Icelandic
Birt: 2017-10-24 18:33:13 CEST
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. árshlutauppgjör Q2 // mars 2017 – ágúst 2017

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2017/18 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 24. október 2017. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2017 til 31. ágúst 2017. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

 

Helstu upplýsingar á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins:

  • Hagnaður tímabilsins nam 1.532 millj. kr. eða 4,1% af veltu.
  • Hagnaður á hlut var 1,33 kr.
  • Vörusala tímabilsins nam 37.169 millj. kr.
  • Framlegð tímabilsins var 24,7%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.378 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.558 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 2.188 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 18.646 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 61,0% í lok tímabilsins.

 

Verðhjöðnun, breytt markaðsstaða og umbreyting lykilverslana einkennandi á fyrri helmingi rekstrarársins

Vörusala tímabilsins nam 37.169 milljónum króna, samanborið við 40.712 milljónir króna árið áður. Sölusamdráttur tímabilsins er 4,9%, ef frá er talin aflögð starfsemi. Sölusamdráttur félagsins á tímabilinu í heild er 8,7% í krónum talið. Aflögð starfsemi er verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf Glæsibæ, matvöruhluti Hagkaups Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuverslanir í Smáralind og Kringlu. Í matvöru­verslanahluta samstæðunnar er sölusamdráttur í krónum 7,1% en magnminnkun 3,0%. Ef tekið er tillit til aflagðrar starfsemi er sölusamdráttur matvöruverslanahlutans 4,8% en magnminnkun 1,9%. Viðskiptavinum hefur fjölgað á tímabilinu um 0,5% í matvöruverslanahlutanum en að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi hefur viðskiptavinum fjölgað um 3,7%.

Sex mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 1,74% en lækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,55%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir umtalsverða styrkingu íslensku krónunnar, eða um 15,1% á samanburðartímabilinu.

Framlegð félagsins var 9.197 milljónir króna, samanborið við 10.035 milljónir króna árið áður eða 24,7% framlegð samanborið við 24,6% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 42 milljónir króna milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 17,1% í 18,6%. Launakostnaður hefur hækkað um 6,5% milli ára en annar rekstrarkostnaður hefur lækkað um 8,9%. Hækkun launakostnaðar má að mestu rekja til kjarasamningshækkana, þenslu á vinnumarkaði, auk þess sem launakostnaður hefur hækkað tímabundið vegna framkvæmda og lokunar verslana. Vert er að taka fram að starfsfólk verslana var á launaskrá á meðan framkvæmdir stóðu yfir. Annar rekstrarkostnaður hefur lækkað samhliða fækkun verslunarfermetra.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.378 milljónum króna, samanborið við 3.180 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,4%, samanborið við 7,8% árið áður. Áhrif aflagðrar starfsemi, tímabundinnar lokunar vegna breytinga hjá félaginu og einskiptiskostnaðar vegna þess er um 200-250 milljónir króna á EBITDA tímabilsins. Þá eru áhrif verðhjöðnunar, styrkingu krónunnar og breytts samkeppnisumhverfis um 550-600 milljónir króna.

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.532 milljónum króna, sem jafngildir 4,1% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.161 milljónir eða 5,3% af veltu.

 

Fjárbinding minnkar með lækkun birgða samhliða lokun verslana

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.558 milljónum króna. Fastafjármunir voru 19.438 milljónir króna og veltufjármunir 11.120 milljónir króna. Þar af eru birgðir 4.319 milljónir króna en birgðir voru 4.885 milljónir króna ári áður. Birgðir hafa því lækkað um 566 milljónir króna milli ára, samhliða lokun verslana og styrkingar íslensku krónunnar.

Eigið fé félagsins var 18.646 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 61,0%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 11.912 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 3.203 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 1.296 milljónum króna, samanborið við 2.398 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 901 milljón króna en þar af voru 765 milljónir króna fjárfesting í áhöldum og innréttingum, m.a. vegna endurnýjunar Hagkaups í Kringlu, Bónus í Garðabæ og Smáratorgi og verslun ZARA í Smáralind. Fjármögnunarhreyfingar voru 681 milljón króna en þar af voru 298 milljónir króna vegna kaupa á eigin bréfum. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.188 milljónir króna, samanborið við 3.316 milljónir króna árið áður. Handbært fé lækkaði um 286 milljónir króna á tímabilinu.

