English Icelandic
Birt: 2019-09-16 18:34:38 CEST
Arion banki hf.
Innherjaupplýsingar

Uppgreiðsla sértryggða skuldabréfaflokksins ARION CB2 og sala íbúðalánasafns munu hafa jákvæð áhrif á afkomu Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2019 um sem nemur 1,3 milljörðum króna

Eins og fram kom í afkomutilkynningu Arion banka fyrir annan ársfjórðung 2019, sem birt var 8. ágúst síðastliðinn, þá stefnir Arion banki að því að greiða að fullu upp sértryggðan skuldabréfaflokk (Arion CB2) að andvirði um 60 milljarða króna. Skuldabréfaflokkurinn er að stærstum hluta í eigu Íbúðalánasjóðs (ÍLS). Jafnframt hafa bankinn og ÍLS gert með sér samkomulag um að Arion banki selji ÍLS íbúðalánasafn að fjárhæð um 50 milljarða króna. Viðskiptavinir bankans verða ekki fyrir áhrifum af kaupum Íbúðalánasjóðs og Arion banki mun áfram þjónusta og innheimta lánin. Samningurinn og uppgreiðsla sértryggðu skuldabréfanna við ÍLS eru háð nokkrum skilyrðum. Helstu skilyrðin, sem nú hafa verið uppfyllt, eru samþykki Samkeppniseftirlitsins, framkvæmd kostgæfniathugunar og gerð þjónustu- og afkomuskiptasamnings á milli Arion banka og ÍLS.

Uppgreiðsla sértryggða skuldabréfaflokksins og samningarnir við ÍLS munu hafa jákvæð áhrif á afkomu bankans á fjórða ársfjórðungi um sem nemur 1,3 milljörðum króna eftir skatt. Jákvæð áhrif á afkomu bankans eru fyrst og fremst vegna lægri bankaskatts á árinu 2019 auk þess sem afföll sem bankinn hefði tekjufært við uppgreiðslu lána eða á líftíma þeirra verða tekjufærð í einu lagi á fjórða ársfjórðungi 2019. Bankinn mun áfram fá tekjur af íbúðalánunum á grundvelli þjónustu- og afkomaskiptasamnings við ÍLS. Sala íbúðalánasafnsins hefur einnig jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans þar sem  áhættuvegnar eignir bankans lækka um nærri 18 milljarða króna.

Nánari upplýsingar veitir Theodór Friðbertsson, hjá fjárfestatengslum Arion banka, ir@arionbanki.is, sími 444 6760.

Þessar upplýsingar eru birtar í samræmi við upplýsingaskyldu Arion banka hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik.