Icelandic
Birt: 2018-08-28 18:48:08 CEST
Klappir Grænar Lausnir hf.
Árshlutaupplýsingar

Klappir Grænar Lausnir hf.: Uppgjör Klappa Grænna Lausna hf. á fyrri hluta ársins 2018

Uppgjör Klappa Grænna Lausna hf. á fyrri hluta ársins 2018

  • Rekstur og starfsemi á áætlun.
  • Rekstrartekjur aukast um 26.6% miðað við sama tímabil í fyrra.
  • Viðsnúningur á afkomu - jákvæð EBITDA sem nemur 9,6 milljónum króna.
  • Skráðum notendum fjölgar ört.
  • Dótturfélagið Klappir International Ltd. í London annast samskipti við erlenda samstarfsaðila.

Rekstur fyrri hluta ársins 2018
Rekstrartekjur Klappa Grænna Lausna voru 124,4 m.kr. á fyrri hluta ársins 2018 samanborið við 98,2 m.kr. árið áður. Vöxtur rekstrartekna milli ára var í samræmi við áætlanir félagsins eða 26,6%.

Rekstrargjöld voru 114,8 m.kr. á fyrri hluta ársins 2018 samanborið við 114,5 m.kr. á sama tíma í fyrra. Laun og launatengd gjöld voru 67,2 m.kr. en annar rekstrarkostnaður 47,6 m.kr. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld - EBITDA, var 9,6 m.kr. á fyrri hluta ársins 2018 eða 7,7% af rekstrartekjum samanborið við tap á sama tíma í fyrra sem nam 16,2 m.kr. Breytingin á milli ára nemur því 25,8 m.kr sem skýrist af aukinni veltu á milli tímabila á meðan rekstrargjöld stóðu í stað á milli tímabila.

Efnahagur
Heildareignir félagsins voru 334,7 m.kr. í lok júní 2018. Þar af voru fastafjármunir 209,0 m.kr. og veltufjármunir 125,7 m.kr.  Eigið fé nam 246,3 m.kr., eiginfjárhlutfall í lok júni 2018 var 73,6%, en var 71,7% í árslok 2017. Heildarskuldir félagsins voru í lok júní 88,4 m.kr.

Sjóðstreymi
Veltufé frá rekstri var jákvætt á tímabilinu og nam 7,2 m.kr. Handbært fé til rekstrar nam 39,4 m.kr. á tímabilinu, en nam 3,6 m.kr. á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 12,5 m.kr. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 1,6 m.kr.  Handbært fé lækkaði því um 53,5 m.kr. á tímabilinu og var í lok júní 16,6 m.kr.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri

Klappir er vaxtarfyrirtæki og því má gera ráð fyrir að rekstur taki töluverðum breytingum en engu að síður var reksturinn á fyrri hluta ársins 2018 í samræmi við áform félagsins og væntingar. Góður vöxtur var í allri starfsemi félagsins. Rekstrartekjur jukust um 26,6% á tímabilinu og numu 124,4 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam 9,6 milljónum króna sem er viðsnúningur frá sama tímabili síðasta árs. Þetta skýrist einkum af aukinni notkun á grunnkerfinu Klappir Core, fjölgun skráðra aðila, sem eru nú orðnir um 200, og að hver notandi nýtir sér sífellt fleiri hugbúnaðarþjónustur sem eru í boði.

Á fyrri hluta ársins 2018 var lögð áhersla á að efla gagnanet Klappa en það er mikilvægt framlag félagsins til uppbyggingar á umhverfisinnviðum hér á landi. Nú geta þúsundir notenda úr ólíkum atvinnugreinum nýtt sér grunnkerfið, Klappir Core, til að mæla vistsporið af starfsemi sinni, sett sér markmið og fylgst með árangrinum. Það er ánægjulegt að sjá hvernig aukið vöruframboð, samþætting á vörunum og öflugir gagnainnviðir hafa orðið til þess að notendum fjölgar jafnt og þétt. Sala til nýrra notenda er í gegnum boðskerfi Klappa. Þar geta notendur boðið viðskiptavinum sínum eða birgjum að tengjast grunnkerfinu og þannig geta nýjir aðilar tekið fyrstu skrefin í átt að skipulagðri umhverfisstjórnun. Þjónustutekjur vegna styrkja og endurgreiðslu skatta hafa haft jákvæð áhrif reksturinn og getu félagsins til að styrkja og efla grunninnviði hugbúnaðarins.

Hafinn er undirbúningur að erlendri starfsemi félagsins með viðræðum við mögulega samstarfsaðila á erlendum mörkuðum. Ágúst Sindri Karlsson, stjórnarformaður Klappa, hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Klappir International Ltd., sem er 100% í eigu Klappa og heyrir beint undir móðurfélagið. Helsta hlutverk Klappir International Ltd. verður að annast samskipti við erlenda samstarfsaðila og þróa leiðir nýjar leiðir til samstarfs í því augnamiði að dreifa hugbúnaðarlausnum Klappa.

Á fyrri hluta ársins 2018 voru stigin stór skref í mótun og þróun á þjónustuvef Klappa en þar er stafrænt þjónustuborð sem með aðstoð gervigreindar svarar óskum og spurningum notenda auk þess sem þeim er leiðbeint um það hvernig bæta má við þjónustulausnum.

Lögð hefur verið mikil áhersla á samfélagslega ábyrgð Klappa en félagið er nú aðili að UN Global Compact og skilar sinni fyrstu COP - skýrslu (Communication of Progress) í október á þessu ári. Áhersla Klappa er á þrískiptingu samfélagsábyrgðar þ.e. innri starfsemi, ytri umgjörð og hugbúnaðarþjónustur, sem styðja notendur í viðleitni þeirra til að auka sjálfbærni eigin starfsemi.”

Frekari upplýsingar um starfsemi félagsina á fyrri hluta ársins 2018 er að finna í stuttu ágripi á vef félagsins, www.klappir.com.

Frekari upplýsingar veita:

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri, sími: 664-9200

Eðvarð Jón Bjarnason, fjármálastjóri, sími: 699-3884


Viðhengi


Arshlutareikningur Klappir grnar lausnir 30.6.2018_undir.pdf