Published: 2016-06-14 11:45:05 CEST

Eik fasteignafélag hf.: Niðurstöður fundar með skuldabréfaeigendum í skuldabréfaflokknum EIK 12 01

Niðurstöður fundar Eikar fasteignafélags hf. með skuldabréfaeigendum í skuldabréfaflokknum EIK 12 01 sem haldinn var þriðjudaginn 14. júní 2016 kl. 9:00 að Álfheimum 74, 104 Reykjavík. 

  1. Ákveðið var að breyta sérstökum skilyrðum skuldabréfaflokksins er varðar kaup eigna þannig að ákvæði um kaup á eignum verði eftirleiðis:

Viðbætur við tryggingasafn: Til að viðhalda tryggingaskilyrðum skv. útgáfulýsingu þessari eða til að geta aukið skuldir tryggðar með veðandlaginu, getur útgefandi  bætt við tryggingum, sem munu bætast við veðandlagið á markaðsvirði, sem annað hvort skal staðfest af eftirlitsaðila eða öðrum óháðum sérfræðingi (að fengnu samþykki eftirlitsaðila) eða á grundvelli kaupsamnings um viðkomandi eign, sem skal vera að hámarki 6 mánaða gamall. Viðbætur við tryggingasafn skulu vera í samræmi við fjárfestingastefnu útgefanda sem sýnd er í viðauka 2, staðfest af veðgæsluaðila. Gengið skal frá nýrri veðsetningu á grundvelli skilmála sem veðgæsluaðili samþykkir, hann hefur eftirlit með þinglýsingu og tekur við frumritum nýrra veðskjala.

 2.         Ákveðið var að breyta skilmálum skuldabréfaflokksins um veðgæsluaðila þannig að hlutverk veðgæsluaðila verði eftirleiðis:

Sjá útdrátt úr samningi við veðgæsluaðila í viðauka. Útgefanda er heimilt að framlengja samninginn um önnur 5 ár í senn. Óski  útgefandi  eftir því að segja upp eða skipta um veðgæsluaðila krefst það  samþykkis  aukins meirihluta (75%) skuldabréfaeigenda miðað við fjárhæð í þessum skuldabréfaflokki og hverjum skuldabréfaflokki sem á veðréttindi í sama eignasafni og þessi skuldabréfaflokkur. Ávallt skal vera til staðar einn og hinn sami veðgæsluaðili fyrir alla skuldabréfaflokka sem eiga veðréttindi í sama eignasafni og samkvæmt þessum skuldabréfaflokki.

Útgefandi skal ávallt á líftíma skuldabréfanna hafa gildan samning við veðgæsluaðila. Komi til þess að ekki sé samningur til staðar við veðgæsluaðila skal síðasti veðgæsluaðili starfa með óbreyttar heimildir á grundvelli útseldra tíma samkvæmt eigin verðskrá á kostnað útgefanda þar til nýr veðgæsluaðili hefur verið ráðinn til starfa. Ákvæði þessa efnis skal koma fram í samningi við veðgæsluaðila.

 3.         Ákveðið var að breyta skilmálum skuldabréfaflokksins um veðgæsluaðila þannig að hlutverk veðgæsluaðila verði eftirleiðis:

Veðgæsluaðila ber að gæta hagsmuna allra skuldabréfaeigenda/veðhafa til jafns og varðveita frumrit tryggingarbréfa þeirra sem standa skuldabréfaflokknum til tryggingar. Þá skal hann boða til fundar að beiðni skuldabréfaeiganda vegna atkvæðagreiðslu um gjaldfellingu og innheimta skuldir tryggðar með tryggingum, komi til gjaldfellingar. Veðgæsluaðili skal ennfremur sjá um millifærslur af læstum bankareikningi útgefanda og skjalavörslu, þ.e. taka við frumritum nýrra tryggingarbréfa og/eða sjá um afléttingu þeirra. Samþykki veðgæsluaðila þarf fyrir kaupum útgefanda á fasteign, sbr. heimildir skv. ákvæðum skuldabréfaflokksins sem og fyrir breytingum eða nýjum leigusamningum við tengda aðila.

Við gjaldfellingu skuldabréfanna skal veðgæsluaðili taka að sér umsýslu og umsjón þess að ganga að tryggingum fyrir hönd eigenda skuldabréfanna. Hann hefur einn rétt til ákvörðunartöku og skal gæta hagsmuna allra eigenda skuldabréfa sem eiga veðréttindi til jafns. Tekur hann m.a. ákvörðun um með hvaða hætti og í hvaða röð fullnusta fer fram. Veðgæsluaðila er óheimilt að ráðstafa greiðslum sem til koma við innheimtu í kjölfar gjaldfellingar skuldabréfanna nema að slíkum greiðslum sé ráðstafað jafnt milli eiganda skuldabréfanna og eigenda annarra skuldabréfa sem tryggðar eru með sömu veðum og skuldabréfin. Ákvæði þessi skulu koma fram í einstökum tryggingabréfum sem undir útgáfu þessa falla.

Um skyldur veðgæsluaðila fer að öðru leyti skv. ákvæðum skuldabréfaflokksins og þjónustusamnings veðgæsluaðila við útgefanda gerðum á grundvelli þeirra. Þjónustusamningurinn getur aldrei gengið framar ákvæðum skuldabréfsins nema það sé til hagsbóta fyrir skuldabréfaeigendur.

 4.         Ákveðið var að breyta skilmálum skuldabréfaflokksins um eftirlitsaðila og bætt við eftirfarandi um hlutverk eftirlitsaðila:

Útgefandi skal ávalt á líftíma skuldabréfanna hafa gildan samning við eftirlitsaðila.

 5.         Ákveðið var að breyta skilmálum skuldabréfanna um sérstök skilyrði þannig að f-lið er varðar niðurfærslu hlutafjár var felldur brott.

 6.         Ákveðið var að breyta skilmálum skuldabréfanna um arðgreiðslur þannig að ákvæðið verður eftirleiðis:

Greiðsla arðs, kaup á eigin hlutabréfum eða lækkun hlutafjár til greiðslu til hluthafa er leyfileg innan þeirra marka sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist, að því gefnu að framangreind tryggingaskilyrði verði ekki brotin við arðgreiðsluna. Skilyrði arðgreiðslu, kaupa á eigin hlutabréfum eða lækkunar hlutafjár, í hvaða formi sem hún kann að vera, er að engar vanefndir skv. skuldabréfaflokki þessum séu til staðar eða fyrirsjáanlegar vegna slíkrar greiðslu eða viðskipta. Óheimilt er að greiða arð, kaupa eigin hlutabréf eða lækka hlutafé fari eiginfjárhlutfall útgefanda við það undir 25%.                 

 7.         Ákveðið var að breyta ákvæði skuldabréfaflokksins um tryggingar þannig að það verði eftirleiðis:

Útgefanda er óheimilt að veðsetja (e. negative pledge) leigutekjur af fasteignum veðandlagsins.

 8.         Ákveðið var að bæti við nýju sérstöku skilyrði er varðar skilyrði um veðgæsluaðila og eftirlitsaðila og hljóðar ákvæðið svo:

Veðgæsluaðili og eftirlitsaðili: Gildandi samningur skal á hverjum tíma vera til staðar við veðgæsluaðila og eftirlitsaðila. Þeir skulu ávalt vera starfandi á líftíma skuldabréfaflokksins

 

Frekari upplýsingar veitir Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2209 / 820-8980.

HUG#2020269