Icelandic
Birt: 2019-01-30 18:12:43 CET
Origo hf.
Reikningsskil

Origo hf. -  Ársuppgjör 2018 - Metár í rekstrarhagnaði og heildarhagnaði. Heildarhagnaður ársins 5,4 milljarðar.

REYKJAVÍK - 30. janúar 2019 - Origo hf. kynnti í dag uppgjör fjórða ársfjórðungs og heildaruppgjör fyrir 2018    

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu á fjórða ársfjórðungi 2018 nam 4.461 mkr (13,1% hækkun frá F4 2017) og 15.717 mkr (4,3% hækkun frá árinu 2017) á árinu 2018 [F4 2017: 3.944 mkr, 2017: 15.064 mkr]
  • Framlegð nam 1.185 mkr (26,6% af tekjum) á fjórða ársfjórðungi og 4.173 mkr (26,6%) á árinu 2018 [F4 2017: 1.044 mkr, 2017: 3.783 mkr]
  • EBITDA nam 423 mkr (9,5% af tekjum) á fjórða ársfjórðungi 2018 og 1.128 mkr (7,2%) á árinu 2018 [F4 2017: 246 mkr, 2017: 928 mkr]
  • Heildarhagnaður á fjórða ársfjórðungi árið 2018 var 5.285 mkr og 5.420 mkr á árinu 2018 [F4 2017: 167 mkr, 2017: 433 mkr]
  • Origo seldi 55% hlut í Tempo til Diversis Capital.  Áhrif sölu Tempo á hagnað Origo voru 5.098 mkr.
  • Eiginfjárhlutfall var 66,1% í lok árs 2018 en var 41,6% árið 2017
  • Veltufjárhlutfall var 1,95 í lok árs 2018 en var 1,3 árið 2017

Finnur Oddsson, forstjóri:

„Afkoma Origo á árinu 2018 er sú besta í sögu félagsins. Sala á fjórða ársfjórðungi nam 4.461 mkr og var 13,1% hærri en sama tímabil í fyrra. Heildarhagnaður á fjórða ársfjórðungi árið 2018 var 5.285 mkr samanborið við 167 mkr á sama tímabili árið 2017. Ef horft er til ársins í heild jókst sala á vöru og þjónustu um 4,3% og var í lok ársins 15.717 mkr. Heildarhagnaður félagsins á árinu jókst mikið og var 5.420 samanborðið við 433 mkr á árinu 2017. EBITDA nam 1.128 mkr (7,2%) á árinu 2018, en var 928 (6,2%) árið 2017. EBITDA félagsins jókst eftir því sem leið á árið og nam 423 mkr (9,5%) á fjórða ársfjórðungi og hefur aldrei verið meiri í sögu félagsins.

Árið 2018 markar ákveðin þáttaskil í sögu Origo og forvera. Origo varð til í upphafi ársins með samruna þriggja félaga og hefur endurmörkun vörumerkis og sameining strax skilað sér í auknum ávinningi fyrir viðskiptavini, stuðlað að hagkvæmni og betri afkomu Origo. Starfsemi Origo hefur þróast töluvert á þessu eina ári. Til viðbótar við sterka sölu á nauðsynlegum tölvubúnaði til atvinnurekstrar, hefur Origo á undanförnum misserum eflt lausnaframboð sitt sérstaklega á sviði hugbúnaðar- og viðskiptalausna, bæði með þróun eigin lausna og eins með kaupum á fyrirtækjum og rekstareiningum. Tekjusamsetning félagsins hefur breyst samfara aukinni áherslu á sölu þjónustu í áskrift, ráðgjöf og sölu á ýmsum hugbúnaðar- og viðskiptalausnum, bæði eigin þróun og í endursölu. Þessar breytingar hafa skilað okkur bæði breiðara lausnaframboði og bættri afkomu.

Endurmörkun á Origo hefur tekist mjög vel og hefur félagið strax náð sterkri stöðu sem leiðandi þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni bæði meðal fyrirtækja og einstaklinga. Við finnum mikinn áhuga á félaginu á mörgum sviðum og greinilegt að ítarleg undirbúningsvinna með ráðgjöfum og starfsfólki hefur skilað sér í afar sterku vörumerki og hárri vitund á eðli starfseminnar. Origo er meðal annars efst í huga fólks þegar kemur að vali á upplýsingatæknifyrirtæki, samkvæmt mælingu hjá Gallup síðla árs 2018.

Félagið er með yfirburðastöðu í flestum aldursflokkum, þar á meðal í aldursflokkunum 18-24 ára og 35-44 ára. Þess til viðbótar þekkja 91% landsmanna vörumerkið Origo, samkvæmt nýlegri rannsókn hjá Gallup, sem þykir góður árangur á tæplega 12 mánuðum. Í vörumerkjavitund er Origo sterkast í aldurshópunum 18-49 ára. Árangurinn er í takt við tón vörumerkisins Origo, sem er léttur og hress en endurspeglar um leið  auðmýkt og hjálpsemi. Þessar niðurstöður gefa okkur byr undir báða vængi  og ljóst að þetta er verulega verðmætt fyrir félagið á næstu árum.

Sala Origo á ríflega helmingshlut í Tempo seinni hlutann í nóvember síðastliðinn var mikilvægt skref fyrir bæði Origo og starfsemi Tempo. Eftir söluna er fjárhagur Origo mjög sterkur og félagið á þeim stað að geta stutt bæði við innri og ytri vöxt en jafnframt tekið á móti erfiðum ytri aðstæðum ef svo ber undir. Í sölunni á Tempo felst viðurkenning á frábæru starfi starfsfólks Tempo og Origo síðustu ár. Um leið eru verðmæti íslensks hugvits staðfest áþreifanlega, en síðustu misseri hefur slíkt þróunarstarf fengið aukna athygli og stuðning stjórnvalda, sem er vel.

Með stuðningi Diversis og Origo gerum við ráð fyrir að nú fari í hönd nýr kafli þróunar og tekjuvaxtar hjá Tempo og að virði félagsins geti aukist verulega á næstu misserum. Við höfum því lagt sérstaka áherslu á að Origo haldi áfram verulegum eignarhlut í félaginu og teljum það reyndar eitt af mikilvægari hagsmunamálum hluthafa Origo.

Afar gott ár er að baki og Origo hefur ekki áður verið í jafn sterkri stöðu til að sækja fram eða takast á við óvænt áföll ef þau eiga sér stað. Í því sambandi, þá eru augljóslega blikur á lofti á vinnumarkaði en sameiginlegt keppikefli allra hlutaðeigandi er að varðveita stöðugleika, halda niðri verðbólgu og verja annars vegar kaupmáttaraukningu undanfarinna ára og um leið samkeppnisfærni íslensks atvinnulífs.  Við höfum trú á að það takist.“



Viðhengi


2019.01.30 - Frettatilkynning Arshlutauppgjor F4 2018.pdf
Origo arsreikningur 31.12.2018.pdf