Icelandic
Birt: 2018-10-26 21:24:10 CEST
Hagar hf.
Innherjaupplýsingar

Sátt Haga við Samkeppniseftirlitið um kaup á Olís

Óháður kunnáttumaður metur kaupendur hæfa

Þann 11. september sl. var undirrituð sátt milli Haga hf. og Samkeppniseftirlitsins um skilyrði fyrir kaupum Haga á Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. en meðal skilyrða var að samrunaaðilar seldu tilteknar verslanir og eldsneytisstöðvar. Við undirritun sáttarinnar höfðu Hagar undirritað kaupsamninga um allar þær eignir sem selja skyldi samkvæmt sáttinni.

Í sáttinni er mælt fyrir um að Högum sé óheimilt að framkvæma samrunann fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt umrædda kaupsamninga, að fengnu áliti óháðs kunnáttumanns sem Samkeppniseftirlitið skipaði í kjölfar sáttarinnar.

Óháður kunnáttumaður hefur nú skilað Samkeppniseftirlitinu áliti sínu. Meginniðurstöður álitsins eru þær, að báðir kaupendur eignanna uppfylli öll skilyrði sáttarinnar og séu þar með hæfir kaupendur eignanna. Nú liggur fyrir Samkeppniseftirlitinu að meta umrædda kaupendur en vonir Haga standa sem fyrr til þess að því hæfismati verði lokið í síðasta lagi um miðjan nóvember.