English Icelandic
Birt: 2018-06-06 22:36:02 CEST
Eimskipafélag Íslands hf.
Innherjaupplýsingar

Eimskip hefur borist fyrra andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu

Eimskip barst í dag eftir lokun markaða andmælaskjal I frá Samkeppniseftirlitinu sem er liður í málsmeðferð rannsóknarinnar frá 2013. Skjalið felur í sér frummat Samkeppniseftirlitsins, en ekki bindandi stjórnvaldsákvörðun. Það er ritað í því skyni að stuðla að því að málið verði að fullu upplýst áður en ákvörðun er tekin og til þess að auðvelda félaginu að nýta sér andmælarétt sinn skv. stjórnsýslulögum.

Í andmælaskjali I er komist að þeirri frumniðurstöðu að Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð á rannsóknartímabili málsins 2008 til 2013 og brotið þannig gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins, en reifun ætlaðra brota er að finna í hjálögðu fylgiskjali sem er samantekt Samkeppniseftirlitsins um andmælaskjalið og rannsóknina.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um mögulega sektarfjárhæð, komi til hennar.

Í andmælaskjalinu er frummati Samkeppniseftirlitsins lýst á þeim atvikum málsins þar sem rannsóknin er lengst komin. Telur Samkeppniseftirlitið því rétt að veita félaginu færi á því að koma að skriflegum athugasemdum vegna þessara atvika. Jafnframt stefnir Samkeppniseftirlitið að því að senda félaginu viðbótar andmælaskjal, andmælaskjal II, eins fljótt og unnt er. Félagið hefur ekki upplýsingar um hvenær það verður. Í því verður fjallað um hugsanleg viðurlög og mögulega þörf á fyrirmælum vegna 16. gr. samkeppnislaga. Í andmælaskjali II verður metið hvort gögn eða upplýsingar sem kunna að berast Samkeppniseftirlitinu frá lögreglu eða ákæruvaldi kalli á breytingar á frummati eftirlitsins. Að fengnu andmælaskjali II mun félaginu verða aftur gefinn kostur á að tjá sig um það og málið í heild sinni og eftir atvikum koma að frekari sjónarmiðum vegna efnisatriða andmælaskjals I. Ef athugasemdir, skýringar eða ný gögn þykja gefa tilefni til getur frummat og ályktanir sem fram koma í andmælaskjali I tekið breytingum.

Eimskip mun nú hefjast handa við athugasemdir við andmælaskjalið og hefur verið veittur frestur til 7. september 2018 til að koma að gögnum og athugasemdum við andmælaskjal I.



Viðhengi


EIM - Fylgiskjal me frettatilkynningu.pdf