Published: 2017-05-11 17:48:33 CEST

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu þrjá mánuði ársins 2017 - Félagið fær lánshæfismatið i.AA2

 • Rekstrartekjur tímabilsins námu  1.752 m.kr.
 • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.122 m.kr.
 • Heildarhagnaður tímabilsins nam 761 m.kr.
 • Handbært fé frá rekstri nam 1.001 m.kr. á tímabilinu.
 • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 78.926 m.kr. og bókfært virði eigin eigna nam 3.697 m.kr. í lok tímabilsins.
 • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 432 m.kr. á tímabilinu.
 • Vaxtaberandi skuldir námu 51.297 m.kr. í lok tímabilsins.
 • Eiginfjárhlutfall nam 32%. 
 • Hagnaður á hlut var 0,22 kr.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2017 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 11. maí 2017.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning fyrstu þrjá mánuði ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017 og er uppgjörið í takt við áætlanir stjórnenda félagsins. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017 námu 1.752 m.kr og aukast um 18,9% milli ára. Þar af voru leigutekjur 1.464 m.kr. og tekjur vegna hótelrekstrar 182 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.122 m.kr. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 951 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 761 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum) nam 74,0% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017 samanborið við 74,2% fyrstu þrjá mánuði ársins 2016.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam 432 m.kr á tímabilinu.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 84.890 m.kr. þann 31. mars 2017. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 78.926 m.kr. sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 76.360 m.kr., fasteignir í þróun 2.104 m.kr., byggingarréttir og lóðir 449 m.kr. og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 m.kr. Eigin eignir námu 3.697 m.kr. og er Pósthússtræti 2 (Hótel 1919) fært sem eigin eign þar sem í fasteigninni er annar rekstur en útleiga fasteigna og er reksturinn í eigu eins dótturfélags Eikar. Eigið fé félagsins nam 27.130 m.kr. í lok mars 2017 og var eiginfjárhlutfall 32%. Heildarskuldir félagsins námu 54.245 m.kr. þann 31. mars 2017, þar af voru vaxtaberandi skuldir 51.297 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 5.126 m.kr. 

Arðgreiðslustefna

Félagið greiddi 930 m.kr. í arð til hluthafa þann 27. apríl s.l. enda er það stefna stjórnar að greiða 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs í arð til hluthafa. Handbært fé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins nam 1.001 m.kr.

Eignasafn félagsins

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals yfir 293 þúsund fermetra. Virði fjárfestingareigna félagsins er um 79 ma.kr. og heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu eignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Nýi Glæsibær, Turninn í Kópavogi, Smáratorg, Glerártorg og Austurstræti 5,6,7 og 17. Stærstu leigutakar eru Húsasmiðjan, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Síminn, Landsbankinn, Deloitte, Míla, Vátryggingafélag Íslands og Fjarskipti (Vodafone).

Eik fasteignafélag fékk allar eignir Slippsins, fasteignafélags ehf. afhentar 1. mars 2017 eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Félagið fjárfesti í tveimur eignum á ársfjórðungnum, Hyrjarhöfða 8 og hæð í Síðumúla 15. Þá seldi félagið eignarhluta sinn í Melgerði 13, sem var eina eign félagsins á Reyðarfirði og hluta af eignarhluti sínum í Bæjarlind 14-16. Í apríl keypti félagið Miðhraun 2 í Garðabæ og seldi eignarhluta sinn í Hverafold 1-3.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 45%. Næst koma verslunarhúsnæði 26%, hótel 13%, lagerhúsnæði 9%, og veitingahúsnæði 4%. Um 91% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 36% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108), 23% í miðbæ Reykjavíkur og 19% í Smáranum - Mjódd. 9% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af 8% á Akureyri.

Virðisútleiguhlutfall

Félagið hefur breytt framsetningu sinni á virðisútleiguhlutfalli. Nú verður ekki lengur birt virðisútleiguhlutfall með þróunareignum heldur mun félagið þess í stað eingöngu birta virðisútleiguhlutfall án þróunareigna.

Virðisútleiguhlutfall félagsins var 97,2% í lok ársfjórðungsins og hækkaði um 0,8% frá áramótum.

Eik fær lánshæfismatið i.AA2

Íslenska lánshæfismatsfyrirtækið Reitun ehf. hefur í fyrsta skipti gefið út lánshæfismat á Eik fasteignafélag hf. Einkunnin er i.AA2 með stöðugum horfum. Þetta er hæsta lánshæfiseinkunn sem veitt hefur verið utan sértryggðra skuldabréfa fjármálastofnana eða stofnana sem njóta ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga.   

Einkunnargjöf Reitunar miðar við innlendar einkunnir í stað alþjóðlegra einkunna og er því i. bætt fyrir framan einkunnina. Ríkissjóður fær viðmiðunareinkunnina i.AAA sem er besta mögulega einkunn sem Reitun gefur. Aðrir útgefendur eru metnir út frá þeirri einkunn. Reitun flokkar einkunnir frá i.AAA til i.BBB3 sem fjárfestingahæfar eignir.

Skýrsla Reitunar er meðfylgjandi þessari tilkynningu.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur verður haldinn föstudaginn 12. maí 2017 klukkan 8:30 á Hóteli 1919 í fundarherberginu Goðafoss, Pósthússtræti 2, Reykjavík. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl. 8:00. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, mun kynna uppgjörið og sérfræðingar Reitunar kynna lánshæfismat Eikar. Að lokinni kynningu verður tekið við spurningum.

Fjárhagsdagatal 2017

 • Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2017           31. ágúst 2017
 • Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2017           8. nóvember 2017
 • Ársuppgjör 2017                                            26. febrúar 2018

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2200 / 820-8980

 


1F Árshlutaskýrsla.pdf
Lánshæfismat Eikar fasteignafélags.pdf