Icelandic
Birt: 2016-06-03 19:13:39 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Fyrirtækjafréttir

Í tengslum við héraðsdóm Reykjavíkur í máli Lífsverks gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. o.fl.

Vísað er til tilkynningar til markaðarins um niðurstöðu héraðsdóms í Lífsverksmálinu sem birt var 25. apríl síðastliðinn og leiðréttingar daginn eftir vegna misritunar á vaxtafjárhæð.  Í tilkynningunni kom fram að héraðsdómur Reykjavíkur hafi dæmt VÍS til að greiða Lífsverki kr. 852.511.441.- auk vaxta og dráttarvaxta að fjárhæð 754.196.014.- Samtals er VÍS því gert að greiða kr. 1.606.707.455.-, en eins og fram hefur komið hefur verið tekin ákvörðun um að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar.

Í tengslum við frekari skoðun á málinu og undirbúning áfrýjunar hefur komið í ljós ákveðin óvissa um afstöðu endurtryggjenda til þátttöku þeirra í greiðslu vaxta umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar, sem er kr. 500.000.000.- í hverju tjóni.  Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að um tvö tjón væri að ræða og að greiða bæri vexti umfram hámarksfjárhæð vátryggingarinnar. Þá er einnig rétt að upplýsa að VÍS telur vexti samkvæmt dómi héraðsdóms ranglega dæmda sem nemur kr. 306.596.921.- með vísan til lagaákvæða um að vextir eldri en fjögurra ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og lagaákvæða um upphafsdag vaxta, en héraðsdómur miðar upphafsdag vaxta í tilviki beggja tjóna við sama dag.

Eins og fram kemur í fyrri tilkynningu endurtryggir VÍS sig gagnvart tjónum sem þessum að stærstum hluta en endurtryggingastefna félagsins er sú að ekkert eitt tjón geti lækkað gjaldþol þess um meira en 3%.  Ef Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms telur félagið ólíklegt að það muni leiða til þess að gjaldþol félagsins muni lækka umfram þessi mörk. Hins vegar telur félagið rétt að upplýsa markaðinn um þessa óvissu.