Published: 2019-11-08 15:41:16 CET
Síminn hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Síminn hf. - Landsréttur staðfestir sýknu Símans

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um sýknu Símans hf. af skaðabótakröfu Sýnar hf. vegna verðlagningar á símtölum inn í farsímakerfi Símans á árunum 2001-2007. Einnig sýknaði Landsréttur Sýn hf. af skaðabótakröfu Símans hf. vegna verðlagningar Sýnar á sama tímabili.

Málið má rekja til verðlagningar á svokölluðum lúkningargjöldum í farsímaneti en um er að ræða gjald sem farsímafyrirtæki innheimta hvert af öðru þegar viðskiptavinir þeirra hringja í viðskiptavini í öðru farsímakerfi. Þessi gjöld hafa verið ákveðin af Póst- og fjarskiptastofnun til fjölda ára og voru hámark þeirra ákveðin af stofnuninni þann tíma sem skaðabótakröfurnar taka til.

Ofangreint mál er eitt af þeim sem að félagið stendur í málarekstri vegna, eins og fram kemur í skýringu 15 með samstæðuárshlutareikningi Símans hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2019.

Síminn fagnar niðurstöðunni og hafa þannig bæði Landsréttur og héraðsdómur staðfest að kröfur Sýnar hf. eigi ekki við rök að styðjast.

Nánari upplýsingar veitir Orri Hauksson, forstjóri Símans hf. Sími: 550-6003