Icelandic
Birt: 2016-06-24 21:33:56 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Fyrirtækjafréttir

Í tengslum við héraðsdóm Reykjavíkur í máli Lífsverks gegn Vátryggingafélagi Íslands hf.

Vísað er til tilkynninga félagsins til markaðarins þann 25. apríl, 26. apríl og 3. júní síðastliðinn um s.k. Lífsverksmál. Í tilkynningu frá 26. apríl sl. kom m.a. fram að niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur gagnvart VÍS væri sú að félagið væri dæmt til að greiða stefnanda kr. 852.511.441, auk vaxta og dráttarvaxta sem nema samtals um kr. 754.196.014. VÍS væri því gert að greiða kr. 1.606.707.455. Héraðsdómur komst m.a. að þeirri niðurstöðu að um tvö tjón væri að ræða og í stað þess að miða dæmda greiðslu við hámarksfjárhæð vátryggingarinnar, eins og VÍS krafðist, dæmdi héraðsdómur að greiða bæri vexti til viðbótar við hámarksfjárhæð vátryggingarinnar.

Í tilkynningu frá 3. júní sl. kom fram að í tengslum við frekari skoðun á málinu og undirbúning áfrýjunar hefði komið í ljós ákveðin óvissa um afstöðu endurtryggjenda til þátttöku þeirra í greiðslu vaxta umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar, sem er kr. 500.000.000.- í hverju tjóni.  Enn fremur kom fram í tilkynningunni að VÍS telur vexti samkvæmt dómi héraðsdóms ranglega dæmda sem nemur kr. 306.596.921.- með vísan til lagaákvæða um að vextir eldri en fjögurra ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og lagaákvæða um upphafsdag vaxta, en héraðsdómur miðar upphafsdag vaxta í tilviki beggja tjóna við sama dag.

Félaginu barst í dag afstaða endurtryggjenda til þátttöku í greiðslu vaxta og kostnaðar VÍS umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar. Afstaða endurtryggjenda, hvað þetta mál varðar, er sú að þeir telja sér ekki skylt að taka þátt í greiðslu vaxta og kostnaði félagsins umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar, að frádreginni eigin áhættu VÍS sem er 15%.

Afstaða VÍS er skýr. VÍS telur að endurtryggjendum beri að öllu leyti að fylgja skuldbindingum félagsins (e. follow the fortunes) sem kunna að stofnast þegar Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm í Lífsverksmálinu, samkvæmt ákvæði þar um í endurtryggingasamningi. Þá ber að geta þess að íslensk lög gilda um endurtryggingasamninginn, auk þess sem íslenskir dómstólar dæma um hvern þann ágreining sem upp kann að koma varðandi samninginn.

Eins og fram hefur komið í fyrri tilkynningum var ákveðið að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í Lífsverksmálinu til Hæstaréttar og er nú unnið að undirbúningi þess. Afstaða endurtryggjenda breytir þar engu um.

VÍS mun í framhaldi af þessari afstöðu endurtryggjenda fara nánar yfir réttarstöðu sína gagnvart endurtryggjendum með lögmönnum félagsins. Tekið skal fram að óvíst er hvort reyna muni á þennan ágreining milli VÍS og endurtryggjenda, en það fer eftir niðurstöðu Hæstaréttar í Lífsverksmálinu.