Published: 2018-11-23 20:24:37 CET
Icelandair Group hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Dótturfélag Loftleiða Icelandic leggur inn bindandi kauptilboð í meirihluta Cabo Verde Airlines

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, hefur ásamt íslenskum fjárfestum lagt inn bindandi kauptilboð í 51% hlut í ríkisflugfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Áður hefur verið greint frá samstarfi Loftleiða Icelandic og yfirvalda á Grænhöfðaeyjum sem hefur átt sér stað um nokkurt skeið. Í ágúst 2017 gerðu Loftleiðir Icelandic samning við stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum um endurskipulagningu Cabo Verde Airlines. Markmið samkomulagsins var jafnframt að styrkja alþjóðaflugvöllinn á Grænhöfðaeyjum, að byggja eyjarnar upp sem vænlegan áfangastað og að byggja upp tengiflugsbanka fyrir alþjóðaflug. Þá lá jafnframt fyrir að hugað væri að einkavæðingu félagsins. Cabo Verde Airlines hefur nú þegar rekstrarleyfi til að fljúga áætlunarflug til Evrópu og Bandaríkjanna.

Kaupverðið á meirihluta í félaginu er trúnaðarmál. Að hluta til yrði greitt fyrir félagið með þeirri vinnu sem starfsmenn Loftleiða Icelandic hafa þegar innt af hendi. Kaupin fara fram í gegnum félagið Loftleiðir Cabo Verde. Loftleiðir Icelandic eiga 70% hlut í félaginu en aðrir hluthafar 30%. Kaupin hafa óveruleg áhrif á reikningsskil Icelandair Group þar sem Cabo Verde Airlines mun ekki verða hluti af samstæðureikningi Icelandair Group. Eignarhluturinn verður færður á meðal hlutdeildarfélaga.

Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic:
„Það felast í því mikil tækifæri fyrir Loftleiðir Icelandic að taka þátt í kaupum á meirihluta Cabo Verde Airlines þar sem búist er við mikilli fjölgun farþega í Afríku á næstu árum. Við höfum nú þegar komið að endurskipulagningu félagsins og rekstur Cabo Verde Airlines fellur vel að þeim verkefnum sem Loftleiðir Icelandic sinna víða um heim. Sú þekking og reynsla sem þegar er til staðar innan Loftleiða Icelandic og systurfélaga hefur nýst vel við endurskipulagningu félagsins og myndi nýtast áfram við frekari uppbyggingu. Þá væri möguleiki á að nýta flugvélar úr flota Icelandair Group og eftir atvikum áhafnir, líkt og gert er nú þegar. Við myndum jafnframt sækja frekar í reynslu Icelandair hvað varðar uppbyggingu tengiflugs. Í tilfelli Cabo Verde Airlines eru til staðar tækifæri fyrir vel skipulagt tengiflug á milli Evrópu og Suður Ameríku annars vegar og Vestur Afríku og Norður Ameríku hins vegar, ásamt Vestur Afríku og Evrópu. Staðsetning eyjanna er ákjósanleg fyrir slíka uppbyggingu.“

Nánari upplýsingar veitir Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Loftleiða Icelandic
Netfang: esv@loftleidir.com