Icelandic
Birt: 2017-01-05 18:29:24 CET
Vátryggingafélag Íslands hf.
Fyrirtækjafréttir

Kaup á rúmlega fimmtungs hlut í Kviku banka hf.

Vátryggingafélag Íslands hf. („VÍS“) hefur náð samkomulagi við fimm núverandi hluthafa Kviku banka hf. („Kvika“) um kaup á samtals 21,8% hlut í Kviku. Heildar kaupverð hlutanna er um 1.655 m.kr., sem samsvarar 5,4 kr. á hlut. Kaupverðið verður greitt að fullu með reiðufé.

Kvika er sérhæfður fjárfestingarbanki sem veitir sparifjár- og innlánseigendum alhliða fjármálaþjónustu. Viðskiptin falla vel að langtímahagsmunum VÍS og með þeim eignast VÍS umtalsverðan hlut í öflugu og framsæknu fjármálafyrirtæki.

Seljendur á hlutum í Kviku eru Titan B ehf. (7,27%), Ingimundur hf. (6,61%), Fagfjárfestasjóðurinn Norðurljós (5,77%), Kvika banki hf. (1,27%) og M-804 ehf. (0,92%).

Eftir þriðja ársfjórðung 2016 námu fjárfestingareignir VÍS 34,4 milljörðum og eignir samtals 47,8 milljörðum. Eigið fé félagsins var 15,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall 32,4%. Hluthafar VÍS eru um 800 talsins, stórir og smáir. Lífeyrissjóðir eru þar umsvifamestir og eiga samtals um 42% hlutafjár með beinum hætti.

Kvika starfar meðal annars samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Kaup VÍS á hlutum í Kviku eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins á hæfi VÍS til að fara með virkan eignarhlut í Kviku. Í kjölfar kaupanna verður óskað eftir mati Fjármálaeftirlitsins á hæfi VÍS og verður tilkynnt um niðurstöðu matsins þegar hún liggur fyrir.

Jakob Sigurðsson forstjóri VÍS: Með þessum viðskiptum eignast VÍS hlut í öflugu fyrirtæki sem stendur frammi fyrir spennandi tækifærum. Starfsemi tryggingafélaga byggist á tveimur meginstoðum; vátryggingastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Auk þess að vera gott fjárfestingatækifæri stuðla kaupin að dreifingu áhættu í eignasafni félagsins og þjóna þannig hagsmunum VÍS vel til lengri tíma. Af því njóta bæði viðskiptavinir og hluthafar góðs.

Frekari upplýsingar: Jakob Sigurðsson forstjóri VÍS, s. 660 5179.