English Icelandic
Birt: 2017-11-14 21:25:16 CET
Arion banki hf.
Reikningsskil

Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2017

Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 nam 10,4 milljörðum króna samanborið við 17,3 milljarða króna á sama tímabili 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,3% en var 11,2% á sama tímabili árið 2016.

Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi ársins 2017 var neikvæð um 0,1 milljarð króna samanborið við 7,5 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var neikvæð sem nemur 0,2% en var jákvæð sem nam 14,4% á sama tímabili 2016. Neikvæð afkoma á ársfjórðungnum skýrist af niðurfærslum á lánum, kröfum og öðrum eignum sem tengjast United Silicon og nema alls 3,7 milljörðum króna á fjórðungnum og 4,8 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Afkoma þriðja ársfjórðungs hefði numið um 2,6 milljörðum króna ef ekki hefði komið til þessa.

Heildareignir námu 1.144,9 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 221,5 milljarði króna í lok september, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta og afborganna skuldabréfa sem eru á gjalddaga snemma árs 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans var 27,1% í lok september og er óbreytt frá árslokum 2016. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 hækkaði og nam 26,6% samanborið við 26,5% í árslok 2016.

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi: 

Í milljónum króna 9 mán. '17 9 mán. '16 3F 2017 3F 2016
Hreinar vaxtatekjur 22.570 22.058 7.250 7.432
Hreinar þóknanatekjur 10.703 10.213 3.865 3.466
Aðrar tekjur 5.411 7.377 237 1.569
Rekstrartekjur 38.684 39.648 11.352 12.467
Rekstrarkostnaður  (21.380)  (22.331)  (7.540)  (7.175)
Bankaskattur  (2.388)  (2.190)  (814)  (705)
Hrein virðisbreyting  (1.262) 6.827  (2.551) 5.882
Hagnaður fyrir skatta 13.654 21.954 447 10.469
Tekjuskattur  (3.917)  (5.261)  (756)  (3.170)
Afkoma af eignum til sölu eftir skatta 616 569 196 206
Hagnaður (tap) 10.353 17.262  (113) 7.505
           
Helstu kennitölur        
Arðsemi eigin fjár 6,3%  11,2%  (0,2%) 14,4% 
Hagnaður á hlut (í krónum) 5,17  8,38   (0,06) 3,76 
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir 2,9%  3,1%  2,7%  3,1% 
Kostnaðarhlutfall 55,3%  56,3%  66,4%  57,6% 

Helstu efnahags- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Í milljónum króna 30.09.2017 31.12.2016 Breyt. Breyt.%
Lán til viðskiptavina 750.947 712.422 38.524 5%
Aðrar eignir 393.906 323.602 70.304 22%
Skuldir 923.144 824.640 98.504 12%
Eigið fé 221.708 211.384 10.324 5%
Útlán sem hlutfall af innlánum 168,4% 172,9%    
Áhættuvegnar eignir sem hlutfall af heildareignum 68,4% 72,7%    
Hlutfall eiginfjárþáttar 1 26,6% 26,5%    

Varðandi ítarlegar fjárhagsupplýsingar vísast til árshlutareiknings samstæðu Arion banka fyrir tímabilið 1. janúar – 30. september 2017, sem birtur er á heimasíðu bankans, www.arionbanki.is.

 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma fyrstu níu mánaða ársins er í takt við væntingar en verulegir einskiptisliðir koma bæði til hækkunar og lækkunar. Grunnreksturinn er fremur stöðugur og vaxta- og þóknanatekjur nálægt okkar væntingum. Fjárhagsstaða bankans er áfram sterk og eiginfjárhlutfall er 27,1%. Afkoman markast hins vegar talsvert af neikvæðum áhrifum tengdum lánveitingum til United Silicon og hlutabréfaeign í félaginu. Arion banki hefur fært niður lán til félagsins að hluta og hlutabréfaeign sína að fullu. Það er um ár síðan verksmiðja United Silicon var gangsett og fljótlega kom í ljós að óreiða var á starfsemi félagsins. Nú liggur jafnframt fyrir að verksmiðjan var ekki fullkláruð þegar hún var gangsett. Arion banki hefur því þurft að koma að starfsemi félagsins í æ ríkari mæli og er í dag stærsti hluthafi þess. Neikvæð áhrif vegna United Silicon nema ríflega 2% af eigin fé bankans og niðurfærsla lána nemur innan við 0,4% af lánabók bankans. Útistandandi skuldbinding nemur um 5,4 milljörðum króna sem er um 0,5% af efnahag bankans.

Áhættutaka með viðskiptavinum er kjarninn í starfsemi fjármálafyrirtækja. Sem betur fer er það svo að langflest verkefni ganga vel. Við höfum skoðað vel aðdragandann að þátttöku bankans í uppbyggingu kísilverksmiðju United Silicon. Niðurstaðan er sú að greiningarvinnan sem unnin var og lá til grundvallar ákvörðunar um að lána í verkefnið hafi í öllum aðalatriðum verið góð. Þar var stuðst við áætlanir félagsins, en að gerð þeirra komu bæði innlendir og reynslumiklir erlendir aðilar. Einnig var stuðst við álit og úttektir utanaðkomandi sérfræðinga. Málið átti sér langan aðdraganda og fyrir lágu öll leyfi og samningar um uppbyggingu verksmiðjunnar, orkukaup, helstu aðföng og sölu afurða. Engu að síður er ljóst að draga þarf lærdóm af því hvernig til hefur tekist og það munum við gera. Áfram verður unnið að því að koma starfsemi verksmiðjunnar í gott horf í sátt við samfélagið.

Lánshæfismatsfyrirtækið S&P hækkaði lánshæfismat bankans nýverið í BBB+. Þetta er í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað innan bankans og almennt hér á landi, þar sem bæði bankinn og íslenskt efnahagslíf hafa haldið áfram að styrkjast. Arion banki hefur verið virkur þátttakandi á alþjóðlegum lánamörkuðum og hækkun lánshæfismats stækkar enn frekar þann hóp fjárfesta sem horfir til bankans, sem aftur stuðlar að lægri fjármögnunarkostnaði bankans til framtíðar.

Arion banki opnaði nýverið nýtt útibú í Kringlunni sem gefur innsýn í  framtíðarsýn bankans þegar kemur að þjónustu við okkar viðskiptavini. Í Kringlunni nýtum við þær stafrænu lausnir sem við höfum kynnt á undanförnum misserum og notið hafa mikilla vinsælda. Á þessu ári hefur Arion banki kynnt tíu nýjar stafrænar lausnir og fleiri eru á leiðinni. Viðskiptavinir útibúsins í Kringlunni njóta aðstoðar starfsfólks við að nýta sér hinar nýju lausnir og geta rætt við ráðgjafa bankans í gegnum fjarfundabúnað. Það er nýmæli að útibúið hefur sama afgreiðslutíma og önnur þjónusta í Kringlunni og er því það bankaútibú landsins sem er með hvað rýmstan afgreiðslutíma alla daga vikunnar.“

 

Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, miðvikudaginn 15. nóvember, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans.

Áhugasamir geta sent tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar varðandi þátttöku á símafundinum.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.

 


Afkomukynning Arion banka 9M 2017.pdf
Afkomutilkynning Arion banka 9M 2017.pdf
Arion Bank - Interim Consolidated Financial Statements 30 September 2017.pdf