Icelandic
Birt: 2017-02-15 17:42:45 CET
Sýn hf.
Reikningsskil

Fjarskipti hf. : Ár einskiptisliða og verðlækkana - horfur hækkaðar á ný fyrir 2017

Ársreikningur Fjarskipta hf. fyrir rekstrarárið 2016 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 15. febrúar 2017. Endurskoðendur félagsins hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun. Ársreikningurinn verður lagður fyrir aðalfund félagsins til staðfestingar þann 16. mars nk.

Helstu lykiltölur:

  • Heildartekjur á árinu námu 13.655 m.kr., sem er 1% lækkun á milli ára, og tekjur á fjórða ársfjórðungi námu 3.450 m.kr. sem er lækkun um 5% á milli ára.
  • Rekstrarhagnaður ársins nam 1.632 m.kr. sem er 15% lækkun á milli ára, rekstrarhagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 327 m.kr., sem er 14% lækkun á milli ára.
  • EBITDA hagnaður ársins nam 3.040 m.kr. og minnkar um 6% frá árinu 2015. EBITDA hagnaður nam 694 m.kr. á ársfjórðungnum og lækkar um 3% á milli tímabila.
  • EBITDA hlutfall ársins var 22,3% og EBIT hlutfall 12,0% - EBITDA hlutfall á ársfjórðungnum var 20,1% og EBIT hlutfall 9,5%.
  • Hagnaður ársins nam 1.007 m.kr. og minnkar um 22% á milli ára - hagnaður á ársfjórðungnum nam 170 m.kr. sem er 32% lækkun frá sama tímabili árið 2015.
  • Hagnaður á hlut nam 3,50 sem er 10% lækkun á milli ára.
  • Fjárfestingar ársins námu 1.539 m.kr. sem er 1% lækkun á milli ára, fjárfestingar á fjórða fjórðungi námu 498 m.kr. sem er 14 % lækkun á  milli ára.
  • Framlegð ársins nam 6.323 m.kr. og lækkar um 2% á milli ára - framlegð á ársfjórðungnum nam 1.520 m.kr. og minnkar um 4% á milli ára.
  • Eiginfjárhlutfall nam 47,6%.
  • Handbært fé frá rekstri nam 3.028 m.kr. á árinu, sem er 6% hækkun á milli ára. Handbært fé frá rekstri nam 871 m.kr. á fjórða fjórðungi sem er 83 % hækkun frá sama tímabili á milli ára.
  • EBITDA horfur eru hækkaðar á ný fyrir árið 2017, áætlaðar í kringum 3.250 m.kr. fyrir árið 2017 og fjárfestingarhlutfall í kringum 11%.
  • Stjórn leggur til að ekki verði greiddur út arður vegna rekstrarársins 2016.
  • Unnið er að gerð kaupsamnings vegna kaupa á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 sem áætlað er að klárist fyrir lok fyrsta ársfjórðungs.

Stefán Sigurðsson, forstjóri:

"Árið 2016 var að mörgu leyti sérstakt ár í rekstri Fjarskipta hf. þar sem margt fór saman; miklar launahækkanir í tengslum við kjarasamninga, einskiptiskostnaður vegna húsnæðismála, hagræðingaraðgerða og vinnu sérfræðinga við áreiðanleikakönnun vegna hugsanlegra kaupa á 365 miðlum hf. Á sama tíma höfðu markaðsaðstæður neikvæð áhrif á meðaltekjur af viðskiptavinum. Mótvægisaðgerðir gengu vel þar sem vöxtur í fjölda viðskiptavina hefur ekki verið meiri í seinni tíð eða 7%. Sjónvarpsvörur félagsins skiluðu mikilli aukningu í tekjum sem unnu á móti fyrrgreindum neikvæðum þáttum þrátt fyrir lækkun tekna í heildsöludreifingu sjónvarps. Horfur í rekstri félagsins fyrir árið 2017 eru betri, þar sem ætla má að hagræðingaraðgerðir árið 2016 og vöxtur viðskiptavina skili sér í betri rekstri árið 2017. Gert er ráð fyrir að félagið geti skilað um 3.250 milljónum sem væri betri niðurstaða m.t.t. EBITDA en árið 2015 sem var metár í rekstri félagsins.

Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu og mörg þróunarverkefni í burðarliðnum. Vodafone hefur tekið leiðtogahlutverk í IoT (Internet of Things) í samstarfi við Vodafone Group sem er leiðandi í heiminum á því sviði. Nýverið kynnti félagið tilraunaverkefni í samstarfi við Huawei varðandi NB-IoT (Narrowband Internet of Things) kerfi, en þessi tækni mun gera Íslendingum kleift að vera meðal leiðandi þjóða í hlutanetsbyltingunni á næstu árum. 

Enn er unnið að gerð kaupsamnings vegna fyrirhugaðra kaupa á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla hf. og bindum við vonir við að sú vinna klárist fyrir lok fyrsta ársfjórðungs. Það styttist auk þess í flutning í nýjar framtíðarhöfuðstöðvar félagsins að Suðurlandsbraut 8, sem mun skila félaginu hagræðingu en á sama tíma bæta til muna húsnæðiskost félagsins." 


Arsreikningur 2016.pdf
Frettatilkynning 4T og arsuppgjor 2016.pdf