English Icelandic
Birt: 2018-10-25 18:16:28 CEST
Landsbankinn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 15,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 saman­borið við 16,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2017. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 8,8% á árs­grundvelli samanborið við 9,4% á sama tímabili árið 2017.

Hreinar vaxtatekjur voru 29,8 milljarðar króna og hækkuðu um 10,3% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 5,8 milljörðum króna og lækkuðu um 12% frá sama tímabili árið áður. Jákvæðar virðisbreytingar námu 1,6 milljarði króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 2,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Í lok september 2018 var vanskilahlutfallið 0,5%, samanborið við 1,0% á sama tíma árið 2017.

Rekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 námu 41,1 milljarði króna samanborið við 41,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,8 milljörðum króna samanborið við 5,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 36% lækkun. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 nam 17,7 milljörðum króna og stóð í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður10,8 milljarðar króna samanborið við 10,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2017, sem er hækkun um 4,3%. Annar rekstrarkostn­aður lækkaði um 5,5% frá sama tímabili árið 2017 og var 7,0 milljarðar króna.

Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánaða ársins var 45,0% samanborið við 44,7% á sama tímabili árið 2017.

Útlán jukust um 12,1% frá áramótum, eða um rúma 112,4 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er bæði hjá einstakling­um og fyrirtækjum. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 14,5% frá áramótum, eða um 87,5 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 235,9 milljarðar króna 30. september sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,8%. Landsbankinn greiddi þann 19. september sl. 9,5 milljarða króna í sérstaka arðgreiðslu. Á þessu ári hefur bankinn greitt samtals 24,8 milljarða króna í arð en alls nema arðgreiðslur bankans um 131,7 milljörðum króna frá árinu 2013. Um 99,7% af arðgreiðslum ársins renna í ríkissjóð.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Ég er ánægð að sjá að markaðshlutdeild bankans í lok þriðja ársfjórðungs mælist með hæsta móti. Þá er einnig gleðilegt hversu vel viðskiptavinir okkar hafa tekið þeim fjölmörgu nýju stafrænu lausnum sem við höfum kynnt að undanförnu. Okkar markmið er að veita frábæra stafræna þjónustu, samhliða því að efla persónulega ráðgjöf og tengsl. Starfsfólk Landsbankans býr yfir mikilli þekkingu og við erum stolt af því að alls hafa um 90 starfsmenn í bankans útskrifast sem fjármálaráðgjafar. Þessi verðmæta þekking og reynsla hefur meðal annars nýst vel í 360° ráðgjöf, alhliða fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga, sem bankinn bauð fyrst upp á árið 2015. Reynlan af 360° ráðgjöfinni hefur verið afar góð og í september kynntum við sérsniðna fjármálaráðgjöf fyrir smá og meðalstór fyrirtæki sem byggir á sömu aðferðafræði. Þessi nýja fyrirtækjaráðgjöf nefnist 360° samtal fyrirtækja og hefur verið vel tekið.

Á árinu hafa bæði útlán og innlán hjá bankanum aukist umtalsvert og í ágúst síðastliðnum styrktist fjármögnun bankans enn frekar með útgáfu fyrsta víkjandi skuldabréfsins. Þessi útgáfa er mikilvæg varða á leið bankans að yfirlýstu 10% arðsemismarkmiði en jafnframt skiptir miklu máli að árangur af rekstri verði áfram góður. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrstu níu mánuðum ársins er 45% og í krónum talið er kostnaður áþekkur því sem hann var á sama tímabili árið 2017. Við munum áfram vinna að því að auka skilvirkni í rekstri og nýta öll tækifæri til að draga úr kostnaði.

Það sem af er ári og sér í lagi á þriðja ársfjórðungi hefur staða á verðbréfamörkuðum verið erfið en fyrir því eru ýmsar ástæður. Landsbankinn er viðskiptavaki fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki og stuðlar þannig að eðlilegri verðmyndum og seljanleika á mörkuðum fyrir íslenska fjárfesta, hvernig sem árar.

Á heildina litið er Landsbankinn í sterkri stöðu, með gott eigið fé, vel fjármagnaður og vel í stakk búinn til að takast á við breytingar í umhverfinu.“


Símafundur vegna uppgjörs

Símafundur fyrir markaðsaðila vegna uppgjörs bankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018 verður haldinn kl. 10.00, föstudaginn 26. október. Fundurinn fer fram á ensku. Skrá þarf þátttöku með því að senda tölvupóst á netfangið ir@landsbankinn.is.

Nánari upplýsingar veita:           

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, samskipti@landsbankinn.is og í síma 410 6263

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310

Viðhengi


Frettatilkynning_9m_2018.PDF
Glrukynning_9m_2018.pdf
Samstureikningsskil_9m_2018.pdf