English Icelandic
Birt: 2018-02-22 19:28:49 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Reikningsskil

2017 var ár vaxtar hjá Eimskip

Afkomuspá ársins 2018 er EBITDA á bilinu 60 til 65 milljónir evra

  • Tekjur námu 664,0 milljónum evra, hækkuðu um 150,1 milljón evra eða 29,2% frá 2016
    • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,6% og tekjur hækkuðu um 58,1 milljón evra eða 15,3%
    • Magn í flutningsmiðlun jókst um 41,2% og tekjur hækkuðu um 91,9 milljónir evra eða 68,8%, en þar af voru 73,2 milljónir evra vegna nýrra fyrirtækja
  • EBITDA nam 57,2 milljónum evra, jókst um 3,7 milljónir evra eða 7,0% frá 2016
  • Hagnaður nam 16,8 milljónum evra samanborið við 21,9 milljóna evra hagnað 2016
    • Neikvæð breyting á gengismun á milli ára að fjárhæð 5,8 milljónir evra hafði mest áhrif
  • Eiginfjárhlutfall var 53,2% og nettóskuldir námu 102,8 milljónum evra í árslok
  • Stjórn félagsins leggur til 6,80 króna arðgreiðslu á hlut, alls um 10,2 milljónir evra

Gylfi Sigfússon forstjóri

„Árið 2017 má kalla „ár vaxtar“ hjá Eimskip, þar sem flutningsmagn, tekjur og EBITDA hafa aldrei verið hærri. Árið var frábært í flutningsmiðlunarstarfseminni með nýjum fyrirtækjum í samstæðunni og innri vexti. Félagið stóð frammi fyrir erfiðleikum í áætlunarsiglingum vegna sjómannaverkfallsins í byrjun ársins og ójafnvægis í flutningum tengdum Íslandi sem hefur aldrei verið meira og hafði neikvæð áhrif á rekstrarafkomu.

Rekstrartekjur 2017 voru 664,0 milljónir evra, hækkuðu um 150,1 milljón evra á milli ára eða 29,2%. Tekjuvöxturinn kom frá nýjum félögum í samstæðunni, auknu flutningsmagni og hærri verðum á alþjóðlegum flutningamörkuðum. EBITDA fyrir árið nam 57,2 milljónum evra og hækkaði um 7,0%. Hagnaður ársins nam 16,8 milljónum evra samanborið við 21,9 milljónir evra 2016 og lækkaði um 5,1 milljón evra, en lækkunin endurspeglar einkum 5,8 milljóna evra óhagstæðar gengissveiflur á milli ára.

Tekjur af áætlunarsiglingum félagsins námu 438,4 milljónum evra og hækkuðu um 15,3%. Magn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 3,6%. Góður vöxtur var í innflutningi til Íslands og Trans-Atlantic á árinu á meðan nokkur samdráttur var í útflutningi frá Íslandi og Færeyjum. EBITDA af áætlunarsiglingum nam 39,5 milljónum evra samanborið við 42,4 milljónir evra á árinu 2016. Sjómannaverkfallið og kostnaður vegna ójafnvægis í flutningum á fyrri helmingi ársins höfðu 2,6 milljóna evra neikvæð áhrif á EBITDA. Einskiptisliðir að fjárhæð 0,8 milljónir evra voru vegna sektar frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi og kostnaðar tengdum fjárfestingum í nýjum fyrirtækjum. Einskiptistekjur tengdar endurskipulagningu á rekstri í Asíu að fjárhæð 2,5 milljónir evra voru færðar á fjórða ársfjórðungi.

Rekstur flutningsmiðlunarstarfseminnar var góður á árinu. Rekstrartekjur námu 225,6 milljónum evra og hækkuðu um 68,8% samanborið við fyrra ár. Tekjur af starfseminni sem fyrir var hækkuðu um 18,7 milljónir evra eða 14,0% og nýju félögin, Extraco, Mareco og SHIP-LOG, skiluðu tekjuvexti að fjárhæð 73,2 milljónir evra. Magn í flutningsmiðlun jókst um 41,2% frá árinu 2016 en þar af komu 29,2% frá nýjum félögum í samstæðunni og innri vöxtur var 12%. EBITDA af flutningsmiðlun nam 17,7 milljónum evra á árinu og jókst um 6,6 milljónir evra eða 60,1%. EBITDA frá nýju félögunum í samstæðunni nam 5,1 milljón evra. Fjárfestingarnar hafa skapað verðmæti fyrir samstæðuna. Samþætting á starfsemi nýju fyrirtækjanna skapar öflugra flutninganet og tækifæri til vaxtar með nýjum vörutegundum, mörkuðum, samræmdri sölustarfsemi og samlegðaráhrifum. Með fjárfestingunum hefur félagið einnig náð öðrum markmiðum með því að auka hlutfall EBITDA af rekstrareiningum með litla fjárbindingu sem skila hærri arðsemi og aukinni landfræðilegri dreifingu tekna og EBITDA. Flutningsmiðlunarstarfsemin er orðin mikilvægari fyrir Eimskip og við munum halda áfram að stuðla að vexti hennar bæði með innri vexti og frekari kaupum á fyrirtækjum.

Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi 2017 námu 175,9 milljónum evra og hækkuðu um 25,2%, vegna nýrra félaga og aukins flutningsmagns. EBITDA nam 11,9 milljónum evra og hækkaði um 20,1% samanborið við sama tímabil 2016. Afkoman í nóvember og desember var undir væntingum, einkum vegna samdráttar í útflutningi frá Íslandi og Færeyjum. Flutt magn áætlunarsiglingum jókst um 4,5% á fjórðungnum. Magn í flutningsmiðlun jókst um 44,0%, þar sem 25,2% komu frá nýjum fyrirtækjum og 18,8% voru innri vöxtur. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 2,9 milljónum evra og hækkaði um 1,0 milljón evra eða 50,7% frá fyrra ári.

Félagið hefur fjárfest í gámasiglingakerfi sínu til framtíðar og hefur náð langtímamarkmiði sínu um vikulega þjónustu á öllum siglingaleiðum þess. Stærsta fjárfestingin var í vikulegri þjónustu á leiðinni á milli Norður-Ameríku og Evrópu og í strandflutningakerfinu á Íslandi. Eimskip hefur styrkt stöðu sína í Trans-Atlantic flutningum frá lokum nóvember 2017 með því að bjóða nýja vikulega þjónustu á milli norðanverðar Evrópu og Norður-Ameríku. Þetta er liður í stefnu félagsins um vöxt sem var náð með því að bæta þriðja 700 gámaeininga skipinu á grænu leiðina. Flutningsmagn Eimskips í Trans-Atlantic flutningum hefur aukist verulega á undanförnum árum og nam vöxturinn 30,9% á árinu 2017. Þessi vöxtur, ásamt nýjum samningi við alþjóðlega skipafélagið CMA CGM, auk viðbótarmagns hjá núverandi viðskiptavinum Eimskips og nýjum viðskiptavinum sem reiða sig á vikulega þjónustu, lögðu grunninn að viðbótarskipi á þessari leið. CMA CGM samningurinn nær yfir svæðið milli Halifax, Nova Scotia og Portland, Maine í Bandaríkjunum.

Á síðustu þremur árum höfum við bætt þremur skipum við gámasiglingakerfi félagsins og aukið afkastagetu þess um 35%. Á sama tíma hefur flutt magn aukist um 32%. Við höfum nú náð markmiði okkar um að bjóða vikulega þjónustu á Norður-Atlantshafi. Aukin tíðni í siglingakerfinu mun auka tekjur og laða að nýja viðskiptavini. Áhersla okkar í áætlunarsiglingum á árinu 2018 er að auka tekjur og draga úr kostnaði sem leiðir til betri afkomu. Félagið leggur nú sérstaka áherslu á að bæta vinnuferla með því að horfa á bókunarferla frá upphafi til enda til að ná fram aukinni skilvirkni og arðsemi.

Horfur fyrir árið 2018 eru jákvæðar í áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun. Góður vöxtur er í magni í inn- og útflutningi til og frá Íslandi á fyrstu sex vikum þessa árs og horfur fyrir Færeyjar og Noreg eru stöðugar. Gert er ráð fyrir vexti í magni í Trans-Atlantic flutningum með vikulegu þjónustunni. Samkeppni er áfram hörð í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi. Afkomuspá fyrir árið 2018 er EBITDA á bilinu 60 til 65 milljónir evra.

Bygging tveggja nýrra gámaskipa vegna fyrirhugaðs samstarfs við Royal Arctic Line gengur samkvæmt áætlun og gert er ráð fyrir að skipin verði afhent á miðju ári 2019. Skipin munu verða þau stærstu og hagkvæmustu í skipaflota Eimskips. Samkeppniseftirlitið er að meta fyrirhugað samstarf.

Eimskip hefur á undanförnum árum unnið að lækkun á kolefnisspori sínu með góðum árangri. Uppsöfnuð lækkun á kolefnisspori félagsins á árunum 2016 og 2017 var 12,3% samanborið við grunnárið 2015, reiknað á flutta einingu í tonnum. Markmið Eimskips er að ná 40% uppsafnaðri lækkun á kolefnisspori félagsins til ársins 2030, til samræmis við markmið Evrópusambandsins og Noregs.

Stjórn félagsins leggur til við aðalfund að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2018 sem nemur 6,80 krónum á hlut, sem er sama fjárhæð á hlut og greidd var á síðasta ári. Nemur heildarfjárhæð arðgreiðslunnar 1.269,1 milljón króna eða um 10,2 milljónum evra, sem samsvarar um 61,0% af hagnaði ársins 2017.“

Frekari upplýsingar

  • Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, sími: 525 7202
  • Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang: investors@eimskip.is


2018 02 22 - PR Nasdaq - Uppgjor 2017.pdf
Eimskip - Consolidated Financial Statements 2017.pdf