Published: 2018-05-15 20:23:18 CEST

Hagar hf. ársuppgjör 2017/18

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2017/18 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 15. maí 2018. Reikningurinn er fyrir rekstrarárið 1. mars 2017 til 28. febrúar 2018. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.


Helstu lykiltölur

  • Hagnaður rekstrarársins nam 2.394 millj. kr. eða 3,2% af veltu.
  • Hagnaður á hlut var 2,11 kr.
  • Vörusala rekstrarársins nam 73.895 millj. kr.
  • Framlegð rekstrarársins var 24,8%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.139 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 29.384 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Handbært fé félagsins nam 222 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Eigið fé félagsins nam 17.957 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Eiginfjárhlutfall var 61,1% í lok rekstrarársins.


Rekstrarafkoma ársins
Vörusala rekstrarársins nam 73.895 millj. kr., samanborið við 80.521 millj. kr. árið áður. Sölusamdráttur félagsins í heild milli ára var því 8,2% en að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi var samdrátturinn 4,4% milli ára. Aflögð starfsemi verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf í Glæsibæ, Hagkaup í Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuverslanir í Smáralind og Kringlu. Samanburður á sölu milli ára í matvöruverslanahluta félagsins var sem hér segir:

Matvöruverslanir félagsins Sala Magn Fjöldi viðskiptavina
Breyting milli ára %

 
-6,8% -3,3% -1,4%
Breyting milli ára %,

m.t.t. aflagðrar starfsemi
-4,5% -2,6% 1,0%


Tólf mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 1,82% en lækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,21%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir umtalsverða styrkingu íslensku krónunnar, eða um 9,4% á samanburðartímabilinu.


Verðhjöðnun hafði mikil áhrif á rekstur félagsins á rekstrarárinu, í samanburði við fyrra ár. Verðhjöðnun er einkum tilkomin vegna styrkingar íslensku krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs. Breytt samkeppnisumhverfi hefur einnig haft áhrif á rekstur félagsins auk þess sem tímabundnar lokanir og breytingar á lykilverslunum hafði neikvæð áhrif.


Framlegð félagsins var 18.318 millj. kr., samanborið við 19.992 millj. kr. áður eða 24,8% framlegðarhlutfall samanborið við 24,8% á fyrra ári Þá er ljóst að ef borin er saman framlegð á milli ára að styrking krónunnar og betri innkaupsverð hafa skilað sér í lægra vöruverði til hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins.


Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 255 millj. kr. milli ára en hækkunin nemur um 3,3%. Launahlutfallið er nú 11,0% en var 9,7% á fyrra ári. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 7 millj. kr. milli ára og er kostnaðarhlutfallið nú 8,6%, samanborið við 7,9% á fyrra ári. Kostnaðarhlutfallið í heild hækkar úr 17,7% í 19,6%. Á rekstrarárinu voru gjaldfærðar 445 millj. kr. í húsnæðiskostnað vegna íþyngjandi leigusamninga. Um er að ræða leigusamning vegna húsnæðis Hagkaups í Holtagörðum en verslunin þar hefur lokað. Leigusamningurinn gildir út nóvember 2020. Gjaldfærslan er færð meðal annars rekstrarkostnaðar.


Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.139 millj. kr., samanborið við 6.024 millj. kr. árið áður. EBITDA hlutfall er 5,6%, samanborið við 7,5% árið áður.


Afskriftir ársins námu 1.122 millj. kr. samanborið við 1.225 millj. kr. ári áður. Afskriftir hafa hækkað nokkuð sl. tvö ár sem skýrist aðallega af lokun og breytingu verslana, auk aukinna fjárfestinga í fasteignum.


Hagnaður rekstrarársins fyrir tekjuskatt nam 2.969 millj. kr., samanborið við 5.041 millj. kr. árið áður. Hagnaður rekstrarársins nam 2.394 millj. kr., sem jafngildir um 3,2% af veltu, en hagnaður á fyrra ári var 4.036 millj. kr. Grunnhagnaður á hlut var 2,11 kr., samanborið við 3,46 kr. á fyrra ári.


