English Icelandic

Þessi tilkynning hefur verið leiðrétt. Smelltu hér til að skoða leiðrétta tilkynningu

Birt: 2017-08-23 19:18:59 CEST
Arion banki hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Afkoma Arion banka á fyrri árshelmingi 2017

Hagnaður Arion banka á fyrri helmingi ársins 2017 nam 10,5 milljörðum króna samanborið við 9,8 milljarða króna á sama tímabili 2016. Arðsemi eigin fjár var 9,7% samanborið við 9,5% fyrir sama tímabil árið 2016.

Hagnaður Arion banka á öðrum ársfjórðungi ársins 2017 nam 7,1 milljarði króna samanborið við 6,9 milljarða króna á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var 13,0% en nam 13,3% á sama tímabili 2016.

Heildareignir námu 1.126,4 milljörðum króna í lok júní samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 221,6 milljörðum króna í lok júní, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta, sem nú er að mestu lokið.

Eiginfjárhlutfall bankans var 28,4% í lok júní en var 27,1% í árslok 2016. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 27,8% samanborið við 26,5% í árslok 2016.

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Rekstrarreikningur  
Í milljónum króna 6 mán. '17 6 mán. '16 Breyt. 2F 2017 2F 2016 Breyt.
Hreinar vaxtatekjur 15.320 14.626   8.160 7.353 11% 
Hreinar þóknanatekjur 6.838 6.745   3.508 3.527 (1%)
Aðrar tekjur 5.174 5.812   2.183 4.345 (50%)
Rekstrartekjur 27.332 27.183   13.851 15.225 (9%)
Rekstrarkostnaður  (13.840)  (15.156)    (8.210)  (7.958) 3% 
Bankaskattur  (1.574)  (1.485)    (777)  (743) 5% 
Hrein virðisbreyting 1.289 945   408 1.448 (72%)
Hagnaður fyrir skatta 13.207 11.487   5.272 7.972 (34%)
Tekjuskattur  (3.161)  (2.091)    (1.827)  (1.354) 35% 
Afkoma af eignum til sölu 420 363   273 259 5% 
Hagnaður 10.466 9.759   3.718 6.877 (46%)
             
             
Helstu kennitölur            
Arðsemi eigin fjár 9,7% 9,5%   13,0% 13,3%  
Hagnaður á hlut (í krónum) 5,23  4,62    3,56  3,38   
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir 3,0% 3,1%   3,1% 3,1%  
Kostnaðarhlutfall 50,6% 55,8%   39,0% 52,3%  

 

Helstu efnahags- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Í milljónum króna 30.06.2017 31.12.2016 Breyt. Breyt.%  
Lán til viðskiptavina 733.649 712.422   3%  
Aðrar eignir 392.762 323.602   21%  
Skuldir 904.644 824.640   10%  
Eigið fé 221.767 211.384   5%  
Útlán sem hlutfall af innlánum 167,7% 172,9%      
Áhættuvegnar eignir / Heildareignir 67,0% 72,7%      
Hlutfall eiginfjárþáttar A 27,8% 26,5%      

 

Varðandi nánari fjárhagsupplýsingar vísast til árshlutareiknings samstæðu Arion banka fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2017, sem birtur er á heimasíðu bankans, www.arionbanki.is

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins er góð og nokkuð umfram væntingar. Grunnrekstur bankans gekk vel á tímabilinu og einskiptisliðir hafa jákvæð áhrif afkomuna. Bankinn er fjárhagslega sterkur eins og eiginfjárhlutfall bankans ber með sér en það er 28,4%. Bankinn er vel í stakk búinn að styðja við viðskiptavini sína og íslenskt atvinnulíf.

Við höfum einsett okkur að vera fremsti bankinn á Íslandi þegar kemur að stafrænum lausnum. Markmiðið er að bjóða viðskiptavinum okkar upp á þægilegri bankaþjónustu. Að þeir geti með einföldum hætti sinnt sínum fjármálum, hvort sem þeir þurfa að millifæra, fá yfirdráttarlán, dreifa kreditkortagreiðslum, huga að sínu sparifé eða sækja um greiðslumat og íbúðalán. Markviss þróunarvinna á þessu sviði og tilkoma rafrænna skilríkja hefur leitt til þess að viðskiptavinir okkar geta gert allt þetta og fleira til í Arion appinu og netbankanum hvar og hvenær sem þeim hentar best. Við höfum jafnframt auðveldað fólki og fyrirtækjum að koma í viðskipti til okkar með þægilegum hætti í gegnum vefinn. Okkar framtíðarsýn í þessum efnum er skýr og við munum halda áfram á þessari braut og kynna til leiks fleiri stafrænar lausnir á næstu mánuðum.

Á árinu 2014 ákvað Arion banki að leggja Sameinuðu sílikoni (United Silicon) lið og aðstoða félagið við fjármögnun en þá hafði verið unnið að undirbúningi verkefnisins um nokkurra ára bil. Bankinn lagði verkefninu til verulegt lánsfé eins og greint er frá í árshlutareikningi bankans. Horft var til fjölmargra þátta við ákvörðunina; öll leyfi voru til staðar, eftirspurn og markaðsverð afurðarinnar var gott, tæknin var margreynd, stjórnvöld og sveitarfélagið voru áfram um framkvæmdina og að verkefninu komu innlendir og erlendir sérfræðingar og fjárfestar. Jafnframt lá fyrir að reynsla af kísilverum var almennt góð og að um var að ræða verkefni sem skapaði bæði störf þar sem þörf var fyrir hendi og gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbú sem bjó við gjaldeyrishöft. Starfsemi United Silicon hófst svo í nóvember 2016 en því miður komu ítrekuð áföll upp í starfseminni. Félagið hefur óskað eftir greiðslustöðvun og leitar nú nauðasamninga við kröfuhafa. Arion banki fylgist náið með þróun mála og leggur félaginu lið í greiðslustöðvun sem helsti lánveitandi þess. Forgangsverkefni er að klára nauðsynlegar úrbætur á verksmiðjunni þannig að framleiðsla og umhverfisþættir starfseminnar verði í lagi til frambúðar og verksmiðjan starfi í sátt við samfélagið.

Á þessum fyrstu sex mánuðum ársins hefur bankinn gefið út samtals 500 milljónir evra í tveimur alþjóðlegum skuldabréfaútgáfum. Aukinn fjöldi fjárfesta horfir til Arion banka sem fjárfestingarkosts, m.a. vegna jákvæðrar þróunar á útgáfum bankans á eftirmarkaði á liðnum misserum. Jafnframt er aðgengi bankans að innlendri fjármögnun gott. Bankinn greiddi á tímabilinu upp að fullu skuldabréf frá Kaupþingi sem gefin voru út í tengslum við nauðasamninga Kaupþings og er Arion banki því nú að fullu fjármagnaður á markaði.

Eins og kunnugt er dró til tíðinda hvað eignarhald bankans varðar þegar alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir keyptu um 29% hlut í bankanum í marsmánuði. Áfram er unnið að sölu hlutar Kaupþings í bankanum og meðal þeirra kosta sem í skoðun eru er almennt hlutafjárútboð og skráning í kauphöll hér á landi og erlendis en enn sem komið er hefur ekki verið tekin ákvörðun um næstu skref.“

 

Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 24. ágúst, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar varðandi þátttöku á símafundinum.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.

 

 

 


Afkomukynning Arion banka 6M 2017.pdf
Afkomutilkynning Arion banka 6M 2017.pdf
Arion Bank - Interim Consolidated Financial Statements 30 June 2017.pdf