English Icelandic
Birt: 2017-04-03 13:28:19 CEST
Eimskipafélag Íslands hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Kaupin á Nor Lines ganga ekki í gegn

Norsk samkeppnisyfirvöld höfnuðu í dag kaupum Eimskips á norska flutningafyrirtækinu Nor Lines AS. Með þessari ákvörðun er ljóst að ekkert verður af kaupunum.

Áhrif mögulegra kaupa á Nor Lines voru ekki tekin með í reikninginn í áðurbirtri afkomuspá ársins 2017 og því hefur þessi niðurstaða engin áhrif á afkomuspá félagsins. Kostnaður Eimskips á árinu 2017 vegna verkefnisins er áætlaður EUR 300.000 sem gjaldfærist á fyrsta ársfjórðungi 2017.

Eimskip mun leita annarra leiða til að þróa og efla frekar starfsemi sína í Noregi, viðskiptavinum til hagsbóta. Hefðu þessi kaup á Nor Lines gengið eftir hefði það leitt til öflugri þjónustu við inn- og útflytjendur á norska markaðinum.

 

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Þessi niðurstaða er félaginu mikil vonbrigði þar sem norsk samkeppnisyfirvöld horfðu mjög þröngt á markaðinn og telja Eimskip vera markaðsleiðandi í flutningum á frystum fiski í Norður Noregi. Ég tel að samkeppnisyfirvöld hafi gert mistök með þessari þröngsýnu ákvörðun sinni.“

 

Um Eimskip

Eimskip er leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með tengingar við alþjóðlega markaði og sérhæfingu í flutningsmiðlun um allan heim, með þá framtíðarsýn að vera framúrskarandi í flutningalausnum og þjónustu. Eimskip var stofnað árið 1914 og er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland. Félagið rekur 60 starfsstöðvar í 20 löndum, er með 21 skip í rekstri og hefur á að skipa um 1.700 starfsmönnum.