Icelandic
Birt: 2018-04-25 18:33:12 CEST
Eik fasteignafélag hf.
Reikningsskil

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu þrjá mánuði ársins 2018

  • Rekstrartekjur tímabilsins námu  1.946 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.235 m.kr.
  • Heildarhagnaður tímabilsins nam 1.103 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 817 m.kr. á tímabilinu.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 86.685 m.kr. og bókfært virði eigin eigna nam 3.733 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 884 m.kr. á tímabilinu.
  • Söluhagnaður fjárfestingareigna nam 204 m.kr. á tímabilinu.
  •  Vaxtaberandi skuldir námu 57.729 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall nam 30,7% a.t.t arðgreiðslu félagsins sem greidd verður í lok apríl.
  • Hagnaður á hlut var 0,32 kr.
  • Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2018 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 25. apríl 2018.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning fyrstu þrjá mánuði ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 og er uppgjörið í takt við áætlanir stjórnenda félagsins. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 námu 1.946 m.kr. og aukast um 11,1% milli ára. Þar af voru leigutekjur 1.637 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.235 m.kr. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.379 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 1.103 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum) nam 73,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 samanborið við 74,0% fyrstu þrjá mánuði ársins 2017.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam 884 m.kr á tímabilinu. Söluhagnaður fjárfestingareigna nam 204 m.kr. í fjórðungnum.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 95.712 m.kr. þann 31. mars 2018. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 86.685 m.kr. sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 84.515 m.kr., fasteignir í þróun 1.709 m.kr., byggingarréttir og lóðir 448 m.kr. og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 m.kr. Eigin eignir námu 3.733 m.kr. og er Pósthússtræti 2 (Hótel 1919) fært sem eigin eign þar sem í fasteigninni er annar rekstur en útleiga fasteigna og er reksturinn í eigu eins dótturfélags Eikar. Eigið fé félagsins nam 29.426 m.kr. í lok mars 2018 og var eiginfjárhlutfall 30,7% a.t.t. arðgreiðslu félagsins sem greidd verður í lok apríl. Heildarskuldir félagsins námu 66.286 m.kr. þann 31. mars 2018, þar af voru vaxtaberandi skuldir 57.729 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 6.285 m.kr. 

Virðisútleiguhlutfall

Virðisútleiguhlutfall félagsins var 96,0% í lok ársfjórðungsins og hefur hækkað um 0,7% frá áramótum.

Arðgreiðslustefna

Samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 22. mars 2018 að greiða 915 m.kr. í arð til hluthafa. Arðurinn verður greiddur til hluthafa þann 26. apríl 2018. Stefna stjórnar er að greiða 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs í arð til hluthafa. Handbært fé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins nam 817 m.kr.

Eignasafn félagsins

Fasteignirnar innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja tæplega 300 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum og eru leigutakarnir á fimmta hundrað. Helstu fasteignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Suðurlandsbraut 8, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær) og Austurstræti 5,6,7 og 17 í Reykjavík, Smáratorg 1 og 3 í Kópavogi og Glerártorg á Akureyri. Stærstu leigutakar eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Landsbankinn, Síminn, Sýn (Fjarskipti), Míla, Deloitte og Vátryggingafélag Íslands.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 44%. Næst koma verslunarhúsnæði 25%, hótel 12%, lagerhúsnæði 12%, og veitingahúsnæði 4%. Um 91% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 36% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108), 22% í miðbæ Reykjavíkur og 19% í Smáranum - Mjódd. 9% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af 8% á Akureyri.

Í ársfjórðungnum keypti félagið Vatnagarða 22, sem er vel staðsett 2.380 fm. lagerhúsnæði í fullri útleigu. Þá seldi félagið Ármúla 13a, sem er skrifstofuhúsnæði að stærð 2.382 fm. Húsnæðið hafði staðið autt síðan Sýn hf. færði höfuðstöðvar sínar að Suðurlandsbraut 8.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 26. apríl 2018 klukkan 8:30 á Hóteli 1919 í fundarherberginu Goðafoss, Pósthússtræti 2, Reykjavík. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl. 8:00. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, mun kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu ásamt Lýð H. Gunnarssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs.

Fjárhagsdagatal 2018

  • Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2018           30. ágúst 2018
  • Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2018           31. október 2018
  • Ársuppgjör 2019                                            28. febrúar 2019

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2200 / 820-8980


1F Arshlutaskyrsla.pdf