Published: 2018-11-01 17:05:54 CET
Heimavellir hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Heimavellir hf. - Veðurstofureitur – 100 hagkvæmar leiguíbúðir fyrir ungt fólk.

Heimvellir hf
Fréttatilkynning – 1. nóvember 2018.

Veðurstofureitur – 100 hagkvæmar leiguíbúðir fyrir ungt fólk.

100 litlar og hagkvæmar leiguíbúðir, sem ætlaðar eru ungu fólki, munu væntanlega rísa á Veðurstofureit á vegum Heimavalla, sem unnið hefur að þessari nýjung í samvinnu við Ístak, Eflu og Glámu-Kím. Gangi áætlanir eftir verða íbúðirnar komnar í rekstur í byrjun árs 2021.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum fyrr í dag heimild handa skrifstofu eigna og atvinnuþróunar  til þess að hefja viðræður við Heimavelli um  lóðarvilyrði vegna svokallaðs Veðurstofureits við Bústaðaveg. Hér er um að ræða hluta af því verkefni Reykjavíkurborgar að fjölga hagkvæmum íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Veðurstofureiturinn er um 10.000 fm lóð fyrir sunnan Veðurstofuna.

Af hálfu Heimavalla var gerð tillaga um uppbyggingu 100 smáíbúða sem eru skipulagðar í tveimur lágreistum klösum á lóðinni. Allar íbúðirnar hafa svalir eða pall á jarðhæð. Þá hafa íbúar aðgang að sameiginlegu þvottahúsi og fjölnotaherbergi fyrir veislur eða fundi.

Við mótun tillögunnar var sérstaklega tekið tillit til þarfa ungs fólks og eru ýmsar nýjungar lagðar til sem henta þessum aldurshóp vel. Komið er til móts við nýjar þarfir á borð við heimsendingar á matvælum og bögglapósti. Hjólreiðafólki er tryggt gott aðgengi að hjólageymslu á jarðhæð auk þess sem allir leigutakar munu hafa aðgang að deilibílum. Þá er gert ráð fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla á lóðinni og rafmagnslögnum við öll bílastæði.

Aðgengi að íbúðum er frá jarðhæð eða svalagöngum um stigagang eða lyftu. Allar íbúðir verkefnisins falla undir skilyrði algildrar hönnunar.

Næsta skref þessa verkefnis er að ganga frá deiliskipulagi á svæðinu og er vonast til þess að hægt verði að hefja byggingarframkvæmdir í lok næsta árs og að íbúðirnar verði komnar í rekstur í byrjun árs 2021.

Náist samkomulag um framangreint lóðarvilyrði og  núverandi hönnunarforsendur er gert ráð fyrir að uppbygging á Veðurstofureitnum komi til með að kosta tæplega 2 milljarða króna. Væntar leigutekjur á ári eru áætlaðar 165 m.kr. og að EBITDA framlegð verð 120 m.kr. m.v. verðlag í dag.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, um Veðurstofureitinn:

„Ég tel að Veðurstofureiturinn sé gott dæmi um það hvernig við viljum vinna til framtíðar. Áhersla er lögð á lágan rekstrar- og byggingarkostnað sem endurspeglast í hagkvæmu leiguverði. Þá er verið að koma til móts við mikla þörf á markaði fyrir litlar og hagkvæmar íbúðir“.

Frekari upplýsingar veitir:

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri
gudbrandur@heimavellir.is, s 896 0122

Viðhengi:

Kynning á fyrirhuguðu verkefni á Veðurstofureit.

Viðhengi


Vedurstofureitur 1 nov 2018.pdf