English Icelandic
Birt: 2018-02-07 21:01:51 CET
Marel hf.
Reikningsskil

Marel kynnir afkomu ársins 2017 - Góður endir á frábæru ári

Marel kynnir afkomu ársins 2017 (Allar upphæðir eru í evrum)

Góður endir á frábæru ári

Fjórði ársfjórðungur 2017 – Skilvirkni skilar hærri tekjum og auknum rekstrarhagnaði

  • Pantanir á fjórða ársfjórðungi námu 282 milljónum evra (3F 2017: 296m og 4F 2016: 294m).
  • Tekjur námu 295 milljónum evra (3F 2017: 247m og 4F 2016: 250m).
  • EBIT* nam 46 milljónum evra (3F 2017: 38m og 4F 2016: 35m), sem er 15,7% af tekjum (3F 2017: 15,2% og 4F 2016 14,0%).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 65 milljónum evra (4F 2016: 74m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 4,81 evru sent (4F 2016: 3,17 evru sent).

Árið 2017–  Yfir 1 milljarður evra í tekjur og 15% EBIT

  • Pantanir á árinu 2017 námu 1.144 milljónum evra (2016: 1.013m pro forma).
  • Tekjur ársins námu 1.038 milljónum evra (2016: 983m pro forma).
  • EBIT* var 157 milljónir evra, sem er 15,2% af tekjum (2016: 143m pro forma og 14,6% af tekjum).
  • Pantanabókin stóð í 472 milljónum evra við lok árs (2016: 350m).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 236 milljónum evra á árinu (2016: 179m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x1,9 í árslok samanborið við x2,3 í árslok 2016, sem er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan að halda skuldahlutfalli milli x2-3. Vert er að nefna að á árinu 2017 keypti Marel eigin bréf að andvirði 63,4 milljónum evra og gekk frá kaupum á Sulmaq fyrir 26 milljónir evra.
  • Hagnaður á hlut fyrir síðastliðið ár var 13,70 evru sent (2016: 10,59 evru sent).

Stjórn Marel leggur til að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2017 sem nemur 4,19 evru sentum á hlut sem nemur um 30% af hagnaði rekstrarársins 2017 m.v. útistandandi hluti í árslok. Jafnframt hefur stjórn Marel veitt stjórnendum félagsins heimild til að kaupa eigin bréf félagsins fyrir allt að nafnvirði 20 milljón hluta.

Frá því Marel var skráð í íslenskri kauphöll árið 1992 hefur félagið, með góðum stuðningi hluthafa, vaxið að meðaltali rúmlega 20% á ári og skapað mikil verðmæti. Á grundvelli metnaðarfullrar stefnu félagsins og áformum um framtíðarvöxt mun Marel kanna möguleika á skráningu félagsins í kauphöll erlendis. Mun félagið leita liðsinnis óháðra alþjóðlegra ráðgjafa við þá vinnu og greiningu á helstu skráningarkostum.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Fjórði árshluti var góður endir á sterku rekstrarári. Pantanir hækkuðu um 13% á milli ára og námu 1.144 millljónum evra yfir árið. Okkar starf snýr að því að umbylta matvælaframleiðslu. Síðustu ár hefur Marel einnig tekið miklum framförum. Við höfum forgangsraðað fjárfestingum og bætt ferla til að tryggja viðskiptavinum okkar hágæða heildarlausnir á réttum tíma. Til að mæta miklum vexti í pöntunum höfum við fjölgað starfsfólki, en í dag starfa hjá Marel um 5.400 manns í yfir 30 löndum.

Samhentu starfsfólki okkar tókst að skila 295 milljónum evra í tekjur á fjórða ársfjórðungi 2017, sem er nýtt met og aukning um 18% miðað við sama tímabil í fyrra. Pantanir og tekjur hafa vaxið hraðar en rekstrarkostnaður sem skilar félaginu góðri rekstrarniðurstöðu. Heildartekjur Marel árið 2017 námu yfir einum milljarði evra og 15% í EBIT. Í ljósi góðrar rekstrarniðurstöðu og sterkrar pantanabókar, gerir félagið ráð fyrir góðum innri vexti árið 2018.

Nýsköpun og markaðssókn styður við áframhaldandi innri vöxt og verðmætasköpun. Félagið hyggst vaxa enn frekar með yfirtökum og öflugu samstarfi við leiðandi framleiðslu- og tæknifyrirtæki. Í samvinnu við viðskiptavini erum við að umbylta matvælavinnslu á heimsvísu.“

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Tillaga um arðgreiðslu

Stjórn Marel mun leggja til á aðalfundi félagsins 2018 að hluthafar fái greiddan arð vegna rekstrarársins 2017 sem nemur 4,19 evru sentum á hlut . Þetta samsvarar um 30% af hagnaði ársins m.v. útistandandi hluti við árslok. Tillaga um arðgreiðslu er í samræmi við arðgreiðslustefnu Marel sem kynnt var á aðalfundi félagsins í mars 2011. Í henni felst að skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) skuli vera x2-3, og umfram eigið fé verði nýtt til að styðja við vöxt og verðmætasköpun félagsins og arðgreiðslur til hluthafa. Samkvæmt stefnunni skulu arðgreiðslur og/eða endurkaup hlutabréfa vera um 20-40% af hagnaði.

Horfur

Í ljósi góðrar rekstrarniðurstöðu og sterkrar pantanabókar, gerir félagið ráð fyrir góðum innri vexti árið 2018.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur veltur á hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og verður því ekki línulegur. Gera má ráð fyrir breytilegri afkomu milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Fjárfestafundur

Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 kl. 8.30 verður haldinn afkomufundur með markaðsaðilum og fjárfestum. Þar munu Árni Oddur Þórðarson, forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri.

Kynningarfundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins, Austurhrauni 9 í Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Fundinum verður einnig vefvarpað á www.marel.com/webcast.

Fjárhagsdagatal

  • Aðalfundur  - 6. mars 2018
  • 1F 2018 – 23. apríl 2018
  • 2F 2018 – 25. júlí 2018
  • 3F 2018 – 31. október 2018
  • 4F 2018 – 6. febrúar 2019

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veitir fjárfestatengill félagsins, Tinna Molphy í gegnum netfangið tinna.molphy@marel.com og í síma 563 8603. 

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

 


Marel_2017_CorporateGovernanceStatementAndCSRStatement_FINAL.pdf
Marel_Consolidated Financial statements 2017_FINAL.pdf
Marel_FY17_IR_PressRelease_ENG_FINAL.pdf