English Icelandic
Birt: 2017-08-25 02:05:43 CEST
Eimskipafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

EIMSKIP: EBITDA á öðrum ársfjórðungi í samræmi við væntingar

Afkomuspá ársins 2017 er óbreytt, EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra

  • Tekjur námu 173,1 milljón evra, hækkuðu um 47,0 milljónir evra eða 37,2% frá Q2 2016
  • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,5% og tekjur hækkuðu um 21,5 milljónir evra eða 22,4%
  • Magn í flutningsmiðlun jókst um 39,6% og tekjur hækkuðu um 25,4 milljónir evra eða 84,3%, þar af voru 22,0 milljónir evra vegna nýrra félaga
  • EBITDA nam 16,7 milljónum evra, jókst um 0,5 milljónir evra eða 3,2% frá Q2 2016
  • Kostnaður jókst um 1,1 milljón evra vegna ójafnvægis í flutningum á Íslandi, en staðsetningargjald gáma vegur á móti þeim kostnaði á seinni helmingi ársins
  • Hagnaður nam 4,9 milljónum evra samanborið við 8,8 milljóna evra hagnað í Q2 2016
  • Aðallega vegna breytinga á gengismun að fjárhæð 3,2 milljónir evra
  • Eiginfjárhlutfall var 54,5% og nettóskuldir námu 77,8 milljónum evra í lok júní
  • Afkomuspá ársins 2017 er óbreytt, EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra

Gylfi Sigfússon forstjóri

„EBITDA á öðrum ársfjórðungi var í samræmi við væntingar félagsins. Tekjur á fjórðungnum hækkuðu um EUR 47,0 milljónir eða 37,2% samanborið við sama tímabil í fyrra og námu 173,1 milljón evra. Tekjur af áætlunarsiglingum hækkuðu um 22,4% og flutningsmiðlunartekjur hækkuðu um 84,3%, einkum vegna nýrra félaga í samstæðunni. Rekstrargjöld fjórðungsins hækkuðu um 46,4 milljónir evra eða 42,2% samanborið við annan ársfjórðung í fyrra. Rekstrargjöld í áætlunarsiglingum hækkuðu um 27,9% og um 80,6% í flutningsmiðlun. Hækkun kostnaðar í áætlunarsiglingum skýrist einkum af kostnaði tengdum aukinni afkastagetu siglingakerfisins, kostnaði tengdum ójafnvægi í flutningum til og frá Íslandi og hærri olíukostnaði. Einnig hærri launakostnaði bæði vegna styrkingar íslensku krónunnar og vegna almennra launahækkana og aukinna umsvifa. Hækkun rekstrargjalda í flutningsmiðlun er aðallega tilkomin vegna nýrra flutningsmiðlunarfyrirtækja og hærri verða á alþjóðaflutningamarkaði.

Eimskip jók afkastagetu siglingakerfisins um 7-11% í febrúar með því að breyta siglingaleiðum og bæta við einu skipi, en við það hækkaði kostnaður kerfisins á meðan öflun nýrra tekna tekur lengri tíma. Ójafnvægi á milli inn- og útflutnings tengdum Íslandi hefur aukist, þar sem innflutningur jókst verulega á fyrstu sex mánuðum ársins, einkum vegna flutninga á bifreiðum og byggingavörum, á sama tíma og útflutningur dróst saman, einkum vegna sjómannaverkfallsins á fyrsta ársfjórðungi. Þetta ójafnvægi leiðir til aukins kostnaðar vegna yfirvinnu í hafnarstarfseminni og kostnaðar vegna leigu á skipum til að annast endurstaðsetningu gáma og flutning á viðbótarmagni. Eimskip hefur brugðist við þessum viðbótarkostnaði með því að auka hagkvæmni í hafnarstarfsemi og með því að leggja á gámastaðsetningargjald (Container Positioning Charge, CPC) frá 1. júní 2017.

EBITDA nam 16,7 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 16,2 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra, en 1,1 milljónar evra kostnaður vegna ójafnvægis í flutningum hafði áhrif á afkomu fjórðungsins.

Tekjur af áætlunarsiglingum félagsins námu 117,5 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi og hækkuðu um 21,5 milljónir evra eða 22,4%. Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,5% samanborið við sama tímabil í fyrra. EBITDA af áætlunarsiglingum nam 11,8 milljónum evra og dróst saman um 1,1 milljón evra eða 8,7%, einkum vegna hærri kostnaðar að fjárhæð 2,1 milljón evra vegna aukinnar afkastagetu siglingakerfisins og ójafnvægis í flutningum.

Rekstur flutningsmiðlunar gekk vel á fjórðungnum, en magn jókst um 39,6% og tekjur námu 55,6 milljónum evra og hækkuðu um 25,4 milljónir evra eða 84,3%. Ný félög í samstæðunni skýra 70,3% af tekjuvextinum en 14,0% koma frá annarri flutningsmiðlunarstarfsemi. EBITDA af flutningsmiðlun nam 4,9 milljónum evra og hækkaði um 1,7 milljónir evra eða 50,1%, en þar af voru 40,0% vegna nýrra fyrirtækja og 10,1% vegna innri vaxtar.

