Icelandic
Birt: 2018-08-23 11:11:00 CEST
Kvika banki hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Kvika banki hf: Árshlutareikningur fyrir fyrri árshelming 2018

Rekstrarniðurstaða Kviku á fyrri helmingi ársins 2018 var í samræmi við áætlun. Hagnaður Kviku fyrir skatta á tímabilinu 1. janúar - 30. júní 2018 samkvæmt könnuðu uppgjöri samstæðu bankans nam 1.056 milljónum króna fyrir skatta. Arðsemi eiginfjár miðað við afkomu fyrir skatt á fyrri árshelmingi 2018 var 18,5% á ársgrundvelli.

Eigið fé bankans nam 12,2 milljörðum króna í lok júní og heildareignir námu 103,4 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall bankans var 24,6% sem er umtalsvert umfram kröfu FME, en hún nemur 20,25% með eiginfjáraukum. Eiginfjárhlutfall bankans leiðir til þess að töluvert svigrúm er til arðgreiðslna eða annarra sambærilegra aðgerða. Handbært fé nam 38,5 milljörðum og jókst nokkuð samhliða aukningu í lántökum, innlánum og skuldabréfaútgáfu. Lausafjárhlutfall var 324% í lok júní, sem er verulega umfram lögbundið 100% lágmark, sem og innri markmið bankans. Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki verður gjaldfærður í árslok þar sem skattstofninn miðast við fjárhæð skulda í árslok.

Öll tekjusvið Kviku skiluðu hagnaði á fyrri árshelmingi. Mikil breyting hefur orðið á tekjum og arðsemi eignastýringar bankans í kjölfar kaupa bankans á Virðingu og Öldu sjóðum á sl. ári. Framlegð hennar fyrir samkostnað á fyrstu sex mánuðum ársins nam 568 milljónum króna og var rúmlega 350 milljónum krónum hærri en á sama tímabili árið 2017. Rekstur fyrirtækjasviðs gekk mjög vel á tímabilinu og hagnaður fyrirtækjaráðgjafar jókst talsvert á milli ára. Hins vegar var afkoma markaðsviðskipta og eigin viðskipta bankans talsvert verri en árið á undan og endurspeglar minni veltu og talsverðar verðsveiflur á verðbréfamörkuðum.

Rekstraráætlun ársins er yfirfarin eftir hvern ársfjórðung og metið hvort ástæða sé til þess að uppfæra hana með hliðsjón af afkomu fjórðungsins og horfum í rekstri. Áætlun ársins 2018 á afkomu fyrir skatta var hækkuð í 1.931 milljónir króna eftir fyrsta ársfjórðung og ekki þykir ástæða til að gera breytingar á henni nú.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri:

Þrátt fyrir að rekstrarumhverfi bankans sé að mörgu leyti krefjandi um þessar mundir hefur rekstur hans gengið í samræmi við áætlanir. Hlutabréfamarkaður á Íslandi hefur verið með daufasta móti og velta verið lítil. Íslenskir stofnanafjárfestar hafa verið atkvæðalitlir á markaði, þátttaka einstaklinga er lítil og dregið hefur úr fjárfestingu erlendra sjóða, ef horft er framhjá frumútboði Arion banka.

Líkt og önnur íslensk fyrirtæki hefur bankinn ekki farið varhluta af miklum launahækkunum undanfarinna ára sem hafa aukið kostnað umtalsvert. Íslenskar reglur um kaupauka eru mun strangari en í flestum Evrópulöndum og takmarka möguleika bankans til að aðlaga launakostnað að rekstrarárangri. Þetta hefur leitt til þess að föst laun eru mun hærri en æskilegt getur talist í rekstri banka eins og Kviku.

Loks er það starfsumhverfi sem Kvika og aðrir íslenskir bankar starfa við í litlu samræmi við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Lágmarks eiginfjárkrafa bankans er rúmlega 20%, greiða þarf fjársýsluskatt sem nemur 5,5% af launakostnaði, sérstakan fjársýsluskatt upp á 6% af öllum hagnaði umfram 1 milljarð króna og loks bankaskatt sem nemur 0,376% af öllum skuldum umfram 50 milljarða króna í árslok. Þessu til viðbótar jókst gjaldtaka hins opinbera enn frekar þegar Seðlabankinn ákvað að helmingur bindiskyldunnar skuli ekki bera neina vexti. Óskandi væri að starfsskilyrði fjármálafyrirtækja á Íslandi yrðu færð til sama vegar og þekkist í öðrum löndum.

Í júní var greint frá því að undirrituð hefði verið viljayfirlýsing um kaup Kviku á öllu hlutafé í Gamma Capital Management. Áreiðanleikakönnun stendur nú yfir og sendar verða út frekari fréttir af fyrirhuguðum kaupum eftir því sem við á. Þá hefur verið greint frá því að stefnt sé að skráningu hlutabréfa bankans á Aðallista kauphallarinnar á næstu mánuðum.

Á morgun, föstudag, kl. 8.30 verður haldinn kynningarfundur á sex mánaða uppgjöri Kviku í húsnæði bankans að Borgartúni 25, 8. hæð, og eru allir markaðsaðilar boðnir velkomnir.

Nánari upplýsingar veitir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku í síma 540 3200.


Viðhengi


Kvika - Condensed Consolidated Interim Financial Statements 30.06.18.pdf