Icelandic
Birt: 2019-10-29 11:16:53 CET
Sýn hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Sýn hf.: Í tilefni af villandi framsetningu í uppgjörstilkynningu Símans hf.

Í tilefni af villandi framsetningu í uppgjörstilkynningu Símans hf. (Símans) til Kauphallar fyrr í dag telur Sýn hf. (Sýn) nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri:

Í tilkynningu Símans er því haldið fram að Síminn hafi reynt að semja um dreifingu fyrir Sjónvarp Símans Premium, en ekki gengið sem skyldi fram að þessu. Ástæðan er sögð mótstaða Sýnar gegn því að selja aðgang að dreifikerfum í sinni umsjá fyrir Sjónvarp Símans Premium.

Hér eru verulega hallað réttu máli. Staðreynd málsins er sú að Síminn hefur ekki ljáð máls á að dreifa Sjónvarpi Símans Premium (áður tímavél og frelsi á Sjónvarpi Símans) sínu allar götur frá október 2015. Sú hindrun er og hefur verið í andstöðu við 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, sem bannar fjölmiðlaþjónustuveitanda (Sjónvarp Símans Premium) að beina viðskiptum að tengdu fjarskiptafyrirtæki (Símanum og Mílu). Þetta brot var staðfest með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 10/2018, sem lagði stjórnvaldssekt á Símann að fjárhæð 9 m.kr.

Nýverið breytti Síminn um afstöðu og óskaði eftir dreifingu á Sjónvarpi Símans Premium yfir dreifikerfi Sýnar. Sýn varð við beiðninni og sendi Símanum drög að samningi um slíka dreifingu í vor. Síminn kaus að ganga ekki að því tilboði á þeim tíma, en skipti um skoðun þann 4. október sl. Í millitíðinni barst frummat Samkeppniseftirlitsins, sbr. skýring 15 með árshlutareikningi Símans. Samkvæmt því frummati er samtvinnun Sjónvarps Símans Premium og Enska boltans (Símans Sport) í andstöðu við sátt og samkeppnislög. Með vísan til þessa telur Sýn að beiðni Símans um dreifingu á hinni samtvinnuðu þjónustu ómálefnalega. Eftir sem áður stendur Símanum til boða að dreifa Sjónvarpi Símans Premium á kerfum Sýnar án hinnar ólögmætu samtvinnunar.