Icelandic
Birt: 2016-02-24 16:31:55 CET
Vátryggingafélag Íslands hf.
Reikningsskil

Vátryggingafélag Íslands hf. - Ársuppgjör 2015

Afkoma VÍS á árinu 2015

Samstæðuársreikningur félagsins fyrir árið 2015 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2016.

Verður ársreikningurinn lagður fyrir aðalfund þann 16. mars 2016 til staðfestingar.

Helstu niðurstöður

· Hagnaður af rekstri nam 2.076 m.kr. samanborið við 1.240 m.kr. hagnað 2014.

· Hagnaður af rekstri án niðurfærslu óefnislegra eigna var 3.220 m.kr.

· Samsett hlutfall var 101,5% en var 104,5% 2014.

· Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu  4.076 m.kr. samanborið við 2.439 m.kr. 2014. 

· Ávöxtun fjáreigna nam 12,2% á árinu, en 7,1% árið 2014.

· Óefnislegar eignir voru færðar niður alls um 1.144 m.kr. að teknu tilliti til skatta.

· Arðsemi eigin fjár nam 11,3%, en hefði numið 17,5% ef ekki hefði komið til niðurfærslu óefnislegra eigna.

 

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri

„Rekstur félagsins á árinu 2015 gekk vel og var hagnaður af rekstri tæpir 2,1 milljarðar króna.  Ánægjulegt er að sjá að ágætur vöxtur var í innlendum iðgjöldum og hækkuðu bókfærð iðgjöld  um 5,8% á árinu.  Þrátt fyrir iðgjaldavöxt er vöxtur í tjónatíðni áhyggjuefni og það verður áfram áskorun að ná ásættanlegri afkomu af mörgum greinaflokkum vátrygginga.  Samsett hlutfall á árinu 2015 var 101,5% en markmið félagsins er að vera með samsett hlutfall undir 100%.

Góð afkoma á árinu skýrist öðru fremur af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna.  Fjárfestingastarfsemin gekk vel á árinu og er jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum.  Ávöxtun skuldabréfa var góð og eins skilaði innlenda hlutabréfasafn félagsins góðri afkomu.  Ávöxtun erlendra eigna félagsins olli vonbrigðum á síðasta ári.“

Breyting á reikningsskilaaðferð í samræmi við Solvency II

Í lok árs 2015 breytti félagið um reikningsskilaaðferð við mat á vátryggingaskuld í tengslum við  innleiðingu á löggjöf um vátryggingastarfsemi, Solvency II sem taka mun gildi hér á landi snemma árs 2016.  Upptaka nýrrar löggjafar þýðir meðal annars að áhætta í rekstri félagsins er nú mæld með öðrum hætti en áður.  Þessi breyting hefur í för með sér áhrif á stöðu eigin fjár, vátryggingaskuldar og tekjuskatts og eru rekstrarreikningur ársins 2014 og efnahagsreikningar áranna 2013 og 2014 lagaðir að breytingunni.  Vátryggingaskuld í ársbyrjun 2014 lækkar um 5.001 milljón króna og eigið fé hækkar um 3.694 milljónir króna vegna þessa.

Tillaga gerð um 5 milljarða króna arðgreiðslu.

Arðgreiðslutillaga stjórnar á árinu 2016 tekur mið af markmiði um gjaldþolshlutfall og nemur kr. 2,17 á hlut eða samtals um  5.000 m.kr. 

Stjórn VÍS hefur sett félaginu markmið um áhættuvilja með vikmörkum sem auðveldar stýringu á heildaráhættu félagsins. Markmið um gjaldþolshlutfall er 1,50 með neðri mörkum 1.35.  

Áætlað gjaldþolshlutfall eftir útgreiðslu arðs er 1,55.

Félagið er fjárhagslega sterkt með heildareignir í árslok 2015 44.874 m.kr. og skuldir 27.322 m.kr.  Hlutfall auðseljanlegra eigna í eignasafni félagsins var 73,7% um áramótin, þar af eru 29,1% í ríkisskuldabréfum og handbæru fé.  Félagið er því vel í stakk búið að mæta skuldbindingum sínum.

Niðurfærsla óefnislegra eigna

Í árslok var ákveðið að niðurfæra með einskiptis gjaldfærslu fjárfestingu félagsins í hugbúnaði, samtals að fjárhæð 1.144 m.kr. að teknu tilliti til skatta. Áhrif niðurfærslunnar á gjaldþol félagsins og arðgreiðslumöguleika eru engin.

Virðisrýrnunin hefur ekki áhrif á fyrirhugaða nýtingu félagsins á hugbúnaðinum sem nú er áætlað að verði tekinn í notkun um mitt ár 2016.  Félagið mun með þessari stöðluðu tryggingalausn styrkja grunninnviði sína og njóta framþróunar á kerfinu með stórum hópi annarra tryggingafélaga.

Víkjandi skuldabréf

Félagið hefur tilkynnt um fyrirhugaða útgáfu víkjandi skuldabréfa að nafnverði 2.500 m.kr. en útgáfa skuldabréfanna er liður í endurskipulagningu á fjármagnsskipan félagsins og mun hún tilheyra eiginfjárþætti 2.  Skuldabréfin verða gefin út 29. febrúar 2016. 

Horfur

Ágætur iðgjaldavöxtur var á árinu 2015 og reiknar félagið með að iðgjöld haldi áfram að vaxa á árinu 2016.  Reiknað er með að samsett hlutfall á árinu 2016 verði lægra en það var á árinu 2015.

Kynningarfundur

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla 3, 5. hæð, þann 25. febrúar n.k. kl. 8:30. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS: www.vis.is

 

Fjárhagsdagatal

Viðburður                             Dagsetning:

Ársuppgjör 2015           24. febrúar 2016

Aðalfundur 2016              16. mars 2016

Fyrsti ársfjórðungur             3. maí 2016

Annar ársfjórðungur        25. ágúst 2016

Þriðji ársfjórðungur      26. október 2016

Ársuppgjör 2016           23. febrúar 2017

Aðalfundur 2017              16. mars 2017

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri í síma 560-5000 og í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.


Afkomutilkynning_arsuppgjor 2015.pdf
Arsreikningur samstu VIS 2015.pdf
Stjornarhattayfirlysing_2016.pdf