Icelandic
Birt: 2016-03-04 15:34:23 CET
Ríkisútvarpið ohf.
Reikningsskil

Ársreikningur Ríkisútvarpsins ohf.

Ríkisútvarpið ohf. skilar jákvæðri rekstrarafkomu

 

  • Jákvæður viðsnúningur í rekstri frá fyrra ári.
  • Rekstrarniðurstaða almanaksársins 2015 er 80 m.kr. hagnaður fyrir skatta, samanborið við 339 m.kr tap á fyrra rekstrarári.
  • Rekstrarniðurstaða 16 mánaða tímabils er 14 m.kr. hagnaður fyrir skatta.
  • Hagræðingaraðgerðir hafa skilað sér og jafnvægi er komið á í rekstri félagsins.
  • Þrátt fyrir jákvæða afkomu ríkir enn óvissa um framtíðarhorfur vegna yfirskuldsetningar félagsins.
  • Unnið er að nýjum þjóustusamningi fyrir árin 2016-2019.  

Helstu niðurstöður ársuppgjörs Ríkisútvarpsins eru að umtalsverður viðsnúningur hefur orðið á rekstri félagsins frá fyrra ári. Rekstrarniðurstaðan sýnir 14 m.kr. hagnað fyrir skatta á 16 mánaða rekstrarárinu[i] en tap síðasta rekstrarárs, 2013-2014 var 339 m.kr. fyrir skatta. Þá kemur einnig fram að á almanaksárinu 2015 var 80 m.kr. hagnaður fyrir skatta. Söluréttur byggingarréttar vegna lóðar við Efstaleiti er ekki tekjufærður í þessum ársreikningi.

Breytingaferli síðasta árs hefur skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er, m.a. var stór hluti húsnæðis RÚV leigður út. Rekstrargjöld lækka að raunvirði milli áranna 2014 og 2015 þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hækki en sá kostnaður er til kominn vegna samnings um stafræna dreifingu frá 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli sömu tímabila en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við yfirstjórn lækkar milli tímabila. Tekjur félagsins hækka á milli ára. Stöðugildi voru að meðaltali 259 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð Ríkisútvarpsins í október 2015. Þegar hafa verið greiddar 800 m.kr. vegna sölunnar sem Ríkisútvarpið ráðstafaði til niðurgreiðslu skulda. Vegna fyrirvara í kaupsamningi og varúðarsjónarmiða er söluhagnaður ekki færður í ársreikningi ársins 2015.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri:

„Jákvæð afkoma ársins staðfestir mikinn árangur af því umbótastarfi sem samstilltur hópur allra starfsmanna og stjórnar RÚV hefur unnið. Á sama tíma og hagrætt hefur verið í rekstri hefur þjónustuframboð RÚV verið endurskoðað til hagsbóta fyrir almenning í landinu. Ríkari áhersla hefur verið lögð á sérstöðu Ríkisútvarpsins þar sem áhersla er aukin á innlent efni, þjónusta við börn stórbætt með tilkomu Krakka-RÚV, menningarefni sett í öndvegi og þjónusta við landsbyggðina aukin. Nýr vefur og nýtt stafrænt dreifikerfi eru einnig mikilvæg framfaraskref. Sala á byggingarrétti við Efstaleiti mun létta á skuldsetningu félagsins en það er þó enn yfirskuldsett og skuldir eru enn þungur baggi á starfseminni. Það er mikilvægt að sem fyrst verði lokið við gerð nýs þjónustusamnings sem tryggir stöðugleika í fjárveitingum og gerir félaginu kleift að gera eðlilegar langtímaáætlanir. Trygg og fyrirsjáanleg opinber fjármögnun er grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis-, menningar- og samfélagshlutverk sitt af kostgæfni.“

Framtíðarhorfur og efnahagur

Útvarpsgjald var lækkað í upphafi árs 2015 en áður höfðu möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna verið takmarkaðir með nýrri lagasetningu. Nýsamþykktir kjarasamningar á almennum markaði munu enn fremur hækka rekstrarkostnað félagsins. Þjónustusamningur milli RÚV og mennta- og menningarmálaráðherra rann út í lok árs 2015. Nýr þjónustusamningur til næstu fjögurra ára er enn í vinnslu þar sem kveðið skal á um skuldbindingar og fjármögnun út samningstímann. Þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning í rekstri að undanförnu, þarf félagið að grípa til frekari aðgerða til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur.

Þrátt fyrir sölu byggingarréttar verður félagið áfram yfirskuldsett og hefur stjórn Ríkisútvarpins vakið athygli eigandans, ríkisins, á því að félagið hafi á komandi árum ekki burði til þess að standa undir hinni miklu skuldsetningu án aðgerða. Sjálfstæð úttekt PwC frá árinu 2014 staðfesti að félagið hefði um hríð verið yfirskuldsett og vegur þar þyngst gamalt lán vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum.

Nánari upplýsingar veitir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, s: 515 3000

 

 

 

 

 


 

 

[i] Breytt rekstrarár Ríkisútvarpsins ohf. Á hluthafafundi Ríkisútvarpsins ohf. þann 24. febrúar 2015 var samþykkt breyting á samþykktum félagsins þess efnis að reikningsár félagsins verði almanaksárið í stað 1. september til 31. ágúst. Breytingin var gerð í samræmi við óskir frá hluthafa félagsins, Fjársýslu ríkisins og Ríkisendurskoðun. Af þeim sökum er ársreikningurinn sem nú er birtur frábrugðinn ársreikningum fyrri ára og tekur því til 16 mánaða tímabils, 1. september 2014 til 31. desember 2015. Til samanburðar er birt afkoma síðasta rekstrarárs (1. september 2013-31.ágúst 2014).

 

 


Arsreikningur 2015.pdf
Frettatilkynning RUV_Arsreikningur 2015.pdf