English Icelandic
Birt: 2018-12-04 09:30:50 CET
Icelandair Group hf.
Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Bogi Nils Bogason ráðinn forstjóri Icelandair Group

Stjórn Icelandair Group hefur gengið frá ráðningu Boga Nils Bogasonar í starf forstjóra fyrirtækisins. Bogi Nils hefur verið starfandi forstjóri Icelandair Group frá því í lok ágúst síðastliðinn.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group:
„Þegar Björgólfur Jóhannsson lét af störfum hóf stjórn félagsins samstundis faglegt ferli við leit að eftirmanni hans. Capacent á Íslandi og alþjóðlega ráðningarfyrirtækið Spencer Stuart aðstoðuðu við leitina. Það kom skýrt fram í þessu ferli hversu virt og þekkt vörumerki Icelandair er um allan heim og ánægjulegt að finna þann áhuga sem margir mjög hæfir einstaklingar, bæði íslenskir og erlendir, sýndu starfinu. Það var afdráttarlaus niðurstaða stjórnar að Bogi Nils sé hæfasti einstaklingurinn í starfið. Hann gjörþekkir fyrirtækið, hefur skýra framtíðarsýn og er vel til þess fallinn að stýra því til móts við nýja tíma.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:
„Það er mér mikill heiður að hafa verið beðinn um að leiða þann frábæra hóp starfsmanna sem starfar hjá Icelandair Group. Við erum stolt af þeim sessi sem við skipum í hugum landsmanna og viljum standa undir því trausti sem okkur hefur verið sýnt í gegnum árin. Framundan eru bæði spennandi og krefjandi tímar fyrir félagið, sem kalla á skýra framtíðarsýn og hagkvæman rekstur. Icelandair Group hefur styrkar stoðir sem byggt verður á til sóknar á næstu misserum.“

Bogi Nils gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjármála Icelandair Group frá október 2008. Áður var hann framkvæmdastjóri fjármála hjá Askar Capital 2007 til 2008 og framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandic Group 2004 til 2006. Hann var endurskoðandi og meðeigandi hjá KPMG á árunum 1993 til 2004.

Bogi Nils er fæddur árið 1969 og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi. Hann er kvæntur Björk Unnarsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn. 

Nánari upplýsingar veitir
Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group
Netfang: ulfar@toyota.is