English Icelandic
Birt: 2018-05-21 23:48:15 CEST
Eimskipafélag Íslands hf.
Innherjaupplýsingar

Ítrekun á fréttatilkynningu frá 17. maí sl.

Með vísan til afkomutilkynningar sem birtist á Nasdaq Iceland þann 17. maí sl. þá upplýsir félagið um eftirfarandi:

Þann 10. september 2013 framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit á starfsstöðvum Samskipa og Eimskips. Húsleitin var gerð vegna rannsóknar á meintum brotum gegn 10. og 11. gr. samkeppnislaga.

Frá því að húsleitin var gerð hefur Eimskip ítrekað óskað eftir upplýsingum um grundvöll málsins, með takmörkuðum árangri. Félagið hefur sent frá sér fjölda fréttatilkynninga um málið. Ítarleg fréttatilkynning var birt þann 23. október 2014 í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar. 

Þann 11. maí sl., fóru forstjóri og framkvæmdastjóri alþjóðasviðs félagsins til skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara og fengu báðir stöðu sakbornings þann sama dag. Eins og áður hefur félagið takmarkaðar upplýsingar um grundvöll stjórnsýslumálsins sem varðar ætluð brot gegn 10. gr. og 11. gr. samkeppnislaga, en rannsókn héraðssaksóknara varðar 10. gr. samkeppnislaga og miðar að því hvort ólögmætt samráð um verð eða skiptingu markaða hafi átt sér stað. Framangreindir starfsmenn hafa óskað eftir afriti gagna sem ekki hefur borist. Félagið sjálft hefur ekki fengið gögn í hendur um málið.

Miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem félaginu eru kunnar um sakarefni málsins, hafnar félagið sem fyrr ásökunum um að hafa gerst brotlegt gegn ákvæðum samkeppnislaga. Það er von félagsins að rannsókninni fari senn að ljúka og fagnar því, nú næstum fimm árum síðar, að loksins virðist sem skriður sé kominn á rannsókn málsins.