Icelandic
Birt: 2018-12-27 17:03:08 CET
Síminn hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Síminn hf. færir niður viðskiptavild

Við áætlunargerð fyrir árið 2019 hjá samstæðu Símans, sem nú er unnið að, komu fram vísbendingar um að færa þyrfti niður viðskiptavild hjá Mílu. Í samræmi við kröfur reikningsskilastaðla var framkvæmt virðisrýrnunarpróf sem gefur þá niðurstöðu að viðskiptavild sem tilheyrir Mílu ehf. verði færð niður um 2.990 milljónir króna. Endurheimtanlegt virði annarra fjárskapandi eininga innan samstæðu er verulega hærra en eignargrunnur og því eru engar vísbendingar um virðisrýrnun annarra eininga Símans.

Við framkvæmd virðisrýrnunarprófs var endurheimtanlegt virði metið út frá nýtingarvirði þeirra fjárskapandi eininga sem viðskiptavildin tilheyrir. Nýtingarvirði byggir á nokkrum meginforsendum sem innhalda mat stjórnenda á framtíðarhorfum viðkomandi fjárskapandi einingar þar sem stuðst er við söguleg gögn, ytri sem og innri. Helsta ástæða virðisrýrnunar er hækkun á vöxtum. Við mat áhættulausra vaxta er stuðst við skuldabréf útgefin af Ríkissjóði (RIKB 31 0124). Hækkun ávöxtunarkröfu flokksins á árinu nam 0,70 prósentustigum (70 punktum) miðað við lok nóvember þessa árs. Aðrir þættir sem mynda WACC (veginn fjármagnskostnaður) voru jafnframt endurmetnir og er niðurstaðan að WACC hækkar um 47 punkta frá prófi sem unnið var samhliða gerð ársreiknings samstæðu fyrir árið 2017.

Önnur lykilforsenda er að Míla hefur fjárfest hraðar í ljósleiðara en upphaflegar áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir. Hefur það tímabundin áhrif á fjárflæði félagsins en mun hins vegar styrkja samkeppnisstöðu Mílu til lengri tíma litið.

Niðurfærslan mun hafa þau áhrif að viðskiptavild Mílu ehf. er færð úr 10.708 milljónum króna í 7.718 milljónir króna og lækkar viðskiptavild samstæðunnar sem því nemur.  Hagnaður félagsins og eigið fé lækka sem nemur afskriftinni. Eiginfjárhlutfall félagsins var 62,1% í lok 3. ársfjórðungs og myndi að öðru óbreyttu lækka í 60,2% eða um 2 prósentustig.

Niðurfærslan er eingöngu reikninghaldsleg og hefur ekki áhrif á sjóðstöðu félagsins,  sjóðstreymi þess, skattskuldbindingu eða lánaskilmála (e. covenants). Niðurfærslan hefur ekki áhrif á möguleika félagsins né stefnu til arðgreiðslu til hluthafa. Þá hefur niðurfærslan engin áhrif á framtíðarhorfur eða stefnu félagsins.

Nánari upplýsingar veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans hf., s. 550-6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans hf., s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)