Icelandic
Birt: 2018-02-19 16:46:05 CET
Síminn hf.
Ársreikningur

Hagnaður Símans eykst um 11,7% milli ára

Helstu niðurstöður árið 2017

  • Heildartekjur árið 2017 námu 28.433 milljónum króna samanborið við 29.572 milljónir króna árið 2016, sem er 3,9% samdráttur milli ára. Talsverðar breytingar hafa orðið á rekstri samstæðunnar sem skýra tekjusamdrátt. Leiðrétt fyrir aflagðri starfsemi dregst velta saman um 1,8% milli ára.
  • Rekstrarhagnaður árið 2017 nam 4.919 milljónum króna samanborið við 4.626 milljónir króna árið 2016 og hækkar um 293 milljónir króna eða 6,3% milli ára.
  • Hagnaður á árinu 2017 nam 3.076 milljónum króna samanborið við 2.755 milljónir króna árið 2016 og eykst um 11,7% milli ára.

   Helstu niðurstöður á fjórða ársfjórðungi árið 2017

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2017 námu 7.500 milljónum króna samanborið við 7.945 milljónir króna á sama tímabili 2016. Samdráttur milli ára skýrist nær alfarið af lægri sölu Sensa en tekjur á fjórða ársfjórðungi 2016 voru óvenju miklar hjá félaginu, bæði í vörusölu og þjónustu.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 1.930 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2017 samanborið við 2.103 milljónir króna á sama tímabili 2016. Samdrátt á milli tímabila má að stórum hluta rekja til kostnaðar vegna starfslokasamninga á fjórða ársfjórðungi 2017. EBITDA hlutfallið er 25,7% fyrir fjórða ársfjórðung 2017 en var 26,5% á sama tímabili 2016.
  • Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2017 nam 607 milljónum króna samanborið við 601 milljónir króna á sama tímabili 2016.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.065 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2017 en var 2.241 milljón króna á sama tímabili 2016. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.285 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2017 en nam 2.106 milljónum króna á sama tímabili 2016. Greiddir skattar námu 593 milljónum króna á ársfjórðungnum.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 18,4 milljörðum króna í lok árs 2017 en voru 22,9 milljarðar króna í árslok 2016. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 17,7 milljarðar króna í lok árs 2017 en voru 19,3 milljarðar króna í lok árs 2016.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 343 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2017 en voru 370 milljónir króna á sama tímabili 2016. Fjármagnsgjöld námu 400 milljónum króna, fjármunatekjur voru 55 milljónir króna og gengishagnaður var 2 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 59,9% í lok árs 2017 og eigið fé 36,3 milljarðar króna.

   Orri Hauksson, forstjóri:

„Við erum stolt af afkomu Símans og dótturfélaga árið 2017. Stefna undanfarinna ára hefur verið að skerpa rekstur samstæðunnar utan um kjarnastarfsemina sem hefur skilað góðum árangri á hörðum samkeppnismarkaði. Hagnaður ársins jókst um tæp tólf prósent milli ára og EBITDA framlegð samstæðunnar er yfir 30% af tekjum. Tekjur lækkuðu vegna lægri verða á farsímamarkaði, minni búnaðarsölu og aflagðrar starfsemi. Kostnaðurinn lækkaði hins vegar enn hraðar, til að mynda dróst launaliðurinn saman um 642 milljónir milli ára. Skuldir lækkuðu á árinu um rúma fimm milljarða.

Við héldum áfram að bæta við ánægðum viðskiptavinum í internet- og farsímaþjónustu, en sérstaklega í Premium efnisþjónustu okkar í sjónvarpi. Íslendingar gátu í fyrsta sinn í fyrra horft á 4K háskerpuútsendingar, tekið IPTV myndlykilinn með í fríið og greitt með farsímanum í verslunum. 

Síminn – og dótturfélögin Míla og Sensa – hafa markvisst fjárfest í sterkara sambandi sínu við viðskiptavini undanfarin misseri. Uppbygging Símasamstæðunnar á ríkan þátt í því að Sameinuðu þjóðirnar útnefndu Ísland á síðasta ári með hæstu einkunn allra landa í heiminum í fjarskipta- og upplýsingatækni. Útbreiðsla ljósnetstenginga Mílu jókst hratt á landsbyggðinni og 60% heimila á höfuðborgarsvæðinu höfðu í árslok möguleika á ljósleiðara félagsins. Alls 98,2% heimila landsmanna eru nú dekkuð með heimsklassa 4G sambandi Símans.

Fjárfestingar hafa skilað sér í stöðugri kerfum, sjálfvirkari þjónustu og einfaldari ferlum. Á síðasta ári fækkaði símtölum í þjónustuver Símans um 20%. Þrátt fyrir að fækkað hafi í starfsliði samstæðunnar um 11% á síðasta ári og hjá móðurfélaginu um tæpan fjórðung á undanförnum tveimur árum, mælum við aukna ánægju viðskiptavina okkar. Fjárfest var fyrir 4,8 milljarð í fyrra, en fjárfestingaþörfin verður minni fram á við. 

Við munum áfram skapa ný tækifæri í rekstri samstæðunnar. Má nefna nýlegan samning við Verne Global sem gerir búnaðarrekstur samstæðunnar mun hagkvæmari en fyrr. Aðalatriðið er að Sensa og Síminn fá þarna tækifæri til að bjóða hýsingu og stórvirkan tölvurekstur á innlendum og erlendum vettvangi. Stefna Símans og dótturfélaga er að veita framúrskarandi þjónustu og auka með þeim hætti virði fjárfesta félagsins.“

Nánari upplýsingar veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)

 


Siminn 31.12.2017.pdf
Siminn - Afkomutilkynning 4F 2017.pdf
Siminn - Fjarfestakynning 4F 2017.pdf
Siminn - Investor presentation Q4 2017.pdf