 

Staðan og framtíðarhorfur

Líkt og áður hefur komið fram hefur verðhjöðnun haft mikil áhrif á rekstur félagsins undanfarna sex mánuði, í samanburði við fyrra ár. Verðhjöðnun er einkum tilkomin vegna mikillar styrkingar krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs. Þá er ljóst að ef borin er saman framlegð á milli ára að styrking krónunnar og betri innkaupsverð hafa skilað sér í lægra vöruverði til hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins. Framlegð félagsins er óbreytt á milli ára en Bónus hefur nú sýnt, þrjár verðkannanir í röð, að fyrirtækið býður neytendum enn lægsta vöruverð á Íslandi. Breytt samkeppnisumhverfi hefur einnig haft áhrif á rekstur félagsins. Það er mat stjórnenda að áhrifa verðhjöðnunar og breytinga á samkeppnisumhverfi muni gæta áfram og út rekstrarárið. Auk þess hafa tímabundar lokanir og breytingar á lykilverslunum neikvæð áhrif á þriðja ársfjórðung. Áætlun stjórnenda gerir ráð fyrir að EBITDA rekstrarársins í heild muni enda í 4.000-4.300 milljónum króna.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að bæta verslanir félagsins. Stærri og endurbætt verslun Bónus á Smáratorgi opnaði 14. október sl. en verslunin var stækkuð um 700 fm. Verslunin byggir á grænum grunni og notar íslenskan koltvísýring sem kælimiðil en viðtökur við nýju versluninni hafa verið mjög góðar. Verslun Hagkaups á 2. hæð var lokað í byrjun árs en í ágúst var hafist handa við að endurnýja verslun fyrirtækisins á 1. hæð. Ný og endurbætt verslun var opnuð sl. laugardag, en hún byggir á sömu hönnun og Hagkaupsverslunin í Smáralind, sem opnaði í nóvember á síðasta ári. Þá nýtir verslun Hagkaups einnig íslenskan koltvísýring sem kælimiðil. Verslun Hagkaups í Smáralind hefur verið tilnefnd til verðlauna sem „finalist í Interior Award hjá Retail Week 2017“.  Þá hefur verslun ZARA í Smáralind verið lokuð undanfarnar vikur en ný verslun á tveimur hæðum, verður opnuð næstkomandi föstudag. Verslun ZARA í Kringlunni verður sameinuð versluninni í Smáralind og mun því loka um næstu mánaðamót..

Eins og fram hefur komið undirrituðu Hagar hf. kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf. þann 17. nóvember 2016. Þann 17. júlí sl. hafnaði Samkeppniseftirlitið samrunanum en Hagar höfðu ekki tekið við rekstri Lyfju og hafði ákvörðunin því ekki áhrif á reikningsskil félagsins. Stjórn Haga tók ákvörðun um að áfrýja ekki niðurstöðunni, þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála aflar almennt ekki nýrra gagna, en Hagar töldu rannsókn Samkeppniseftirlitsins ófullburða. Þá er beðið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um kaup Haga hf. á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. en kaupsamningur var undirritaður í apríl sl. Vænta má niðurstöðu eftirlitsins í lok febrúar 2018. Öðrum fyrirvörum hefur verið aflétt.

Í ágúst sl. var tilkynnt um framkvæmd endurkaupaáætlunar félagsins en framkvæmdin er í höndum Arctica Finance hf. Endurkaupin munu í heild sinni að hámarki nema 25.000.000 hlutum, þó þannig að fjárhæðin verði aldrei hærri en 1.000 milljónir króna. Að lokinni viku 42 hefur félagið keypt samtals 19.501.506 hluti og er kaupverðið samtals 698 milljónir króna.

 

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í anddyri verslunar Hagkaups á 1. hæð í Kringlunni, miðvikudaginn 25. október kl. 8:30 en þar mun Finnur Árnason, forstjóri Haga, kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

 

Fjárhagsdagatal 2017/18

 

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 11. janúar 2018

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 16. maí 2018

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Frettatilkynning Hagar arshlutareikningur 310817.pdf
Hagar Arshlutareikningur 31 08 2017 isl_m nofnum.pdf