English Icelandic
Birt: 2018-01-04 18:20:06 CET
Icelandair Group hf.
Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Nýtt skipulag hjá Icelandair Group

  • Starfsemi félagsins skipt í alþjóðaflugrekstur annars vegar og fjárfestingar hins vegar
  • Nýtt skipurit sem styður við kjarnastarfsemi og vöxt
  • Ný framkvæmdastjórn

Eins og kom fram í tilkynningu Icelandair Group þann 15. nóvember sl. hafa verið gerðar breytingar á skipulagi félagsins. Breytingarnar fela það í sér að rekstur og starfsemi Icelandair Group og Icelandair verða samþætt með þeim hætti að einn forstjóri verður yfir báðum félögum og fjármálasvið félaganna eru sameinuð. Þá verða IGS og Icelandair Cargo hluti af Icelandair eftir breytingarnar.

Með breytingunni næst fram skýrari áhersla á kjarnastarfsemi félagsins og er samþættingin skref í átt að aukinni einföldun og hagkvæmni í rekstri. Þá verða boðleiðir styttri og stjórnendum fækkar en eftir breytinguna hefur framkvæmdastjórum samstæðunnar fækkað um fjóra á undanförnum mánuðum.

Í kjölfar þessara skipulagsbreytinga hefur verið ákveðið að innleiða nýtt skipurit hjá félaginu sem endurspeglar þessar áherslubreytingar og styður við vöxt félagsins á komandi misserum og árum. Starfsemi félagsins verður skipt í tvennt; annars vegar alþjóðaflugstarfsemi og hins vegar fjárfestingar. Flugstarfsemi félagsins vegur þyngst í rekstri og afkomu samstæðunnar og það er  mikilvægt að uppbygging félagsins endurspegli þá staðreynd.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri: „Félagið hefur stækkað mjög mikið á undanförnum árum; áfangastöðum hefur fjölgað, umsvif og velta hafa stóraukist, flugflotinn stækkað og starfsfólki fjölgað. Önnur umsvif hafa einnig aukist mjög mikið og samstæðan hefur margfaldast að stærð og umfangi. Með þessum breytingum nú erum við að skipuleggja félagið með áherslu á kjarnastarfsemi þess, alþjóðaflugrekstur, og sjáum mikil tækifæri til framtíðar. Ný framkvæmdastjórn félagsins er skipuð mjög kraftmiklu fólki með margþætta menntun og reynslu, bæði innan fyrirtækisins og utan þess. Ég bind miklar vonir við þann öfluga hóp sem nú tekst á við það verkefni að leiða samhent starfsfólk til móts við spennandi tíma.“

Alþjóðaflugstarfsemin mun skiptast í fimm svið; fjármálasvið, mannauðssvið, rekstrarsvið, stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsvið og sölu- og markaðssvið.

Fjármálasvið mun meðal annars bera ábyrgð á fjárstýringu og fjármögnun félagsins, áhættustýringu, áætlanagerð og greiningu, fjárfestatengslum, eignastýringu, viðskiptagreind og reikningshaldi. Framkvæmdastjóri Fjármálasviðs verður Bogi Nils Bogason. Hann hefur verið framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group frá því í október 2008 og er nú þegar meðlimur framkvæmdastjórnar samstæðunnar.

Mannauðssvið mun bera ábyrgð á að móta og framfylgja starfsmannastefnu félagsins. Í því felst meðal annars að halda utan um ráðningar, starfsþjálfun og starfsþróun. Framkvæmdastjóri mannauðssviðs verður Elísabet Helgadóttir sem gengur til liðs við félagið frá Íslandsbanka þar sem hún hefur starfað sem starfsþróunarstjóri undanfarin ár.

Rekstrarsvið mun bera ábyrgð á öllum flugrekstri félagsins, viðhaldi og verkfræðistarfsemi, gæðaeftirliti og öryggismálum. Framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs verður Jens Þórðarson. Hann hefur verið framkvæmdastjóri tæknisviðs Icelandair seinustu ár.

Stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsvið mun bera ábyrgð á stefnumótun félagsins og að henni sé framfylgt. Sviðið mun meðal annars bera ábyrgð á þróun leiðakerfis félagsins, stefnumótandi verkefnum, stafrænni þróun og vinnslu gagna og vöruþróun. Framkvæmdastjóri sviðsins verður Birna Ósk Einarsdóttir sem kemur til félagsins frá Landsvirkjun þar sem hún hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs.

Sölu- og markaðssvið mun bera ábyrgð á sölu og markaðsstarfi félagsins á öllum mörkuðum. Einnig mun sviðið meðal annars bera ábyrgð á vörumerki, tekjustýringu, verðlagningu, þjónustuupplifun og hliðartekjum. Framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs verður Guðmundur Óskarsson en hann hefur verið framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair frá síðasta vori.

Framkvæmdastjórar fyrrnefndra sviða mynda framkvæmdastjórn félagsins auk Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra og Magneu Þóreyjar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair Hotels, sem bæði eru núverandi meðlimir framkvæmdastjórnar auk Gunnars Más Sigurfinnssonar, framkvæmdastjóra Icelandair Cargo og Jens Bjarnasonar sem mun sinna verkefnum sem snúa að meðal annars að samskiptum við eftirlitsaðila á sviði flugrekstrar og alþjóðasamskiptum. 

