Icelandic
Birt: 2018-11-19 17:31:56 CET
Origo hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Origo hf.: Origo selur 55% hlut í Tempo til Diversis Capital 

REYKJAVÍK - 19. nóvember 2018   

Í opinberri tilkynningu Origo hf. („Origo“) til kauphallar þann 1. október sl. var upplýst um samkomulag um einkaviðræður Origo við Diversis Capital („Diversis“), fjárfestingafélags frá Los Angeles sem sérhæfir sig í fjárfestingum í hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjum um sölu á 55% hlut í Tempo ehf. („Tempo“) til Diversis.   

Stjórnir Origo og Diversis hafa í dag undirritað skuldbindandi kaupsamning um sölu á 55% hlut í Tempo til Diversis.  

Heildarvirði Tempo ehf. í samningum er USD 62,5 milljónir og mun Diversis eignast 55% í Tempo eftir kaupin. Diversis greiðir Origo USD 34,5 milljónir en félögin munu sameiginlega leggja Tempo til handbært fé, USD 2 milljónir, sem greiðist í hlutfalli við eignarhlut.  Jafnframt hafa báðir eigendur lýst yfir vilja til að styðja við innri og ytri vöxt félagsins á næstu árum, eftir því sem tækifæri gefast.  

Áætlaður söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er um þrír milljarðar króna.  Auk þess er áætlað að um tveir milljarðar króna færist til tekna, sem gangvirðisbreyting á 45% eignarhlut Origo í Tempo, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.   

Heildaráhrif viðskiptanna á afkomu Origo í rekstrarreikningi í fjórða ársfjórðungi eru því jákvæð um fimm milljarða króna.   

Finnur Oddsson, forstjóri: 

“Kaup Diversis á hlut í Tempo eru afar góðar fréttir, bæði fyrir Origo og Tempo.  Í þessari sölu á ríflega helmingshluta Tempo felst viðurkenning á frábæru starfi starfsfólks Tempo og Origo síðustu ár.  Um leið eru verðmæti íslensks hugvits staðfest áþreifanlega, en síðustu misseri hefur slíkt þróunarstarf fengið aukna athygli og stuðning stjórnvalda, sem er vel.    

Tempo hefur gengið vel undanfarin ár, vaxið hratt og stendur nú styrkum fótum.  Árstekjur félagsins nema ríflega USD 20 milljónum og viðskiptavinir eru ríflega 12.000 í yfir 120 löndum, þjónað af 100 manna samhentum hópi starfsfólks í Reykjavík og Montreal.   Við fögnum því sérstaklega að fá Diversis til samstarfs um að gera veg og vanda Tempo enn meiri, en sérþekking þeirra á sviði tækni, hugbúnaðarþróunar og markaðssetningar mun nýtast til að styrkja vöruþróun og efla enn frekar tekjuvöxt á næstu árum.   

Með stuðningi Diversis og Origo gerum við ráð fyrir að nú fari í hönd nýr kafli þróunar og tekjuvaxtar hjá Tempo og að virði félagsins geti aukist verulega á næstu misserum.  Við höfum því lagt sérstaka áherslu á að Origo haldi áfram verulegum eignarhlut í félaginu og teljum það reyndar eitt af mikilvægari hagsmunamálum hluthafa Origo.” 

Nánari upplýsingar um Diversis Capital http://diversiscapital.com/  

Nánari upplýsingar um Tempo ehf. https://www.tempo.io/ 

Nánari upplýsingar um Origo hf.  https://www.origo.is/

Nánari upplýsingar 

Finnur Oddsson forstjóri í síma 862-0310 eða fo@origo.is og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða gp@origo.is. 

ORIGO HF. 

Origo. (NASDAQ OMX: Origo.IC) er samstæða fyrirtækja í upplýsingatækni. Origo er þjónustufyrirtæki og hlutverk þess felst í að aðstoða viðskiptavini að ná enn betri árangri í sínum rekstri með aðstoð upplýsingatækni, sérfræðiþekkingu starfsfólks og lipurri þjónustu. Hjá samstæðunni starfa um 550 manns. Dótturfélög Origo eru TEMPO ehf og Applicon AB. Hlutabréf Origo hf. eru skráð í Kauphöll Íslands. Nánari upplýsingar er að finna á www.origo.is 

Til athugunar fyrir fjárfesta:

Origo vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna af birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar fréttatilkynningin er birt og takmarkast gildi þeirra við það sem segir í fyrirvara þessum.