Icelandic
Birt: 2018-11-19 03:05:00 CET
Kvika banki hf.
Innherjaupplýsingar

Samningur um kaup Kviku á GAMMA undirritaður

Kvika banki hf. („Kvika“) og hluthafar GAMMA Capital Management hf. („GAMMA“) hafa undirritað samning um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. Viðskiptin eru háð samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku. Með breyttu eignarhaldi myndast enn frekari tækifæri í starfsemi GAMMA sem verður eftir kaupin dótturfélag Kviku. Markmið Kviku með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar.

Kaupverð fyrir allt útistandandi hlutafé félagsins nemur 2.891 milljónum króna að teknu tilliti til áfallinna árangurstengdra þóknana sem eftir á að tekjufæra hjá GAMMA. Eigið fé GAMMA í lok júní 2018 nam 2.084 milljónum króna.

Miðað við bókfært virði árangurstengdra þóknana í lok júní 2018 nemur kaupverðið 2.406 milljónum króna og skiptist með eftirfarandi hætti:

  1. Reiðufé að fjárhæð 839 milljónum króna sem greiðist við frágang viðskiptanna.
  2. Hlutdeildarskírteini í sjóðum GAMMA samtals að verðmæti 535 milljónir króna.
  3. Árangurstengdar greiðslur, sem metnar eru á um 1.032 milljónir króna m.v. stöðu GAMMA í lok júní 2018 og greiðast þegar langtímakröfur á sjóði GAMMA innheimtast.

Hluthafar GAMMA munu auk þess eiga rétt til aukinna greiðslna vegna árangurstengdra þóknana fasteignasjóða félagsins. Kaupverðið á GAMMA getur jafnframt tekið breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna GAMMA þróast á næstu misserum.

Áætlað er að afkoma bankans fyrir skatta muni aukast um 300-400 milljónir króna á ári í kjölfar kaupanna. Ekki er gert ráð fyrir því að auka þurfi hlutafé Kviku vegna kaupanna. Yfirverð viðskiptanna ræðst af stöðu GAMMA við frágang viðskiptanna en samkvæmt mati Kviku er það áætlað um 850 milljónir króna.

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA:
„Salan styrkir GAMMA sem mun framvegis bjóða viðskiptavinum sínum enn fjölbreyttari fjármálaþjónustu og aukið vöruframboð. Árangur GAMMA undanfarinn áratug er mikilsverður fyrir viðskiptavini, starfsmenn sem og hluthafa. Félagið er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og rekur fjölbreytt sjóðaúrval sem er um 140 milljarðar króna að stærð. Við hjá GAMMA lítum stolt um öxl á þessum tímamótum og björtum augum til framtíðar.“

Gísli Hauksson, annar stofnenda GAMMA og stærsti eigandi félagsins:
,,Löngu ferli er nú að ljúka með kaupum Kviku á öllu hlutafé í GAMMA. Fyrir hluthafa GAMMA þá felast mikil tækifæri í þeirri breytingu að kaupverðið sé greitt að hluta til í hlutdeildarskírteinum sjóða félagsins auk þess sem hluthafar munu njóta góðs af áframhaldandi góðum rekstri sjóðanna. Fyrir viðskiptavini GAMMA þá mun þjónusta félagsins eflast mjög með eignarhaldi Kviku, meðal annars verður félagið í stakk búið að veita ennþá öflugri þjónustu á erlendum vettvangi. Starfsmenn GAMMA hafa á síðustu árum unnið einstakt starf í að skila afburða ávöxtun fyrir viðskiptavini og við að auka eignir í stýringu og er ég sannfærður um að svo verður áfram. Óska ég Kviku til hamingju með kaupin.”

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
„Kaupin á GAMMA efla verulega eigna- og sjóðastýringu Kviku og auka umtalsvert vænta arðsemi bankans. Stefnt er að því að sameina starfsemi félaganna í London, sem mun skjóta styrkari stoðum undir erlenda starfsemi bankans. Starfsfólk GAMMA hefur náð eftirtektarverðum árangri í sjóðastýringu á undanförnum árum og það er mikill fengur fyrir Kviku að fá góðan hóp til liðs við sig.“

GAMMA er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og fagnaði 10 ára afmæli á árinu. GAMMA býður upp á fjölbreytt úrval sjóða fyrir fjárfesta og almenning. Sjóðir GAMMA eru meðal stærstu fyrirtækjaskuldabréfasjóða á Íslandi og stærstu fjárfestar á íslenskum fasteignamarkaði. Sjóðirnir fjárfesta einnig í hlutabréfum, ríkisskuldabréfum, innlánum og fleiru, auk þess sem félagið hóf nýlega rekstur sjóða um erlendar fjárfestingar.

Kvika er sérhæfður banki sem er leiðandi í eignastýringu og fjárfestingarstarfsemi. Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna gangi kaupin á GAMMA eftir.

Nánari upplýsingar veita:
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku í síma 540-3200
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA í síma 519-3300