Fjárfestingar félagsins eru með tvennum hætti: annars vegar í flugtengdri starfsemi og hins vegar ferðaþjónustu á Íslandi. Undir flugtengda starfsemi heyra dótturfélögin Air Iceland Connect, Loftleiðir Icelandic og Vita. Fjárfestingar félagsins í ferðaþjónustu á Íslandi eru félögin Iceland Travel og Icelandair Hotels. 

Upplýsingar um nýja meðlimi framkvæmdastjórnar:

Birna Ósk Einarsdóttir kemur til Icelandair frá Landsvirkjun þar sem hún hefur verið verið framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. Hún var framkvæmdastjóri hjá Símanum frá árinu 2011, síðast yfir sölu- og þjónustusviði. Birna Ósk starfaði hjá Símanum frá árinu 2001, fyrst við almannatengsl og mannauðsráðgjöf. Hún var forstöðumaður verkefnastofu Símans á árunum 2006 til 2010 og stýrði samhliða markaðsmálum 2009-2010 þar til hún tók við stöðu framkvæmdastjóra. Birna hefur setið í stjórn Skeljungs hf. frá árinu 2015 og Já ehf.  frá árinu 2017.  Hún sat í stjórn Farsímagreiðslna ehf.  frá 2012 til 2015 og í stjórn Gildis, lífeyrissjóðs frá 2014-2015. Birna Ósk er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi fyrir stjórnendur frá IESE Business School í Barcelona.

Elísabet Helgadóttir hefur starfað við mannauðsmál hjá Íslandsbanka frá árinu 2007 og  undanfarin fimm ár sem starfsþróunarstjóri. Hjá Íslandsbanka hafði hún m.a. yfirumsjón með allri fræðslu og þjálfun starfsmanna, stjórnendaþjálfun, markþjálfun og frammistöðustjórnun. Á árunum 2000-2007 starfaði hún hjá Capacent Gallup við rannsóknir og ráðgjöf. Elísabet lauk BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og MA gráðu í Mannauðsstjórnun frá EADA Business School í Barcelona árið 2007.

Guðmund­ur Óskars­son hef­ur verið fram­kvæmda­stjóri sölu- og markaðssviðs Icelanda­ir frá því í mars á seinasta ári. Hann kom til Icelanda­ir frá Flug­fé­lagi Íslands þar sem hann hafði stýrt markaðs- og sölu­mál­um frá árinu 2016. Guðmund­ur starfaði hjá Icelanda­ir frá ár­inu 2004, lengst af sem for­stöðumaður markaðsmá­la og viðskiptaþró­un­ar til hausts­ins 2016. Þar áður var hann markaðsstjóri Icelanda­ir fyr­ir ann­ars veg­ar Mið-Evr­ópu og hins veg­ar Skandi­nav­íu í tvö ár hvort. Hann var innkaupa- og markaðsstjóri Vatnsvirkjans/Tækjatækni frá 2002-2003.  Guðmundur situr í stjórn LAVA á Hvolsvelli. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum og ráðum í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár. Hann er með BS- og BA-gráður í viðskipta­fræði og alþjóðasam­skipt­um frá Penn­sylvan­ía State-há­skól­an­um og diplóma­gráðu frá Uni­versität Leipzig í Þýskalandi.

Gunnar Már Sigurfinnsson hefur verið framkvæmdastjóri Icelandair Cargo frá árinu 2008. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair frá 2005-2008 og svæðisstjóri Icelandair í Þýskalandi, Hollandi og Mið-Evrópu frá 2001-2005.  Gunnar Már var sölustjóri Icelandair í Þýskalandi frá árinu 1997 til 2000.  Hann var sölu og markaðstjóri Flugleiða Innanlands til ársins 1997, en gegndi ýmsum störfum hjá því félagi frá árinu 1986.  Gunnar Már er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Jens Bjarnason hóf störf í verkfræðideild Icelandair árið 1984. Hann var um tíma framkvæmdastjóri Loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar en var flugrekstrarstjóri Icelandair í áratug á árunum 1996 til 2005 og síðar framkvæmdastjóri ITS, tækniþjónustu Icelandair, frá 2005 til 2011. Á árunum 2011 til 2015 veitti hann forstöðu rekstrardeild alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA, í Montreal í Kanada. Sú deild annast málefni sem varða alþjóðlegan flug-, tækni- og stöðvarekstur flugfélaga. Jens er með PhD gráðu í verkfræði frá Northwestern University í Bandaríkjunum.

Jens Þórðarson hefur verið framkvæmdastjóri tæknisviðs frá því í október 2011. Hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá 2006, fyrst sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá ITS, dótturfélagi Icelandair. Hann var eftir það forstöðumaður fjármála og rekstrar á tæknisviði Icelandair frá 2007-2010 en þá tók hann við starfi sem forstöðumaður varahluta- og innkaupadeildar. Jens er iðnaðarverkfræðingur, lauk M.Sc. vorið 2007 frá Háskóla Íslands.

  

Nánari upplýsingar veitir

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, sími: 896-1455.


Organisational Structure Icelandair Group.pdf