Icelandic
Birt: 2012-06-20 11:31:08 CEST
Reginn hf.
Fyrirtækjafréttir

Niðurstöður útboðs

Umframeftirspurn eftir hlutabréfum í fasteignafélaginu Regin

Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í fasteignafélaginu Regin hf., dótturfélagi Eignarhaldsfélags Landsbankans ehf., í almennu hlutafjárútboði sem lauk klukkan 16:00 þriðjudaginn 19. júní 2012. Í útboðinu bauð Eignarhaldsfélag Landsbankans allt að 975 milljónir hluta í Regin til sölu, eða sem nemur 75% hlutafjár í félaginu.

Heildareftirspurn í útboðinu nam 10,3 milljörðum króna. Heildarsöluverðmæti útboðsins var 7.895 milljónir króna. Tekið var tilboðum í 963 milljónir hluta en Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf. ákvað að halda eftir rúmlega 12 milljónum hluta í Regin til þess að selja til viðskiptavaka. Við skráningu mun Eignarhaldsfélag Landsbankans eiga 25% hlut í Regin.

Útboðsgengi hefur verið ákveðið 8,2 krónur á hlut. Allir sem buðu verð á eða yfir útboðsgengi og tilgreindu hámarksverð á eða yfir útboðsgengi fá úthlutað hlutum. Tilboðum undir útboðsgengi var hafnað.

Hluthafar í Regin verða tæplega eitt þúsund og að frátöldu Eignarhaldsfélagi Landsbankans ehf. sem á 25% hlut í félaginu, eiga allir hluthafar minna en 10% hlut hver. 

Í áskriftarhluta útboðsins, þar sem áskriftir voru frá 100.000 krónum til 49.999.999 króna, fá fjárfestar áskriftir sínar óskertar en áskriftir í tilboðsbók, sem hver og ein var að lágmarki 50 milljónir króna, voru skertar hlutfallslega að teknu tilliti til heildarfjárhæðar tilboðs og tilboðsgengis. Þeir fjárfestar sem buðu hæst fá áskriftir sínar óskertar en þeir sem lögðu fram tilboð á útboðsgengi sæta 13% skerðingu. Skerðing annarra fjárfesta var hlutfallsleg á bilinu 0-13%.

Fyrirtækjaráðgjöf og Markaðsviðskipti Landsbankans voru umsjónar- og söluaðilar útboðsins.

Greiðsludagur og afhending

Þeir skilmálar sem Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf. setti fyrir gildi útboðsins eru uppfylltir, en þeir vörðuðu sölu á að lágmarki helmingi hlutafjár í Regin og að skilyrðum Aðalmarkaðar NASDAQ OMX Iceland hf. um dreifingu hlutafjár yrði náð.

Gjalddagi og eindagi greiðsluseðla vegna útboðsins er 27. júní nk. og verða hlutir í Regin afhentir kaupendum 29. júní nk. Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf í Regin á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland er áætlaður 2. júlí 2012, en NASDAQ OMX Iceland mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með hlutabréf í félaginu með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans:

„Með útboðinu hefur Landsbankinn náð markmiðum sínum um að standa við yfirlýsta stefnu um sölu eigna í óskyldum rekstri og að efla íslenskan hlutabréfamarkað. Eftirspurn eftir hlutafé í félaginu sýnir að uppbygging félagsins hefur mælst vel fyrir og verðið sem nú hefur myndast á opnum markaði er ásættanlegt fyrir Landsbankann. Þátttaka í útboðinu var góð, bæði af hálfu almennings og fagfjárfesta, eignarhaldið er dreift og í heild gefur þessi reynsla vísbendingar um að íslenskur hlutabréfamarkaður geti gegnt mikilvægu hlutverki við endurskipulagningu og fjármögnun íslenskra fyrirtækja.“

 

 

Nánari upplýsingar veitir:

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans í síma 410-4011/899-9352

pr@landsbankinn.is