Efnahagsreikningur og sjóðstreymi ársins

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 29.384 millj. kr. Fastafjármunir voru 20.364 millj. kr. og veltufjármunir 9.020 millj. kr. Félagið fjárfesti í rekstrarfjármunum fyrir 2.478 millj. kr. á árinu en stærstu verkefnin voru breytingar á verslun Hagkaups í Kringlu, Bónus í Smáratorgi og breyting á verslun ZARA í Smáralind. Auk þess voru m.a. verslanir Bónus í Kauptúni og á Akureyri endurnýjaðar og stækkaðar. Birgðir voru 4.574 millj. kr. í árslok og veltuhraði birgða 12,4.


Eigið fé félagsins var 17.957 millj. kr. í lok rekstrarársins og eiginfjárhlutfall 61,1%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 11.427 millj. kr., þar af voru langtímaskuldir 2.935 millj. kr. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok rekstrarársins voru 2.766 millj. kr. eða 0,7x EBITDA. Alls voru greiddar afborganir að fjárhæð 767 millj. kr. inn á langtímalán félagsins á rekstrarárinu.


Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 2.938 millj. kr., samanborið við 5.823 millj. kr. á fyrra ári, en 765 millj. kr. voru greiddar í tekjuskatt á rekstrarárinu. Fjárfestingarhreyfingar rekstrarársins voru 2.574 millj. kr. Fjármögnunarhreyfingar voru 2.616 millj. kr. en á rekstrarárinu keypti félagið eigin bréf fyrir 1.849 millj. kr.


Handbært fé í lok rekstrarársins var 222 millj. kr., samanborið við 2.474 millj. kr. árið áður og lækkaði handbært fé því um 2.252 millj. króna á rekstrarárinu.


Helstu verkefni rekstrarársins

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum á árinu námu 2.478 millj. kr. Miklar breytingar voru gerðar á verslunum Hagkaups Kringlu, Bónus í Smáratorgi, Bónus í Kauptúni og Bónus á Akureyri og verslun ZARA í Smáralind. Verslun Hagkaups í Kringlu hefur verið flutt á 1. hæð, verslun Bónus í Smáratorgi var t.a.m. stækkuð um 700 fm. og verslun ZARA í Smáralind og Kringlu hefur verið sameinuð í nýja verslun á tveimur hæðum í Smáralind.


Áhersla var lögð á endurkaupaáætlun á rekstrarárinu

Tvær endurkaupaáætlanir voru settar í framkvæmd á rekstrarárinu. Fyrri endurkaupaáætlunin hófst í ágúst 2017 og lauk í byrjun nóvember sama ár. Endurkaupin námu samtals 25 milljón hlutum og var kaupverð hinna keyptu hluta samtals 892 millj. króna. Í lok nóvember var tilkynnt um nýja endurkaupaáætlun og lauk henni um miðjan febrúar sl. Endurkaupin námu samtals 25 milljón hlutum og var kaupverðið 957 millj. króna. Heildarendurkaup rekstrarárins námu því 50 milljón hlutum og var kaupverðið 1.849 millj. króna. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar var í höndum Arctica Finance hf.


Kaup Haga á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands

Þann 26. apríl 2017 tilkynntu Hagar um undirritun kaupsamnings um kaup á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. Kaupsamningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Hluthafafundur samþykkti aukningu hlutafjár á aðalfundi félagsins þann 7. júní 2017 og var fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar aflétt þann 13. júlí 2017.


Niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins var að vænta 8. mars sl. en sáttaviðræður félagsins við eftirlitið höfðu ekki skilað endanlegri niðurstöðu fyrir þann tíma. Sökum þess ákvað stjórn Haga að afturkalla samrunatilkynninguna vegna málsins. Ný samrunatilkynning var send eftirlitinu 27. mars sl. Þann 29. apríl sl. barst Högum frummat um hina nýju samrunatilkynningu en þar kemur fram að Hagar hafi ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði nægi til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiði af samrunanum. Þykir Samkeppniseftirlitinu því ekki unnt að fallast á framkomna tillögu félagsins að sátt vegna málsins.


Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við frummatið á framfæri og eftir atvikum veita Samkeppniseftirlitinu frekari upplýsingar með það að markmiði að ná sátt um samrunann. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans.


Kaupsamningurinn er sem fyrr segir háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.


Heildarvirði Olís er tæpar 16.100 millj. kr. og vænt kaupverð um 10.200 millj. kr., auk vaxta. Gangi viðskiptin eftir verður kaupverð greitt með afhendingu 111 millj. hluta í Högum (á genginu 47,5), handbæru fé og lánsfé en Hagar hafa tryggt sér skammtíma fjármögnun vegna kaupanna. Samhliða kaupunum festu Hagar kaup á fasteignafélaginu DGV ehf. og er vænt kaupverð 400 millj. kr. Skuldahlutföll samstæðu (nettó vaxtaberandi skuldir/EBITDA) eftir viðskiptin verða um 2,0 EBITDA og heildar vaxtaberandi skuldir um 13.500 millj. kr.
Arðgreiðslustefna félagsins

Arðgreiðslustefna Haga leggur áherslu á að félagið skili til hluthafa sinna, beint eða óbeint, þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári, umfram nauðsynlegar fjárfestingar í rekstrarfjármunum. Þá er stefnt að því að Hagar greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 50% hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að auki mun félagið, ef tækifæri gefast, kaupa eigin bréf og kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni. Félagið stefnir að reglubundnum arðgreiðslum og kaupum á eigin bréfum, skv. formlegri endurkaupaáætlun, í þeim tilgangi að lækka hlutafé félagsins, sé svigrúm til þess.


Stjórn Haga mun leggja til á aðalfundi félagsins þann 6. júní nk. að greiddur verði 1,024 kr. arður á hlut til hluthafa á árinu 2018, samtals 1.200 milljónir króna. Arðgreiðslan nemur því 50,1% hagnaðar.


Helstu verkefni á nýju rekstrarári og framtíðarhorfur

Á rekstrarárinu sem nú er hafið verða tvær verslanir Bónus fluttar í nýtt húsnæði. Verslun Bónus í Faxafeni mun flytja í Skeifuna 11 seinni hluta árs en þar eru hafnar framkvæmdir við að endurbyggja þann hluta eignarinnar sem skemmdist í bruna árið 2014. Þá mun verslun Bónus í Mosfellsbæ flytja í nýtt húsnæði að Bjarkarholti 7-9 (áður Háholt 17-19) á svipuðum tíma.


Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2018/19, sem nú er hafið, gerir ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar verði um 5.000 milljónir króna. Fjárfestingar eru áætlaðar um 1.800-2.000 milljónir króna. Stærstu verkefnin tengjast flutningi Bónusverslana í Mosfellsbæ og í Skeifunni.


Bónus og Hagkaup verðlauna umhverfið

Bónus og Hagkaup hafa um langa hríð selt fjölnota burðarpoka en nú þegar hafa verið seldir yfir 300.000 slíkir pokar. Á árinu 2018 munu verslanirnar hætta sölu á burðarpokum úr plasti og í staðin verða seldir umhverfisvænni og lífniðurbrjótanlegir burðarpokar. Á sama tíma verður lögð enn meiri áhersla á fjölnota poka.


Samhliða þessum breytingum munu Bónus og Hagkaup gefa viðskiptavinum sínum 100.000 fjölnota burðarpoka. Áætlað er að átakið hefjist á haustmánuðum.


Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í verslun Bónus á Smáratorgi í Kópavogi, miðvikudaginn 16. maí kl. 8:30 en þar mun Finnur Árnason forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.


Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is.


Fjárhagsdagatal 2018/19


Aðalfundur 6. júní 2018

1. ársfjórðungur (1. mars – 31. maí): 28. júní 2018

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 29. október 2018

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 15. janúar 2019

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 16. maí 2019


Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

Viðhengi


Fréttatilkynning Hagar ársuppgjör 280218.pdf
Hagar Ársreikningur 28 2 2018 ísl.pdf