Árangur fjórðungsins litaðist af gengissveiflum. Rekstrarreikningur félagsins er tiltölulega vel varinn fyrir gengissveiflum en efnahagsreikningurinn er opnari gagnvart þeim. Um 6,5% veiking Bandaríkjadollars gagnvart evru og um 3,7% styrking íslensku krónunnar gagnvart evru á öðrum ársfjórðungi leiddi til 2,0 milljóna evra gengistaps. Samanborið við 1,2 milljóna evra gengishagnað á öðrum ársfjórðungi 2016 nemur neikvæður viðsnúningur á milli ára 3,2 milljónum evra. Hagnaður fjórðungsins nam 4,9 milljónum evra samanborið við 8,8 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra, einkum vegna viðsnúningsins í gengismun á milli ára.

Tekjur félagsins námu 320,0 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 239,4 milljónir evra á sama tímabili á síðasta ári. EBITDA fyrir fyrstu sex mánuðina nam 26,0 milljónum evra og jókst um 0,2 milljónir evra samanborið við fyrra ár. Að teknu tilliti til einskiptisliða á fyrsta ársfjórðungi jókst aðlöguð EBITDA fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017 um 2,3 milljónir evra eða 9,7% samanborið við EBITDA í fyrra. Kostnaður að fjárhæð 3,8 milljónir evra vegna breytts siglingakerfis og vegna ójafnvægis í flutningum hafði einnig neikvæð áhrif á EBITDA fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Hagnaður nam 5,1 milljón evra samanborið við 10,6 milljónir evra á fyrstu sex mánuðum ársins 2016. Flutt magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,3% samanborið við fyrstu sex mánuðina í fyrra og jókst magn í flutningsmiðlun um 34,3%.

Eimskip undirritaði í janúar samning við skipasmíðastöð í Kína um smíði á tveimur 2.150 gámaeininga skipum með ísklassa og Polar Code sem afhent verða á árinu 2019. Fyrsta samningsgreiðslan, að fjárhæð 11,7 milljónir evra, fór fram í maí.

Eimskip keypti í júní 75% í flutningsmiðlunarfyrirtækinu SHIP-LOG A/S sem er með höfuðstöðvar í Árósum í Danmörku. Fyrirtækið er með sterka stöðu í hitastýrðum flutningum á matvælum og lyfjum. Ársvelta fyrirtækisins nemur um 17 milljónum evra og er EBITDA hlutfall 6-7%.

Eimskip vinnur áfram að innri vexti og kaupum á fyrirtækjum sem falla að starfsemi félagsins og auka virði þess. Félagið breytti siglingakerfi sínu í febrúar og bætti við skipi sem jók afkastagetu kerfisins um 7-11%. Breytingarnar á kerfinu höfðu í för með sér aukningu kostnaðar um 2,7 milljónir evra á fyrri helmingi ársins. Þessi fjárfesting í innri vexti gefur félaginu færi á að annast þá miklu aukningu sem orðið hefur í inniflutningi til Íslands. Ójafnvægið í magni í inn- og útflutningi til og frá Íslandi hefur leitt til mikils álags og óhagræðis í starfseminni í Sundahöfn. Gripið hefur verið til aðgerða til að draga úr kostnaði og lagt á áðurnefnt gámastaðsetningargjald til að vega upp á móti kostnaði vegna ójafnvægisins. Félagið er nú í góðri stöðu til að snúa vexti í flutningsmagni í aukinn hagnað á seinni helmingi ársins.

Nýju fjárfestingarnar eru að ganga vel, þær falla vel að starfsemi Eimskips og auka virði félagsins. Stefna félagsins um vöxt með kaupum á sérhæfðum flutningsmiðlunarfyrirtækjum er að skila góðum árangri. EBITDA af flutningsmiðlun hefur aukist verulega undanfarin þrjú ár, úr 3,8 milljónum evra fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2015 í 9,0 milljónir evra fyrir fyrstu sex mánuði 2017, en það jafngildir um 136% hækkun. Unnið er að því að samþætta starfsemi nýju fyrirtækjanna til að skapa öflugt net og tækifæri til vaxtar með nýjum vörutegundum, mörkuðum, samlegð og samræmdri sölustarfsemi. Öðrum markmiðum hefur einnig verið náð með þessum kaupum með því að auka hlutfall félaga með litla rekstrarfjármuni í rekstri, skapa hærri arðsemi og fá aukna landræðilega dreifingu tekna og EBITDA. Félagið mun halda áfram að meta nýja kosti í fjárfestingum í fyrirtækjum og skipum.

EBITDA var í samræmi við væntingar okkar á fyrstu sex mánuðum ársins. EBITDA í júlí var sterk og flutt magn fyrstu þrjár vikur ágústmánaðar er á áætlun. Afkomuspá fyrir árið 2017 er óbreytt og er EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra.“

Frekari upplýsingar

  • Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, sími: 525 7202
  • Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang: investors@eimskip.is

 


Eimskip - Financial Statements Q2 2017.pdf
Eimskip - Uppgjor annars arsfjorungs 2017.pdf