eign Valitor niður um 4 milljarða króna. Þessi virðisrýrnun mun endurspeglast í afkomu af eignum til sölu á fjórða ársfjórðungi hjá Arion banka og kemur til viðbótar við rekstartap Valitor á fjórðungnum og kostnað við söluferli félagsins, samtals 1,7 milljarð króna. Kostnaður við endurskipulagningu Valitor upp á 600 m.kr. sem greint var frá í tilkynningu frá bankanum 30. desember sl. er innifalinn í þeirri fjárhæð. Óefnisleg eign Valitor eftir virðisrýrnunina nemur um 3,4 milljörðum króna og tilheyrir starfsemi sem skilað hefur rekstrarhagnaði. Þar sem um óefnislegar eignir er að ræða hefur þessi niðurfærsla engin áhrif á eiginfjárhlutföll Arion banka.

Skipulagsbreytingar þær sem Valitor hefur ráðist í munu draga verulega úr fjárfestingarþörf og rekstrarkostnaði félagsins horft fram á veginn og miða að því að breyta afkomu félagsins úr tapi í rekstrarhagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði (e. EBITDA). Valitor er fjárhagslega sterkt, alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki sem býður fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og útgáfu. Valitor er áfram í virku söluferli.

Stakksberg
Stakksberg er eignarhaldsfélag um sílikonverksmiðju í Helguvík. Verksmiðjan er í söluferli. Vegna óvissu á mörkuðum með sílikon hafa nokkrir framleiðendur dregið úr framleiðslu  eða lokað verksmiðjum. Því er til staðar ónýtt framleiðslugeta sem leiða má líkur að hafi neikvæð áhrif á söluferli sílikonverksmiðjunnar í Helguvík. Arion banki niðurfærir því eignir Stakksbergs og nema áhrifin á afkomu fjórða ársfjórðungs um 2,3 milljörðum króna að teknu tilliti til skatta. Niðurfærslan hefur óveruleg áhrif á eiginfjárhlutföll bankans.

Fjárhagsleg markmið Arion banka til næstu ára, m.a. um arðsemi og þróun eigin fjár, haldast óbreytt. 

Afkoma bankans fyrir fjórða ársfjórðung 2019 og árið 2019 verður birt 12. febrúar 2020.

Tengiliðir:
Theodór Friðbertsson, fjárfestatengslum Arion banka, IR@arionbanki.is, s. 856 6760 og Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.

Þessar upplýsingar eru birtar í samræmi við upplýsingaskyldu Arion banka hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik.