Icelandic

Þessi tilkynning hefur verið leiðrétt. Smelltu hér til að skoða leiðrétta tilkynningu

Birt: 2016-04-25 23:45:22 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Fyrirtækjafréttir

Niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lífsverks gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. o.fl.

Í dag, 25. apríl, féll dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lífsverks lífeyrissjóðs gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. og sjö fyrrum stjórnarmönnum sjóðsins (mál nr. E-2942/2014). Stefnufjárhæðin var kr. 1.828.120.939 auk vaxta og dráttavaxta. Um er að ræða kröfu Lífsverks í ábyrgðartryggingu stjórnar og stjórnenda, þar sem VÍS er vátryggjandi.

Málið snýst um tvær fjárfestingar sem þáverandi stjórn og stjórnendur lífeyrissjóðsins tóku ákvörðun um í mars og september 2008. Um var að ræða fjárfestingar í svonefndum lánshæfistengdum skuldabréfum (e. credit linked notes), sem gefin voru út af svissneska bankanum UBS AG, Jersey  Branch, en fjárfestingar þessar voru gerðar fyrir milligöngu Landsbanka Íslands.

Lífsverk byggði m.a. á því að ákvarðanir fyrrum stjórnenda sjóðsins og umræddar fjárfestingar samkvæmt þeim hafi verið ólögmætar þar sem þær hafi stangast á við þær fjárfestingarheimildir sem lífeyrissjóðir njóta skv. 36.gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lánshæfistengdu skuldabréfin hafi verið afleiðugerningar, en ekki skuldabréf, sem óheimilt hafi verið að eiga viðskipti með samkvæmt framangreindu lagaákvæði.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst að hluta til á kröfur stefnanda í málinu. Niðurstaða þess gagnvart VÍS er sú að VÍS er dæmt til að greiða stefnanda kr. 852.511.441, auk vaxta og dráttarvaxta sem nema samtals um kr. 416.000.000. VÍS er því gert að greiða um kr. 1.268.511.441.

VÍS hefur þegar tekið ákvörðun um að áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar.

VÍS endurtryggir sig gagnvart tjónum sem þessum að stærstum hluta.  Eins og fram kemur í skráningarlýsingu félagsins gerir endurtryggingastefna félagsins ráð fyrir að ekkert stakt tjón geti lækkað gjaldþol þess um meira en 3%. Fjárhæðin sem fallið getur í hlut VÍS í þessu máli er innan marka stefnunnar og hefur að stórum hluta verið færð í tjónaskuld félagsins frá árinu 2013.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.