Icelandic
Birt: 2017-04-26 17:39:21 CEST
Síminn hf.
Reikningsskil

Síminn hf. - Hagnaður Símans eykst milli ára

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA eykst um 30,8% milli tímabila

Helstu niðurstöður í rekstri á fyrsta ársfjórðungi 2017

  • Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2017 námu 6.723 milljónum króna samanborið við 6.882 milljónir króna á sama tímabili 2016.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.099 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 samanborið við 1.605 milljónir króna á sama tímabili 2016 og hækkar því um 494 milljónir króna eða 30,8% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 31,2% fyrir fyrsta ársfjórðung 2017 en var 23,3% á sama tímabili 2016.
  • Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi 2017 nam 774 milljónum króna samanborið við 310 milljónir króna á sama tímabili 2016.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.427 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 en var 1.333 milljónir króna á sama tímabili 2016. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 2.096 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 en 896 milljónum króna á sama tímabili 2016.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 22,5 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 en voru 22,9 milljarðar króna í árslok 2016. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 18,2 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2017.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 207 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 en voru 296 milljónir króna á sama tímabili 2016. Fjármagnsgjöld námu 352 milljónum króna, fjármunatekjur voru 135 milljónir króna og gengishagnaður var 10 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 55,1% í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 og eigið fé 35,0 milljarðar króna. 

 

Orri Hauksson, forstjóri:

„Starfsfólki samstæðunnar tókst að fylgja árangrinum sem náðist á síðari hluta ársins 2016 vel eftir. Rekstur þessa fyrsta fjórðungs batnar myndarlega milli ára, sem fyrst og fremst má þakka markvissum aðgerðum við að lækka kostnað hjá samstæðunni, aukinni sölu Sensa á þjónustu og lausnum sem og vaxandi eftirspurn eftir sjónvarpsþjónustu Símans.

Síminn gekk frá nýjum viðamiklum samningi við kvikmyndaverið Disney á fjórðungnum, sem styrkir sjónvarpsþjónustuna enn frekar. Viðskiptavinum í áskriftarleigu okkar, Sjónvarpi Símans Premium, fjölgar hratt og telja þeir nú yfir 30 þúsund.

Samstæðan ver þessi misserin háum fjárhæðum í að uppfæra kerfi sín. Markmiðið er að styrkja undirstöðurnar fyrir samkeppni framtíðarinnar. Míla heldur áfram að ljósleiðaravæða höfuðborgarsvæðið og hefur tengt á sjöunda þúsund heimila við ljósleiðara sinn það sem af er ári, til viðbótar við þau 30 þúsund sem þegar höfðu verið tengd. Tugir nýrra 4G senda voru settir upp til að efla enn frekar hraðasta farsímakerfi landsins. Nú standa yfir prófanir á nýjum og enn hraðari sendum sem ná 300 megabita hraða. Kostnaður beggja fjárfestingaverkefna er hagstæður sem veldur því að útbreiðslan er hröð.

Við vinnum sem fyrr hörðum höndum að því að standa undir kröfum viðskiptavina okkar og erum á réttri leið með frábært sjónvarpsefni, hraða uppfærslu fastlínuinnviða og framúrskarandi farsímakerfi. Þróunin er hröð og við hlökkum til keppa áfram um hylli neytenda. Afkoman nú í upphafi árs styrkir þá trú okkar að grunnurinn sem lagður hefur verið sé traustur.“

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)

 

 


Siminn 31.03.2017.pdf
Siminn - Afkomutilkynning 1F 2017.pdf
Siminn - Fjarfestakynning 1F 2017.pdf