English Icelandic
Birt: 2018-10-30 16:49:16 CET
Síminn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Sterkur fjórðungur hjá Símanum

Helstu niðurstöður úr rekstri 3F 2018

  • Tekjur á þriðja ársfjórðungi (3F) 2018 námu 6.969 milljónum króna samanborið við 6.956 milljónir króna á sama tímabili 2017. Leiðrétt fyrir seldri starfsemi hækka tekjur um 51 milljón króna á milli ára.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.397 milljónum króna á 3F 2018 samanborið við 2.387 milljónir króna á sama tímabili 2017 og hækkar því um 10 milljónir króna eða 0,4% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 34,4% fyrir þriðja ársfjórðung 2018 en var 34,3% á sama tímabili 2017.
  • Hagnaður á 3F 2018 nam 978 milljónum króna samanborið við 905 milljónir króna á sama tímabili 2017.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.515 milljónum króna á 3F 2018 en var 2.618 milljónir króna á sama tímabili 2017. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 2.266 milljónum króna á 3F 2018 en 2.178 milljónum króna á sama tímabili 2017.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 17,1 milljarði króna í lok 3F 2018 en voru 18,4 milljarðar króna í árslok 2017. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 16,5 milljarðar króna í lok 3F 2018 og lækka um 1,2 milljarða króna frá árslokum 2017.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 211 milljónum króna á 3F 2018 en voru 315 milljónir króna á sama tímabili 2017. Fjármagnsgjöld námu 246 milljónum króna, fjármunatekjur voru 49 milljónir króna og gengistap var 14 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 62,1% í lok 3F 2018 og eigið fé 37,6 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Við erum ánægð með að geta greint frá því að rekstur Símasamstæðunnar gengur prýðilega á flestum sviðum. Samkeppnin um íslenska neytendur hefur sjaldan verið harðari, en viðskiptavinum fjölgar áfram milli ársfjórðunga. Sjónvarpafurðir okkar njóta sérstakrar hylli og eins skipta talvert fleiri farsímanotendur yfir til Símans um þessar mundir en þeir sem fara frá okkur. Sérstaklega er gleðilegt að bjóða yngri viðskiptavini velkomna, sem nýta sér krakkakort og fyrirfram greiddu lausnina Þrennu. Internet viðskiptavinum hefur jafnframt fjölgað og gagnanotkun eykst jafnt og þétt, hvort sem er í farsíma eða fastlínu. Upplýsingatæknihluti samstæðunnar átti góðan fjórðung og Míla heldur áfram að byggja upp ljósleiðaranet sitt á hagkvæman hátt.

Vegna góðs gengis í kjarnavörum okkar í smásölu aukast tekjur, EBITDA og hagnaður samstæðunnar lítillega í heild á milli ára á þriðja ársfjórðungi, þrátt fyrir að reiki og heildsala dragist saman. Eins vaxa tekjur, EBITDA og hagnaður á árinu í heild. Tekjur af upplýsingatækni eru sveiflukenndar innan ársins sem fyrr, en jukust hjá Sensa á þriðja ársfjórðungi. Þá er verkefnastaða Sensa sterk það sem eftir lifir árs. Uppbygging Mílu á ljósleiðarakerfi sínu gengur markvisst fyrir sig og eru viðskiptavinir færðir yfir á nýjar tengingar með hagkvæmum og stöðugum hætti í hverri viku. Slík breyting einfaldar rekstrarumhverfi samstæðunnar og lækkar rekstrarkostnað til lengri tíma. Næstu ár verða nýtt til tryggja framtíðargæði tenginga á landinu öllu. Bitahraðar til heimila og fyrirtækja verða á heimsmælikvarða, en á meðan uppbyggingin fer fram munum við áfram sinna þörfum viðskiptavina með prýði.

Auglýsingar í miðlum Símans taka nú mið af nýrri tækni og hegðunarbreytingum nútímasamfélags. Minna er selt en áður inn í almennar sjónvarpsútsendingar, en slíkar aðferðir eru almennt teknar að dala í vestrænum heimi, auk þess sem fjölmiðlarekstur ríkisins nýtur yfirburðastöðu á Íslandi í línulegum auglýsingum. Nú er tæpur helmingur auglýsingatekna Símans fenginn með aðferðafræði sem ekki var til í sjónvarpi fyrir þremur árum, en sem samfélagsmiðlar hafa löngum beislað með árangursríkum hætti. Þannig sjá mismunandi markhópar ólíkar ólínulegar auglýsingar. Fyrirhugað er að tengja auglýsingar í sjónvarpskerfum Símans við sömu viðskiptavini út fyrir sjónvarpskerfið í framtíðinni, svo sem í vinsæl forrit í farsíma og tölvum. 

Rekstrarkostnaður samstæðunnar helst í vel viðunandi horfi á fjórðungnum, en í spilunum eru hækkanir ýmissa aðfanga. Kostnaður er í stöðugri endurskoðun hjá okkur og við sjáum áfram tækifæri í að draga úr ýmsum kostnaði til mótvægis við gengis- og launabreytingar.“

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)

Viðhengi


Siminn 30.09.2018.pdf
Siminn - Fjarfestakynning 3F 2018.pdf
Siminn hf - Afkomutilkynning 3F 2018.pdf