English Icelandic
Birt: 2017-08-09 09:56:45 CEST
Icelandair Group hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Iceland Travel og Gray Line sameinast

Samkomulag hefur náðst um sameiningu Iceland Travel ehf., sem er að fullu í eigu Icelandair Group, og Allrahanda GL ehf. sem er leyfishafi Gray Line Worldwide á Íslandi og er í eigu stofnenda fyrirtækisins og Akurs fjárfestinga slhf. Eftir sameiningu mun Icelandair Group eiga 70% hlutafjár í sameinuðu félagi og eigendur Allrahanda GL ehf. munu eiga 30% hlut. Markmið sameiningarinnar er að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini og jafnframt að ná fram hagræðingu í rekstri. Yfirstjórn og rekstur félaganna verða sameinuð en þjónusta áfram veitt undir sömu vörumerkjum og áður. Sameiningin er gerð með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakannana og samþykki eftirlitsaðila.

Velta Gray Line árið 2015 nam 3,6 milljörðum króna og EBITDA var 0,6 milljarðar króna. Velta félagsins á árinu 2016 nam 3,9 milljörðum króna og EBITDA var 0,2 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að heildarvelta sameinaðs félags á árinu 2017 verði tæplega 18 milljarðar króna.  Fyrirtækin hafa átt gott samstarf um árabil en hafa sérhæft sig með mismunandi hætti innan ferðaþjónustunnar.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og stjórnarformaður Iceland Travel: „Sameining félaganna er afar jákvætt skref og styrkir reksturinn til lengri tíma litið. Bæði fyrirtæki eru í fremstu röð í íslenskri ferðaþjónustu og sameiningin gerir þeim kleift að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu. Samkeppnin á markaðnum er mikil og Ísland og íslensk fyrirtæki eiga í harðri alþjóðlegri samkeppni. Það er því afar mikilvægt að rekstrareiningar séu hagkvæmar og að fyrirtækin leiti allra leiða til að straumlínulaga rekstur sinn. Sameinað félag nær sem heild yfir stærri hluta af virðiskeðjunni í ferðaþjónustu en félögin sem einingar gerðu áður. Því fylgja áhugaverð tækifæri til áframhaldandi þróunar, enda víða spennandi hlutir að gerast í íslenskri ferðaþjónustu.“

 

Frekari upplýsingar:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, s. 896-1455
Bogi Nils Bogason framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group s: 665-8801