Icelandic
Birt: 2016-04-26 15:47:54 CEST
Sýn hf.
Fyrirtækjafréttir

Fjarskipti hf. : Héraðsdómar í fimm skaðabótamálum vegna innbrots á "Mínar síður"

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í dag upp dóma í fimm skaðabótamálum, höfðuðum af jafnmörgum einstaklingum, sem byggja á því að hafa orðið fyrir tjóni vegna upplýsinga sem tölvuþrjótur stal af "Mínum síðum" á heimasíðu Fjarskipta hf. í nóvember 2013.

Niðurstaða héraðsdóms var sú Fjarskipti hf. var sýknað af kröfum tveggja stefnenda en var dæmt skylt til að greiða þremur þeirra skaðabætur, samtals að fjárhæð 2.700.000, auk vaxta og málskostnaðar.

Þessir fimm einstaklingar kröfðust fyrir dómi greiðslu skaðabóta samtals að höfuðstól 103.800.000 kr. Einn gerði kröfu um bætur að höfuðstól 90.000.000 kr. og honum voru dæmdar 1.500.000 kr. Annar gerði kröfu um bætur að höfuðstól 12.000.000 kr. og honum voru dæmdar 1.000.000 kr. Sá þriðji gerði kröfu um bætur að höfuðstól 600.000 kr. og honum voru dæmdar 200.000 kr. Við hinar dæmdu fjárhæðir bætast vextir og dráttarvextir. Eins bætist við málskostnaður sem Fjarskiptum hf. ber samkvæmt dómunum að greiða til þessara þriggja einstaklinga, samtals að fjárhæð 1.800.000 kr.

Þeir fjórðu og fimmtu gerðu hvor fyrir sig kröfu um bætur að höfuðstól 600.000 kr. en af þeim kröfum voru Fjarskipti hf. sýknuð.

Fjarskipti hf. munu nú gefa sér tíma til að kynna sér forsendur dómanna og meta framhaldið.

Enn liggur fyrir héraðsdómi til úrlausnar bótakrafa eins einstaklings til viðbótar en höfuðstóll hennar hljóðar upp á 8.424.500 kr. Aðalmeðferð í málinu fer fram 13. maí nk.

Innan Fjarskipta hf. hefur mikil vinna átt sér stað undanfarin ár á sviði öryggismála og hefur félagið kappkostað að læra af reynslunni. Innleiðingarferli öryggisvottunar upplýsingakerfa samkvæmt ISO-27001 upplýsingaöryggisstaðlinum var hafið þegar fyrrnefnt innbrot átti sér stað en fyrirtækið fékk vottun í júlí 2014 á grundvelli staðalsins sem var síðan uppfærð árið 2015 og tekur nú til alls fyrirtækisins. Vottunin felur í sér formlega viðurkenningu á því að hjá Vodafone sé upplýsingaöryggi stjórnað samkvæmt fyrirfram ákveðnum ferlum og fagleg vinnubrögð viðhöfð í hvívetna. Vottunin tryggir jafnframt stöðugar umbætur í upplýsingaöryggismálum og veitir þannig jákvætt aðhald en úttekt fer árlega fram. 

HUG#2006916