Published: 2017-08-10 11:04:23 CEST
Hagar hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins verður ekki áfrýjað

Stjórn Haga hefur tekið þá ákörðun að áfrýja ekki þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá 17. júlí sl. að hafna samruna Haga og Lyfju.  Áfrýjunarnefnd samkeppnismála rannsakar ekki með sjálfstæðum hætti stöðu fyrirtækja á markaði og því er ljóst að niðurstaða áfrýjunarnefndar myndi að mestu byggja á endurskoðun á þeim upplýsingum sem þegar hefur verið aflað af eftirlitinu.  Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins kemur á óvart og veldur vonbrigðum. Það er mat Haga að með ákvörðun sinni hafi Samkeppniseftirlitið svipt neytendur þeim ávinningi sem samruninn gaf færi á, m.a. með lægra vöruverði og betra aðgengi að vörum. 

Þann 17. nóvember síðastliðinn undirrituðu Hagar hf. og Lindarhvoll ehf., f.h. Ríkissjóðs Íslands, samning um kaup Haga á öllu hlutafé í Lyfju hf.  Markmið samningsins var að styrkja félagið og bæta þjónustu við viðskiptavini.  Þar sem félögin starfa að meginhluta á ólíkum mörkuðum taldi stjórn félagsins ólíklegt að Samkeppniseftirlitið kæmi í veg fyrir samrunann. 

Þann 17. júlí hafnaði Samkeppniseftirlitið samrunanum og taldi að skaðleg samþjöppun hefði orðið á þeim mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.  „Breytingarnar hefðu verið til þess fallnar að skaða samkeppni, almenningi og atvinnulífi til tjóns“, eins og segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.    

Verslanir Haga hafa boðið lægsta verð á dagvöru, snyrtivöru og hreinlætisvöru hér á landi í áratugi og boðið sama verð um land allt.  Verslanir Haga hafa keppst við að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu á þessum mörkuðum.  Því telur stjórn Haga af og frá að niðurstaða stofnunarinnar um háa markaðshlutdeild Haga og Lyfju á mörkuðum fyrir hreinlætis- og snyrtivörur, vítamín og bætiefni styðji líkur á því að sameinað félag hefði valdið almenningi og atvinnulífi tjóni vegna verðhækkana, skertrar þjónustu eða minna vöruúrvals. Sú fullyrðing er með öllu órökstudd. 

Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að Hagar séu enn í markaðsráðandi stöðu á dagvörumarkaði og byggir þar að mestu á 10 ára gamalli ákvörðun sinni frá árinu 2008.  Enginn þeirra þriggja meginþátta sem Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar þeirri ákvörðun á við í dag.  Í fyrsta lagi er staðfest að markaðshlutdeild félagsins er undir 50%, m.a. vegna þess að félaginu var skipt upp fyrir skráningu þess í Kauphöll Íslands að ósk Samkeppniseftirlitsins, auk þess sem félagið hefur fækkað verslunarfermetrum og markaðshlutdeild félagsins hefur minnkað.  Í öðru lagi er efnahagslegur styrkleiki félagsins langt frá því að vera umfram keppnauta á markaði og í engu samræmi við það sem lagt er til grundvallar í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins árið 2008.  Í þriðja lagi blasir við að þær aðgangshindranir sem Samkeppniseftirlitið lagði ríka áherslu á árið 2008 eru ekki til staðar og hafa í raun aldrei verið.  Nýir aðilar hafa komið óhindrað inn á markaðinn og fjölgað verslunum.  Engar aðgangshindranir eru að dagvörumarkaði.

Rannsókn eftirlitsins á starfsemi nýtilkomins aðila á markaði og hlutdeildar hans á dagvörumarkaði er verulegum annmörkum háð að mati Haga. Þá setur eftirlitið sjálft fyrirvara við rannsóknina og þann stutta tíma sem nýr aðili hafði starfað þegar rannsóknin var gerð og telur ekki ljóst hver áhrif af innkomu annars stærsta smásala heims verða til lengri tíma.  Stjórn Haga telur nauðsynlegt að fullburða rannsókn verði gerð á núverandi hlutdeild fyrirtækja á íslenskum dagvörumarkaði.

Samkvæmt samkeppnislögum er markaðsráðandi staða fyrir hendi þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.  Stjórn Haga leggur áherslu á að hún telur þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Hagar séu enn í markaðsráðandi stöðu þrátt fyrir breyttar aðstæður á íslenskum dagvörumarkaði, ekki standast.

Sterk staða á snyrtivörumarkaði er meginástæða þess að Samkeppniseftirlitið hafnaði samrunanum.  Þar vegur m.a. þungt að eftirlitið telur Fríhöfnina ekki vera hluta af íslenskum snyrtivörumarkaði, þrátt fyrir að fyrirliggjandi gögn sýni svo ekki verður um villst að Fríhöfnin lítur á Haga og aðra innlenda snyrtivörusala sem keppinauta.  Fyrir liggur að Fríhöfnin hefur með sérstökum aðgerðum beitt sér gagnvart erlendum birgja til þess að hafa áhrif á verðlagningu á snyrtivörum í Hagkaup og þar með reynt að koma í veg fyrir að viðskiptavinir Haga njóti lægra verðs á snyrtivörum.  Um er að ræða augljóst brot á samkeppnislögum en þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitinu hafi verið send óyggjandi sönnunargögn um inngripið kaus það að aðhafast ekki í málinu.

Fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna Haga og Lyfju að framkvæmd var sérstök neytendakönnun til að varpa ljósi á kauphegðun og sjónarmið neytenda.  Þá kemur einnig fram að „niðurstöður þessarar rannsóknar gefi eindregið til kynna að verslun í Fríhöfninni og netverslun sé ekki hluti af markaði málsins, þótt hún veiti innlendri verslun ákveðið samkeppnislegt aðhald“.  Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Samkeppniseftirlitsins höfðu 86,8% svarenda ferðast til útlanda undanfarna 12 mánuði.  Þá höfðu 56,4% keypt fínni snyrtivörur á sama tímabili, en flestir höfðu keypt snyrtivörur í Fríhöfninni, eða 50,1%, á meðan 48,3% keyptu í Hagkaup og 37,6% í erlendum verslunum.  Ekki verður sagt að þessar niðurstöður gefi eindregið til kynna að Fríhöfnin sé ekki hluti af markaði málsins.     

Við mat á samruna ber samkeppnisyfirvöldum að meta bæði hugsanleg neikvæð áhrif samruna á samkeppni, sem og hugsanleg jákvæð áhrif hans sem kunna að stafa af hagræðingu og öðrum jákvæðum áhrifum samrunans fyrir neytendur.  Ljóst er af gögnum málsins að jákvæð áhrif samrunans fyrir neytendur voru ekki metin við ákvörðunina. Svo virðist sem umsagnir um 80 aðila, sem flestir voru keppinautar og hagsmunaaðilar á lyfjamarkaði, hafi vegið þungt í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að hafna samrunanum, en hagsmunir neytenda minna. Þess vegna veldur niðurstaðan miklum vonbrigðum.